Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. mars 2008 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðleg ráðstefna um smáeyþróunarríki í Karíbahafi

Alþjóðleg samvinna á sviði sjálfbærrar þróunar, samstarf Íslands og smáeyþróunarríkja í Karíbahafi er yfirskrift ráðstefnu sem hefst í dag á Barbados. Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fer fyrir íslensku sendinefndinni, en utanríkisráðuneytið stendur að ráðstefnunni í samvinnu við efnahags- og félagsmálastofnun Sameinuðu þjóðanna og stjórnvöld á Barbados. Fulltrúar 16 þróunarríkja í Karíbahafi sækja ráðstefnuna, auk fulltrúa S.þ, þeirra á meðal vara aðalframkvæmdastjóra stofnunarinnar, Sha Zukang, sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar og þróunarmála.

Markmiðið með ráðstefnunni er að leggja grunn að frekari þróunarsamvinnu og samstarfi við ríkin á svæðinu. Er fyrst og fremst um að ræða verkefni sem ríkin sjálf telja að beri að njóta forgangs og þar sem staða Íslands er sterk, svo sem í sjávarútvegs- og orkumálum.

Þróunarsamstarf Íslands við smáeyþróunarríki má rekja allt aftur til upphafs íslenskar þróunarsamvinnu er Ísland tók þátt í verkefnum á Grænhöfðaeyjum. Í stefnu Íslands um þróunarsamvinnu frá árinu 2005 er kveðið á um að aukna áherslu á aðstoð við smáeyþróunarríki. Síðan þá hefur utanríkisráðuneytið stutt margvísleg verkefni, m.a. á sviði sjálfbærrar þróunar, jafnréttismála og viðskipta.

Að hálfu Íslands taka þátt í ráðstefnunni, auk utanríkisráðuneytisins, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Sjávarútvegsskóli og Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Útflutningsráð Íslands. Nokkur íslensk fyrirtæki tengd orku- og sjávarútvegi taka einnig þátt og munu eiga sérstaka fundi skipulagða af Útflutningsráði með viðskiptaaðilum á svæðinu.

Utanríkisráðherra mun eiga tvíhliða fundi með starfssystkinum sínum, vara aðalritara S.þ. og framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu UNIFEM, en utanríkisráðuneytið hefur styrkt verkefni á vegum stofnunarinnar á Jamaíka.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum