Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. mars 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Notendastýrð þjónusta

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra tilkynntu á blaðamannafundi í dag að ríkisstjórnin hefði ákveðið að koma á tilraunaverkefni til tveggja ára um notendastýrða þjónustu fyrir fjóra til sex einstaklinga sem þurfa á öndunarvélaþjónustu að halda. Þjónustan verður einkum veitt á vettvangi félagsmálaráðuneytisins en heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur styrkt Landspítala háskólasjúkrahús til að annast fræðslu og þjálfun starfsfólks og til að útvega tækjabúnað

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma á tilraunaverkefni til tveggja ára um svonefnda notendastýrða þjónustu sem mun taka til fjögurra til sex einstaklinga sem þurfa á öndunarvélaþjónustu að halda vegna sjúkdóma eða slysa. Þjónustan gerir þeim kleift að fara ferða sinna og taka virkan þátt í samfélaginu með hjálp aðstoðarmanna í stað þess að vera bundnir öndunarvél á hjúkrunarstofnun.

Félagsmálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tilkynntu um ákvörðun ríkisstjórnarinnar á ráðstefnunni mótum framtíð um félagslega þjónustu á Nordica hotel í dag.

Ákvörðunin byggist á tillögum nefndar um notendastýrða þjónustu sem starfar á vegum félagsmálaráðuneytisins.

Þessi tilhögun tíðkast orðið nokkuð í nágrannalöndum okkar, einkum á Norðurlöndunum, og er upprunnin í Danmörku.

Þjónustan verður einkum veitt á vettvangi félagsmálaráðuneytisins en heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið annast fræðslu og þjálfun starfsfólks og útvegar nauðsynlegan tækjabúnað.

„Þetta varðar sjálfræði, lífsgæði og mannlega reisn og er kærkomin viðbót við þá fjölbreyttu þjónustu sem veitt er þeim sem búa við fötlun hér á landi", sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra.

„Þetta er stórkostlegur áfangi í því að veita tilteknum hópi einstaklinga tækifæri til að búa áfram heima en ekki á stofnun", sagði Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Evald Krog, formaður Muskelsvindfonden í Danmörku, og Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, eru staddir á ráðstefnunni en þeir hafa báðir verið ötulir talsmenn þess að framangreind þjónusta yrði veitt hér á landi.

Sjá nánar um verkefnið í meðfylgjandi fréttatilkynningu félagsmálaráðuneytisins:

Féttatilkynning: Tilraunaverkefni um öndunarvélaþjónustu (pdf. skjal)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum