Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýtt skipurit Umhverfisstofnunar

Nýtt skipurit Umhverfisstofnunar
Nýtt skipurit Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun skiptist í tvö fagsvið og þrjú stoðsvið samkvæmt nýju skipuriti stofnunarinnar sem kynnt var í gær en tekur gildi um næstu áramót. Fagsviðin verða svið náttúru- og dýraverndar og svið hollustuverndar og mengunarvarna. Stoðsviðin þrjú verða svið lögfræði og stjórnsýslu, svið fjármála og reksturs og svið fræðslu og upplýsingamála.

Í frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar segir að Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, hafi í kynningu á skipuritinu, lagt áherslu á að hlutverk Umhverfisstofnunar væri að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Á kynningarfundi með starfsfólki stofnunarinnar sagði hún m.a.: ,,Stofnunin sinnir verkefnum sínum með söfnun og miðlun upplýsinga um umhverfismál, ráðgjöf til stjórnvalda um lagasetningu og reglugerðir, ráðgjöf til annarra opinberra aðila, sveitarfélaga og fyrirtækja, með eftirliti og leyfisveitingum og með því að vinna mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun hefur það að leiðarljósi að innleiða sjálfbæra þróun á landsvísu í samræmi við stefnu stjórnvalda, tryggja framkvæmd laga og reglna á sviði umhverfismála, fræða og upplýsa með það að markmiði að fá sem flesta til að standa vörð um umhverfið með okkur og vera til fyrirmyndar í vistvænum rekstri. Þessum markmiðum verður fyrst og fremst náð með sterkri liðsheild, metnaði og fagmennsku ásamt framsýni, áreiðanleika og nútímalegum vinnubrögðum.”

Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum