Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Kleppur hundrað ára

Guðlaugur Þór Þórðarson

100 ára afmæli Kleppsspítala

25. maí 2007

Góðir gestir.

Mér er það mikill heiður að fá að ávarpa ykkur á þessum merku tímamótum. Eins og ykkur mun renna í grun, þá er þetta eitt fyrsta embættisverk mitt sem nýskipaður heilbrigðismálaráðherra. Á þessum merku tímamótum er mikilvægt að minnast gamla tímans. Umönnun geðsjúkra var lengi heft af fordómum og skorti á öflugum meðferðarúrræðum. Kleppsspítali og þeir sem þar dvöldu fóru ekki varhluta af þessum fordómum.

Með tilkomu Kleppsspítala var tekið ótrúlegt framfaraskref í meðferð geðsjúkra hérlendis. Kleppsspítala var frá upphafi stýrt af framsýnu fagfólki sem tókst vel að kveðja gamla tímann, hafna þeim aðferðum sem reyndust hafa verið gamaldags eða gagnslitlar og innleiða snemma nútímalegar og árangursreyndar meðferðir.

Ný lyf voru tekin í notkun um leið og ljóst var að þau reyndust vel og sál- félagslegar meðferðir komust fljótt í notkun. Mikil áhersla var frá upphafi að því að huga vel að aðbúnaði sjúklinga.

Þótt þröngt hafi verið um sjúklingana framan af hefur alla tíð ríkt mikill metnaður til þess að bæta stöðugt aðstæður og aðbúnað þeirra. Nýir meðferðarmöguleikar bættu árangur og það leiddi af sér möguleika að stytta legutíma, samhliða þessu var markvisst unnið að því að auka tilboð um meðferð og stuðning við sjúklinga utan spítala.

Þjálfunarmeðferðir ýmis konar voru teknar í notkun til aukinnar sjálfsbjargar og vinnuþjálfunar og starfsfólk Kleppsspítala hefur verið í fararbroddi hvað varðar ýmiskonar endurhæfingu s.s. iðjuþjálfun, sjúkrahústengda  heimahjúkrun og búsetuþjálfun og beitt sér fyrir margskonar nýjungum til að efla sjálfsgetu og sjálfstæði sjúklinganna.

Innan veggja spítalans hafa starfað frumkvöðlar á þessum sviðum sem allir höfðu að leiðarljósi að vinna saman eftir bestu faglegu stöðlum með þarfir sjúklingsins í fyrirrúmi. Allir þessir fórnfúsu frumkvöðlar eiga þakkir okkar skyldar.

Á Kleppsspítala  hefur um áraraðir verið stunduð viðamikil kennsla í geðheilbrigðisfræðum og þar hefur ríkt mikill metnaður til vísindastarfa sem vakið hefur athygli langt út fyrir landsteinanna.

Á Kleppi stendur vagga þjónustu við geðsjúka á Íslandi. Sú faglega  þróun sem þar hefur farið fram á viðkvæmum mótunartíma nútíma geðheilbrigðisþjónustu er meðal þeirrar bestu sem þekkist. Starf frumkvöðla í geðlækningum og geðhjúkrun við Kleppsspítalann varð sá grunnur sem þjónusta við geðsjúka byggir á í dag.  Sá grunnur er traustur og mun nýtast  vel til enn frekari árangurs í baráttunni gegn geðsjúkdómum.

Góðir gestir.

Mér er ljóst að ég er að taka að mér viðamikið embætti. Ég hlakka mikið til samstarfs við alla þá sem við heilbrigðisþjónustu starfa og hennar njóta og mun nýta krafta mína í þágu sjúkra í landinu, áhersla á mál geðsjúkra mun verða mjög ofarlega á verkefnalista mínum.

Ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum