Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. október 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands

Forstjóri og starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands, góðir gestir,

Það er mér ánægja að ávarpa þennan ársfund Náttúrufræðistofnunar, hinn fyrsta eftir að ég tók við embætti sem umhverfisráðherra. Ég tel að framundan séu mörg sóknarfæri fyrir Náttúrufræðistofnun og möguleiki á að efla stofnunina og starf hennar og áhrif á stefnumótun stjórnvalda. Ég mun tæpa á nokkrum atriðum hér sem ég tel skipta máli í því sambandi.

Grunnrannsóknir

Eitt af meginmarkmiðum mínum á kjörtímabilinu er að styrkja stöðu náttúruverndar á Íslandi. Á undanförnum árum hefur náttúruverndin farið halloka gagnvart hagsmunum annarrar landnýtingar, ekki síst stóriðju. Það er kominn tími til að jafna stöðuna.

Náttúrufræðistofnun Íslands er grundvallarstofnun á sviði náttúruvísinda og náttúruverndar, bæði hvað varðar rannsóknir og vöktun náttúrunnar. Það er undirstaða náttúruverndar að hafa góð ítarleg og aðgengileg gögn um náttúruna og breytingar sem verða af völdum manna eða náttúrulegra ferla. Það vita allir sem hér eru, að fjárveitingar til rannsókna á grunnþáttum náttúrunnar eru af skornum skammti og standa höllum fæti í samanburði við rannsóknir sem miða að hagnýtingu náttúrulegra gæða. Við þurfum að rétta hlut grunnrannsókna og ég mun í þessari ríkisstjórn beita mér fyrir því að auknu fé verði varið til þeirra og vöktunar á náttúru landsins. Það má m.a. gera í tengslum við nýja rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, þar sem ætlunin er m.a. að gera úttekt á háhitasvæðum og verndargildi þeirra. Samfara þessu þurfum við að styrkja uppbyggingu og samtengingu gagnagrunna um náttúru landsins svo nýta megi upplýsingar um náttúru landsins til kortlagningar og mats á verndargildi einstakra þátta náttúrunnar. Við erum að meta stöðu núgildandi náttúruverndaráætlunar og undirbúa þá næstu fyrir tímabilið 2009-2013. Í þeirri vinnu er mikilvægt að nýta sem best þá þekkingu og reynslu sem starfsfólk Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar búa yfir og að stofnanirnar vinni vel saman. Við þurfum að leggja mat á gildi friðlýstra svæða og meta hvað nýtur þar verndunar. Í framhaldi þarf að leggja ítarlegra mat á svæðin á náttúruverndaráætlun og náttúruminjaskrá í þeim tilgangi að byggja grunn að neti svæða til verndunar líffræðilegri fjölbreytni og mikilvægra jarðfræðiminja, víðerna og landslags.

Hafið -

Stofnunin hefur undanfarin 15 ár safnað í samvinnu við aðra rannsóknaraðila í BioIce verkefninu mikilvægum upplýsingum um lífríki hafsins umhverfis landið. Við þurfum nú að gera okkur grein fyrir því hvernig við getum notað þessar upplýsingar til aukinnar verndunar á lífríki og umhverfi hafsins og hver næstu skrefin verða í rannsóknum á jarðfræði og lífríki sjávar. Við þurfum að samnýta þekkingu rannsóknarstofnana á hafinu og hafsbotninum í þeim tilgangi að auka verndun viðkvæmra hafsvæða, tegundaríkra og sérstæðra svæða og þeirra sem mestu máli skipta fyrir vöxt og viðkomu okkar helstu nytjastofna. Við þurfum að auka friðlýsingu mikilvægra hafsvæða, svo sem kóralsvæða, neðansjávarfjalla og jarðhitasvæða innan lögsögu landsins sem máli skipta fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni fyrir árið 2012 í samræmi við alþjóðleg fyrirheit.

Stefnumörkun um líffræðilega fjölbreytni

Vinna við stefnumörkun íslenskra stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni er nú á lokastigi í vinnu nefndar fulltrúa fimm ráðuneyta undir formennsku umhverfisráðuneytisins. Ritari nefndarinnar er frá Náttúrufræðistofnun og stofnunin hefur verið bakland nefndarinnar og á þakkir skildar fyrir sitt framlag. Lokalotan í starfinu mun byggjast á þátttöku aðila innan og utan stjórnkerfisins, sem hefur verið boðið að senda inn athugasemdir við drög sem kynnt voru á nýliðnu Umhverfisþingi. Það er mikilvægt að ekki verði litið á samþykkt og útgáfu stefnumörkunarinnar á næsta ári sem lok á þessarri vinnu. Megintilgangur stefnumörkunar af þessu tagi er að auka vægi Samningsins um líffræðilega fjölbreytni og þeirra sjónarmiða sem hann hefur að geyma í ákvarðanatöku stjórnvalda. Stór þáttur í stefnumörkuninni er efling þekkingar og kortlagningu á lifandi náttúru Íslands, sem ég hef þegar fjallað um. Einnig er þar fjallað um eflingu vöktunar, þróun vísa og betri miðlun upplýsinga til stjórnvalda og almennings. Í kjölfar samþykktar stefnumörkunarinnar í ríkisstjórn munum við fara yfir þær aðgerðir sem grípa þarf til í kjölfar hennar og varða að mörgu leyti starfsemi Náttúrufræðistofnunar. Ég vænti þess að stofnunin verði okkur ekki síður til liðsinnis við framkvæmd hennar en við gerð hennar og að hún verði til þess að efla samstarf stofnunarinnar við ráðuneytið.

Húsnæðismálin –

Loksins, loksins hillir undir það að Náttúrufræðistofnun Íslands komist í nýtt og betra húsnæði sem tekur mið af þörfum og starfsemi stofnunarinnar. Náttúrufræðistofnun hefur allt of lengi búið við ófullnægjandi og óhentugt húsnæði, en nú hefur verið ákveðið að ganga til samninga um húsnæði í Garðabæ og er ráðgert að verja um 80 milljónum á fjárlögum á næsta ári til leigu á nýrri skrifstofu og rannsóknarhúsnæði og til flutnings og kaupa á nýjum tækjabúnaði. Ytri umgjörð er ekki veigamesta atriðið í starfi stofnunar eins og þessarrar – þar skiptir starfsfólkið mestu máli – en það skiptir þó verulegu máli að búið sé að starfinu svo sómi sé að og mannauður nái að blómstra.

Breytt umhverfi -

Nú um áramótin er ætlunin að flytja Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins frá landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins. Um leið eykst verksvið ráðuneytisins á sviði náttúruverndar og umhverfismála verulega og tækifæri til að horfa með heildstæðari hætti á umhverfi okkar og hvernig við stöndum að verndun náttúrunnar og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Við þurfum að auka tengsl og samvinnu þessara nýju en gamalgrónu stofnana við þær sem fyrir eru hjá umhverfisráðuneytinu og vinna sameiginlega að stefnumótun í þessum málaflokkum.

Nú fyrr í mánuðinum var haldið Umhverfisþing, hið fimmta sinnar tegundar og hið langfjölmennasta til þessa. Ég skynjaði á þinginu mikinn áhuga á náttúruverndarmálum. Í erindum og umræðum á þinginu felast margar frjóar hugmyndir og gott veganesti fyrir náttúruvernd á Íslandi. Hinn jákvæði andi sem þarna ríkti er byr í seglin fyrir umhverfisráðuneytið og stofnanir þess og aðra sem sinna umhverfisvernd á Íslandi. Við eigum að nýta okkur meðbyr í þjóðfélaginu, en vinna að náttúruvernd og umhverfismálum kallar á lifandi hugsun og stöðugt starf. Náttúrufræðistofnun Íslands gegnir þar lykilhlutverki, stendur á gömlum merg en jafnframt frammi fyrir nýjum og spennandi verkefnum. Ég hlakka til að vinna með stofnuninni og starfsmönnum hennar og óska ykkur alls góðs á þessum fundi og í starfinu framundan.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum