Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. febrúar 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrsla starfshóps um smávirkjanir

Starfshópur um smávirkjanir hefur skilað áliti og lagt til að gerðar verði breytingar á skipulags-og byggingarlögum, svo og raforkulögum og reglugerðum þannig að öll mannvirkjagerð við virkjanir verði byggingarleyfisskyld og háð reglubundnu byggingareftirliti. Þá verði sett í löggjöf ákvæði um samvinnu og samráð iðnaðarráðuneytis, Orkustofnunar og byggingaryfirvalda við útgáfu leyfa til þess að tryggja samræmi milli þeirra.

Þann 31. ágúst 2007 skipaði iðnaðarráðherra, í samráði við félagsmálaráðherra og umhverfisráðherra, starfshóp til að gera úttekt á verkferlum tengdum leyfisveitingum og eftirliti vegna virkjunarframkvæmda, m.a. vegna umfjöllunar um Fjarðarárvirkjun og Múlavirkjun. Í starfshópnum áttu sæti: Ingibjörg Halldórsdóttir, tilnefnd af umhverfisráðherra, formaður, Elín Smáradóttir, tilnefnd af iðnaðarráðherra og Stefanía Traustadóttir, tilnefnd af félagsmálaráðherra. Starfsmaður starfshópsins var Lárus M. K. Ólafsson, lögfræðingur í iðnaðarráðuneyti. Þann 1. janúar 2008 fluttust sveitarstjórnamálefni til samgönguráðuneytis og sat Stefanía Traustadóttir áfram í starfshópnum sem fulltrúi þess ráðuneytis.

Þann 4. febrúar 2008 skilaði starfshópurinn til iðnaðarráðherra, samgönguráðaherra og umhverfisráðherra skýrslu hópsins.

Með vísan til umfjöllunar í skýrslunni gerir starfshópurinn þá tillögu að eftirfarandi úrbætur verði gerðar á löggjöf sem tekur til smávirkjana:

  1. Tekið verði fram í skipulags- og byggingarlögum að öll mannvirkjagerð við virkjanir sé byggingarleyfisskyld og háð hefðbundnu byggingareftirliti. Þessa tillögu er þegar að finna í frumvarpi umhverfisráðherra til nýrra laga um mannvirki sem lagt hefur verið fram á Alþingi.
  2. Sett verði í byggingarreglugerð, í samráði við Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið, ákvæði um hönnun virkjunarmannvirkja og framkvæmd eftirlits með virkjunarframkvæmdum. Tilgangur byggingarleyfis og byggingareftirlits verði að tryggja öryggi virkjunarmannvirkja, samræmi við skipulagsáætlanir og lágmarks umhverfisáhrif.
  3. Ákvæði raforkulaga og reglugerðar um framkvæmd raforkulaga verði aðlöguð ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar. Virkjunarleyfi og eftirlit með því snúi fyrst og fremst að þáttum eins og auðlindanýtingu og tæknilegum atriðum sem áhrif hafa á raforkukerfið.
  4. Sett verði í viðeigandi löggjöf ákvæði um samvinnu og samráð iðnaðarráðuneytis, Orkustofnunar og byggingaryfirvalda við útgáfu virkjunar- og byggingarleyfis og eftirlits vegna þeirra til að tryggja samræmi milli mismunandi leyfa.

Samkvæmt skipunarbréfi var starfshópnum ætlað að fara yfir hvernig leyfisveitingum opinberra aðila með virkjunum og eftirliti með framkvæmdum við virkjanir sem eru tilkynningarskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 sé háttað. Sérstaklega bæri að skoða í þessu sambandi hvernig háttað sé samskiptum stofnana og leyfisveitenda sem að þessum málum koma. Þá skyldi starfshópurinn yfirfara hvort tilkynningarskyldar framkvæmdir, sem nýlokið er við eða standa yfir, hafi verið innan þess ramma sem þeim var settur í opinberum leyfum og hvort brestur hafi orðið á eftirliti með þeim. Loks var starfshópnum ætlað að meta hvort einhverjir þeir ágallar séu á lögum sem nauðsynlegt sé að bæta úr, þannig að ákvarðanir um leyfi til virkjunarframkvæmda og eftirlit með þeim séu eins skilvirk og kostur er.

Sjá frétt á heimasíðu iðnaðarráðuneytisins.

Skýrsla um smávirkjanir (pdf)



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum