Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. nóvember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnunni Náttúran og nærumhverfið

Á nýafstöðnu umhverfisþingi var fjallað um náttúruvernd frá ýmsum sjónarhornum. Þar var spurt um gildi náttúrunnar, og rætt hvers vegna og hvernig við eigum að fara að því að vernda hana. Þetta eru sannarlega áleitnar spurningar nú á dögum – á tímum sem náttúruvernd hefur allt of oft þurft að lúta í lægra haldi fyrir annars konar landnýtingu. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að tímabært sé að lyfta náttúruverndinni - í umræðu og stefnumótun - bæði á sveitarstjórnarstiginu og á vettvangi ríkisvaldsins. Ráðstefnan hér í dag um náttúruna og nærumhverfið er þarft og gott skref í þá átt.

Náttúran er okkur verðmæt á svo ótal margan hátt. Án heilbrigðrar náttúru og náttúruvistkerfa á maðurinn enga möguleika. Auðlindir lands og náttúru höfum við nýtt um aldir til efnahagslegrar og félagslegrar þróunar og gerum enn. Og til náttúrunnar sækjum við bæði líkamlega og andlega næringu.

Náttúruvernd snýst ekki einungis um að friða víðerni og stofna þjóðgarða – þótt það séu afar verðug verkefni. Vernd náttúru, dýra og plantna í þéttbýli er ekki síður mikilvæg. Náttúrusvæði í byggð hafa mikilvægu hlutverki að gegna í að tryggja heilbrigði umhverfisins. Svæðin eru ekki bara lungu byggðarinnar heldur lifur hennar og nýru, og leggja þannig grunn að betri lífsgæðum okkar allra.

Og þau eru vinjar fyrir okkur mannfólkið. Rannsóknir sýna að aðgangur að slíkum svæðum eykur heilbrigði okkar, bæði andlegt og líkamlegt. Kannanir sýna einnig að aðsókn að náttúrusvæðunum hér á höfuðborgarsvæðinu eykst stöðugt. Í Heiðmörk t.a.m. hefur aðsóknin aukist úr 200 þúsund gestum í rúm 500 þúsund á tíu ára tímabili. Fólk kann að meta náttúru í byggð og njóta hennar.

Útivistarsvæði okkar Garðabæinga eru af ýmsu tagi, bæði manngerð og náttúruleg. Innan bæjarmarka eigum við græna skóga, vötn, votlendi og sögulegar hraunbreiður. Öll þessi svæði hafa mikið gildi fyrir bæjarfélagið og höfuðborgarsvæðið í heild sinni. Við þurfum að varðveita fjölbreytni í landslagi og umhverfi – og vernda mismunandi landslagsgerðir. Náttúruverndarlögin leggja þó sérstaka skyldu á herðar okkar varðandi hraun, eldvörp, birkiskóga og votlendi en skv. 37. grein laganna ber að huga sérstaklega að varðveislu slíkra svæða. Þau fela í sér arf hinnar jarðfræðilegu og náttúrufræðilegu sögu landsins og sérkenni þess.

Í dag var gengið formlega frá friðlýsingu Vífilsstaðavatns og nágrennis og vil ég fagna þeim áfanga sérstaklega. Með friðlýsingunni er verið að vernda náttúrulegt umhverfi og vatnasvið Vífilsstaðavatns, fyrir lífríkið allt – fugla, gróður og fólk.

Í henni er kveðið á um að vernda beri sérstöðu vatnsins og svæðisins í kringum það og þá líffræðilegu fjölbreytni sem þar er að finna. Lífríkið í Vífilsstaðavatni er um margt sérstakt. Má þar nefna merkilegan hornsílastofn, sem mun vera einstakur í heiminum að eðli og útliti. Einnig eru lífsferlar bleikju og urriða í Vífilsstaðavatni ólíkir því sem gengur og gerist annars staðar hér á landi.

Hér innan bæjar eru í umræðunni spennandi hugmyndir um friðun fleiri svæða, og hefur Búrfellsgjá verið nefnd í því sambandi, sömuleiðis Búrfellshraun og Gálgahraun. Færi vel á því, enda hefur að undanförnu verulega verið gengið á hraunasvæðið innan bæjarmarkanna. Þær breytingar hafa rýrt landslagsheildir og skert heildarásýnd hraunanna. Það er vonandi að friðun Vífilsstaðavatns sé aðeins einn hlekkur í stækkandi neti verndarsvæða innan bæjarins, höfuðborgarsvæðisins og jafnvel landsins alls, svæða í þéttbýli jafnt sem strjálbýli.

Náttúrusvæði mega ekki halda áfram að hopa fyrir nýjum hverfum, nýjum vegum, og nýjum iðnaðarmannvirkjum. Til þess eru þau okkur allt of dýrmæt.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum