Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. nóvember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2007

Ágætu fundargestir.

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi sjóðsins og ræða málefni hans og málefni umhverfisins í víðara samhengi. Ég kem hingað sem nýr ráðherra í nýrri ríkisstjórn, þar sem ný viðhorf ríkja. Það á ekki síst við umhverfismálin, sem er vaxandi málaflokkur bæði að umfangi og vægi. Áherslur mínar hef ég kynnt í þessu riti sem var gefið út í tengslum við nýafstaðið umhverfisþing. Mig langar að tæpa á þeim helstu.

Loftslagsmálin eru auðvitað mál málanna og þar er verk að vinna, ekki síður hér á landi en annars staðar. Við Íslendingar þurfum að átta okkur á því að ábyrgð okkar er engu minni en annarra þjóða þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. Stjórnvöld hafa sett sér markmið um samdrátt í losun um 50 til 75 prósent til ársins 2050. Það er sannarlega verðugt langtímamarkmið, en ég tel að við verðum líka að setja okkur tímasett og tölusett markmið til skemmri tíma, nokkurs konar vörður á leiðinni. Þannig sé ég fyrir mér að við setjum okkur markmið til 2017 eða 2020 og svo koll af kolli í takt við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við tökumst á hendur. Ísland hefur enn ekki lagt fram hugmyndir um töluleg markmið fyrir komandi samningaviðræður um loftslagsmál eftir að Kyoto tímabilinu lýkur 2012, og það er erfitt að gera slíkt nema fyrir liggi greining á möguleikum til að ná slíkum markmiðum og mat á kostnaði við það. En næstu mánuði verður unnið að því verkefni í kappi við tímann, og ég mun reyna að tryggja að sú mynd skýrist á fyrri hluta næsta árs.

Verkefni á sviði náttúruverndar eru mörg og brýn. Ég er þeirrar skoðunar að undanfarin ár hafi náttúruverndin átt undir högg að sækja gagnvart öðrum tegundum landnýtingar, bæði í umræðunni og í stefnumótun stjórnvalda. Þar er einnig unnið í kappi við tímann, því margar ákvarðanir hafa verið teknar og aðrar þegar í ferli sem erfitt er að snúa við – ákvarðanir sem varða nýtingu verðmætustu landsvæða Íslands. Mér finnst að umræðunni um þessi mál þurfi að breyta. Við Íslendingar þurfum að átta okkur á margþættu gildi náttúruverndar: persónulegu, félagslegu, siðferðilegu, og efnahagslegu.

Náttúruvernd er nefnilega og sannarlega ein tegund landnýtingar, rétt eins og virkjun vatnsfalls eða uppbygging íbúabyggðar. Og við sem þjóð þurfum að ákveða sameiginlega hvernig við nýtum landið. Í þeim tilgangi hef ég ásamt iðnaðarráðherra skipað verkefnastjórn sem falið hefur verið að undirbúa rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Verkefnastjórnin á að skila heildarmati á nýtingarkostum árið 2009 og á grunni þess verður lögð fyrir Alþingi tillaga að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða. Útgáfa nýrra rannsóknaleyfa til virkjana hefur verið fryst á meðan á þessarri vinnu stendur.

Þetta var um hin stóru mál á sviði umhverfisverndar um þessar mundir; náttúruverndina og loftslagsmálin. Í starfi mínu vil ég líka leggja áherslu á mál sem lúta að daglegu lífi okkar, og beita mér fyrir því að auðvelda fólki að velja leiðir sem stuðla að sjálfbærri nýtingu og draga úr sóun verðmæta. Þá á ég einkum við neytendamál og fræðslu. Þannig vil ég efla áhuga og auka framboð á umhverfismerktum vörum og þjónustu í samvinnu við kaupmenn og neytendur. Ég vil auka kostnaðarábyrgð þeirra sem dreifa fjölpósti og auka framboð kennsluefnis um umhverfismál fyrir grunn- og framhaldsskóla, svo að dæmi séu nefnd.

En að málefnum og löggjöf sem tengjast Úrvinnslusjóði sérstakega:

Á næstu dögum mun ég kynna á Alþingi frumvarp að breytingum á lögum um úrvinnslugjald þar sem lagt er til að frestað verði álagningu úrvinnslugjalds á einnota drykkjarvöruumbúðir og innheimtu skilagjalda af einnota drykkjarvöruumbúðum til 1. janúar 2010 þannig að starfsemi Endurvinnslunnar hf. verði óbreytt þangað til. Einnig eru lagðar til breytingar er varða fjárhæð úrvinnslugjalds á heyrúlluplast, málningu og litarefni og vörur í ljósmyndaiðnaði. Breytingunum er m.a. ætlað að leiðrétta álagningarstofn úrvinnslugjalds á vörur í málningar- og ljósmyndaiðnaði þar sem tekjur viðkomandi sjóða hafa ekki staðið undir rekstri þeirra. Tillögurnar eru unnar í góðu samráði við hagsmunaðila

Einnig mun ég leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Tilgangur þess er að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um raf- og rafeindatækjaúrgang. Ákveðið var að fara þá leið að innleiða tilskipuna ekki með því kerfi sem er að finna í lögum um úrvinnslugjald. Byggði þessi niðurstaða fyrst og fremst á vilja til að skerpa á ákvæði um ábyrgð framleiðenda á stöðu Úrvinnslusjóðs sem ríkisstofnunar auk þess sem farið var yfir hvernig önnur lönd hugðust innleiða tilskipunina. Í tilskipuninni eru settar fram skyldur framleiðenda til að fjármagna, safna, meðhöndla og endurnýta raftækja- og rafeindatækjaúrgang. Markmið tilskipunarinnar er að draga úr myndun raftækja- og rafeindatækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra sem að vörunni koma á lífsferli hennar. Það verður spennandi að fylgjast með uppbyggingu kerfis um ábyrgð framleiðenda og hvernig þeim tekst að aðlagast því,en ég hef áhuga á því að skoða möguleika á því að framleiðandaábyrgð nái yfir fleiri tegundir vara. Þetta mun þegar fram líða stundir hafa áhrif á störf og verkefni Úrvinnslusjóðs.

Góðir fundargestir. Ég þakka áheyrnina og óska ykkur árangursríks aðalfundar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum