Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. apríl 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Erindi umhverfisráðherra á fagráðstefnu skógræktargeirans

Skógræktarstjóri, góðir gestir,

Nokkur tímamót urðu nú um áramótin þegar málefni skógræktar fluttust að mestu leyti yfir til umhverfisráðuneytisins frá landbúnaðarráðuneytinu í kjölfar ríkisstjórnarskipta á síðasta ári. Sú breyting var tímabær varpar ljósi á breytt hlutverk skógræktar frá því sem var á síðustu öld.

Á Íslandi hafa skógrækt og umhverfisvernd verið samtvinnuð frá upphafi. Sveinn Pálsson, fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn, var einn þeirra manna sem hvað fyrstur vakti máls á hnignun skóga á Íslandi og krafðist aðgerða til verndunar þeirra fyrir rúmum 200 árum síðan. Þegar aðgerðir á vegum hins opinbera á sviði skógræktar og landgræðslu hófust svo fyrir einni öld snerust þær einkum um að forða lífsbjörg landbúnaðarþjóðar frá glötun: að stöðva framrás svartra sandskafla sem ógnuðu byggð og byggja upp nytjaland.

Hugsun heimastjórnarkynslóðarinnar er í fullu gildi í dag og stór hluti skógræktar er fyrst og fremst hugsaður til nytja. Skógrækt gegnir þó án efa fjölþættara hlutverki nú en þá. Skógræktarfélög og aðrir hafa lengi ræktað skóg til útivistar. Náttúruverndarfólk vill ekki einungis sjá skógarleifar verndaðar, heldur reyna að endurheimta að einhverju leyti eyddan skóg. Tillögur um vernd og endurheimt birkiskóga liggja fyrir í skýrslu nefndar sem fjallaði um þau mál og segja má að Hekluskógaverkefnið sé þessa eðlis. Að síðustu má nefna bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt til að draga úr gróðurhúsaáhrifum, sem hefði líklega þótt nokkuð framandi hugmynd á bernskuárum opinberrar skógræktar á Íslandi.

Þessi margþætti ávinningur skógræktar skýtur fleiri og styrkari stoðum undir hana, en gerir líka auknar kröfur um skýra hugsun og stefnumótun. Hvar viljum við skóg og hvar ekki? Hvernig skóg viljum við á hverjum stað? Hvaða þátta ber að líta til í skógræktarverkefnum?

Vinna við langtíma stefnumótun í skógrækt hófst undir forystu Skógræktar ríkisins fyrir nokkru áður en ákveðið var að flytja hana til umhverfisráðuneytisins. Ég hef nýlega óskað eftir að henni verði haldið áfram og að haft verði víðtækt samráð um hana til að sjónarmið sem flestra komi fram og tryggi að stefnan falli í frjóa jörð. Einnig blasir við að skoða þurfi skógræktarlögin, sem eru orðin meira en hálfrar aldar gömul, áður en langt um líður. Þá hefur Skógræktin unnið með Skipulagsstofnun að skoða þátt skógræktar við gerð aðalskipulags sveitarfélaga.

Skógrækt kemur líka við sögu í stefnumörkun á fleiri sviðum. Ég vil nefna þar stefnumörkun um líffræðilega fjölbreytni, sem nú er á lokastigi. Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni hvetur til endurheimtar skemmdra vistkerfa, en þar er einnig að finna leiðbeiningar um aðferðarfræði við skógrækt og uppgræðslu. Ég vil einnig nefna væntanlega framkvæmdaáætlun um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, sem verður unnin eftir að sérfræðingaskýrslur um það efni koma út nú í vor og meðfram nýjum samningaviðræðum um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum eftir 2012. Þar verður binding kolefnis í gróðri og jarðvegi veigamikill þáttur í að mæta skuldbindingum Íslands í framtíðinni.

A ofangreindu ætti það að vera ljóst að enginn hörgull er á stefnumörkun og pappírsvinnu í tengslum við skógrækt á Íslandi í náinni framtíð. Ég treysti því að skógræktarmenn hafi ekkert á móti þeirri ágætu skógarafurð, pappír, en ímynda mér að flestir kunni þó best við sig að "sveifla haka og rækta nýjan skóg". Við þurfum kapp, sem ég tel víst að sé nóg af, en hlutverk stjórnvalda er að tryggja að því fylgi forsjá. Við getum margt lært af eigin reynslu, en líka af nágrönnum okkar. Ég vil þar til dæmis nefna Skota og Íra, sem hafa á liðnum áratugum klætt lönd sín skógi á ný. Þar hefur náðst góður árangur, að hluta til vegna þess að menn hafa yfirleitt borið gæfu til þess að breyta áherslum í skógrækt í takt við nýjar aðstæður og sjónarmið. Kannanir sýna að Íslendingar vilja meiri skóg, ekki síður nú en fyrir hundrað árum, en flest annað í samfélaginu hefur breyst. Við í umhverfisráðuneytinu viljum vinna með skógræktarmönnum, hvort sem þeir eru í okkar stofnunum eða annars staðar, við að móta framtíðarsýn fyrir skógrækt á Íslandi, sem tryggir að við getum haldið áfram ótrauð að klæða landið á 21. öldinni, í sátt við náttúruna, til eflingu byggðar og til arðs og yndis fyrir fólkið í landinu.

Takk fyrir,



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum