Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. mars 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra var aðalræðumaður á fundi FAO

Umhverfisráðherra á fundi FAO í Róm
Umhverfisráðherra í Róm

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra var aðalræðumaður á fundi Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um kynjamál og loftslagsbreytingar sem fram fór í Róm fyrr í þessari viku. Fundurinn var haldinn í tengslum við alþjóðlega kvennadaginn 8. mars. Við þetta tækifæri átti Þórunn fund með ítalska umhverfisráðherranum og ræddi þar m.a. um áhuga Ítala á því að nota íslenska tækni við sorpeyðingu.

Tilgangur fundarins var að koma stöðu kvenna rækilega inn í umræðuna um loftslagsbreytingar, en sem kunnugt er gegna konur miklu hlutverki í fæðuframleiðslu í þróunarríkjunum. Þessi þáttur hefur að mati FAO verið vanræktur í umræðunni um loftslagsbreytingar, en afleiðingar þeirra eru líklega einn stærsti vandi, sem mannkynið þarf að takast á við í framtíðinni, ekki síst hvað varðar lífsafkomu fólks í viðkvæmum landbúnaðarsamfélögum í þróunarríkjunum. Helsta verkefni FAO er að tryggja fæðuöryggi í heiminum og stendur stofnunin fyrir virkri jafnréttisvæðingu í þróunarstarfi sínu.
Fundurinn var skref í þátt átt að senda skýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins um að taka verði stöðu kvenna inn í umræðuna um loftslagsbreytingar og jafnframt festa Ísland í sessi sem málsvara réttinda kvenna í þessu samhengi. Ræða umhverfisráðherra endurspeglaði áherslu íslenskra stjórnvalda á jafnréttismál.

Þá átti umhverfisráðherra fund með ítölskum starfsbróður sínum, Alfonso Pecoraro Scanio, í umhverfisráðuneytinu í Róm. Þar var m. a. rætt um stjórnmál og umhverfismál á Ítalíu, einkanlega í sambandi við áhrif loftslagsbreytinga. Einnig var rætt um möguleika á samstarfi um nýtingu jarðvarma og nýja tækni í sambandi við sorpeyðingu. Ítalski umhverfisráðherrann fjallaði um áhuga Ítala á nýrri tækni í sorpeyðingu, sem felst í því að framleiða orku við sorpeyðslu. Hann greindi frá því að ítalskir aðilar hefðu af þessu tilefni sótt heim sorpeyðingarstöðina á Húsavík, sem sett var upp af fyrirtækinu Íslensk umhverfistækni.

Umhverfisráðherra á fundi FAO í Róm



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum