Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. apríl 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Spennandi framtíð í heilbrigðisþjónustunni

Ársfundur Landspítala

29. apríl 2008

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar,

heilbrigðisráðherra

Góðir ársfundargestir.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að hafa verið boðið að tala við ykkur hér í dag. Í næsta mánuði er liðið ár frá því að ég tók við starfi heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Á þeim tíma sem liðinn er hefur mikil stefnumótunarvinna átt sér stað í heilbrigðismálum. Sú vinna hefur miðað að því að framfylgja stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða fyrir alla Íslendinga og enn betri nýtingu þeirra fjármuna sem renna til heilbrigðismála.

Mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar endurspeglast ekki síst í forgangsröðun stjórnvalda. Þetta má sjá af því að til einskis annars málaflokks er varið meiri fjármunum. Miklu máli skiptir að það fé sé notað með þeim hætti að það nýtist sem best til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. Íslendingar verja um 10% af vergum þjóðartekjum, eða um 100 milljörðum króna, til heilbrigðismála og eru í hópi þeirra þjóða sem mestu fjármagni veita til málaflokksins. Það er út af fyrir sig staðfesting á því að við Íslendingar erum rík þjóð sem viljum verja miklu til að hafa hér frábært heilbrigðiskerfi. Hættumerkin felast hins vegar í þeirri staðreynd að við Íslendingar erum ung þjóð – og reynslan sýnir okkur að hver einstaklingur yfir 65 ára að aldri kostar heilbrigðiskerfið um fjórum sinnum meira en þeir sem eru yngri en 65 ára.

Hvað varðar opinbert framlag til heilbrigðismála á hvern íbúa erum við Íslendingar í 4. sæti OECD landa, en tiltölulega lítill hluti er hér fjármagnaður af einstaklingunum sjálfum, 83% eru fjármögnuð af almannafé.

Það skýtur skökku við að á sama tima og staðreyndir sýna fram á íslensk stjórnvöld verja meiru fé til heilbrigðisþjónstunnar en nokkurs annars málaflokks eru ákveðnir aðilar í þjóðfélaginu sem ekki taka þátt í umræðu um heilbrigðismál án þess saka heilbrigðisyfirvöld um að ástunda einhvers konar sveltistefnu gagnvart heilbrigðiskerfinu. OECD birti nýlega tölur sem sýna árlegan vöxt heilbrigðisútgjalda á föstu verðlagi á mann frá 1995-2005. Ísland er þar í fjórða sæti með árlegan vöxt upp á 5%, heilu prósentustigi yfir meðaltali OECD.

Góðir ársfundargestir.

Þegar unnið er að framtíðarsýn og stefnumörkun í íslensku heilbrigðiskerfi fer ekki hjá því að Landspítalinn sé þar í lykilhlutverki, enda er spítalinn og verður þungamiðjan í vandasömustu og flóknustu þáttum íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

Það er mjög brýnt að horfa á heilbrigðiskerfið í heildarsamhengi. Til að mynda er ljóst að Landspítalinn mun ekki njóta sín í því lykilhlutverki sem honum er ætlað að sinna sem tæknivætt háskólasjúkrahús nema til staðar sé öflug heilsugæsla og langlegusjúklingum verði boðið upp á viðunandi lausnir. Aldurssamsetning þjóða hefur verið að breytast mikið og að sama skapi þeir sjúkdómar sem við horfumst í augu við. Þannig hefur hækkað hlutfall þeirra sjúklinga á Vesturlöndum sem þurfa á langtíma umönnun að halda. Þetta er brýn viðfangsefni heilbrigðiskerfa á öllum Vesturlöndum og viðfangsefni sem við þurfum að horfast í augu við.

Hvað varðar heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu þá setti ég á laggirnar nefnd sem er að leggja lokahönd á skýrslu þar sem verður að finna  tillögur um það hvernig styrkja má starfsemi heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu þannig að hún fái betur sinnt hlutverki sínu sem undirstaða heilbrigðisþjónustukerfis á höfuðborgarsvæðinu og verið fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Jafnframt hef ég ákveðið að útvíkka verksvið nefndarinnar þannig að hún skoði jafnframt og geri tillögur sem varða skipulag heilbrigðisþjónustu á hinu svokallaða Kragasvæði, þ.e. á Reykjanesi, í Hafnarfirði, á Suðurlandi og Vesturlandi.

Síðastliðið haust setti ég á laggirnar nefnd undir forystu Vilhjálms Egilssonar sem hefur verið mér til ráðgjafar í málefnum Landspítala. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að hafa eftirlit með því að rekstur spítalans sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Því hafa nefndarmenn unnið að í náinni og góðri samvinnu við framkvæmdastjórn spítalans.

Nefndinni var einnig falið það hlutverk að skilgreina hlutverk Landspítala og gera tillögur um hvernig greina megi að kjarnastarfsemi hans og önnur verkefni innan ramma laga um heilbrigðisþjónustu. Í því skyni hefur nefndin hitt að máli fjölda fagaðila, jafnt innan lands sem erlendis, en nefndarmenn voru einmitt á ferðinni í síðustu viku þar sem þeir funduðu með forstjórum háskólasjúkrahúsanna í Árósum og Lundi og yfirmönnum Kaupmannahafnarspítala. Nefndin hefur einnig fengið á sinn fund fjölda Íslendinga sem gegna stjórnunarstöðum á virtum sjúkrahúsum erlendis og má þar nefna Birgi Jakobsson, forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Akershus sjúkrahússins í Osló, Harald Bjarnason hjá Mayo Clinic í Minnesota, Björn Flygering, hjartasérfræðing hjá Minneapolis Heart Institute og Kristján Tómas Ragnarsson, yfirlækni í New York.  

Nefndin vinnur nú að gerð skýrslu sem þau munu kynna mér í sumarbyrjun, en samkvæmt því sem ég hef hlerað verður þar meðal annars lögð mikil áhersla að skipulag spítalans endurspegli sem best áherslu á þjónustu við skjólstæðinga hans með því að leggja áherslu á dreifstýringu þar sem fjárhagsleg og fagleg ábyrgð fari saman. Starfsfólk fái, eftir því sem kostur gefst, svigrúm til þess að takast á við ábyrgð og taka þátt í þróun spítalans jafnframt því sem áhersla verður lögð á teymisvinnu. Þá verður vísinda- og kennsluhlutverki Landspítalans gert hátt undir höfði.

Ég get ekki látið undir höfuð leggjast að hnykkja betur á þessu síðasta atriði, vísinda- og kennsluhlutverki Landspítala. Ykkur er það líklega enn betur ljóst en mér þvílíku lykilhlutverki það fjölmarga fagfólk - læknar, hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk - sem starfar hér við Landspítalann, gegnir í vísindasamfélagi okkar Íslendinga. Í úttekt sem gerð var fyrir örfáum árum kom í ljós að Háskóli Íslands átti um 80% af ritrýndum greinum sem íslenskir vísindamenn birta. Þar af var þáttur Landspítala mjög veigamikill!

Það markmið okkar Íslendinga að staðsetja okkur meðal hinna langbestu – ef ekki sem þau bestu – á sviði heilbrigðisþjónustu, byggir að stórum hluta á því að Landspítalinn og starfsfólk hans ræki þetta hlutverk sitt áfram jafn vel og hingað til. Það er mikilvægt að nauðsynleg skilyrði verði þar til staðar, um það ríkir einhugur.

Ágætu ársfundargestir.

Það er nýir  og spennandi tímar framundan í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, ekki síst hér á Landspítala. Fyrir því liggja tvær megin ástæður: Nefnd undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur, sem meðal annars sér um verkefni tengd uppbyggingu nýrrar sjúkrahússbyggingar fyrir Landspítala, lauk í lok febrúar sl. við endurmat á forsendum fyrir byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og var það niðurstaða nefndarinnar að að besta staðsetningin fyrir nýtt háskólasjúkrahús væri við Hringbraut. Nefndin kynnti endurmat sitt á sama tíma og arktitektastofan C F Möller skilaði frumáætlun sinni fyrir bygginguna, enda var lögð áhersla á það að nefndarstörfin tefðu framgang verksins ekki á neinn hátt.

Undirbúningur að forvali fyrir hönnunarsamkeppni er nú á lokastigi og stefnt er að því að kynna vinningstillögu í hönnunarsamkeppninni undir lok þessa árs. Þá verður jafnframt undirritaður samningur um hönnun nýja háskólasjúkrahússins en þegar endanleg hönnun og útlit liggur fyrir verður hægt að kynna raunhæfa kostnaðaráætlun við bygginguna. Áætlun gerir ráð fyrir að fyrsta skóflustunga verði tekin í árslok 2009 og ætla má að hönnun og bygging meginhluta sjúkrahússins taki í heild um 7 ár.

Það er ekki ólíklegt að þessi tími virki langur í huga þess starfsfólks Landspítala sem hefur lengi beðið eftir því að vinna við aðstæður sem eru eins og best gerast í heiminum. Margar deilda Landspítala eru nú reknar við þröngan húsakost og ég hef á heimsóknum mínum á spítalann orðið var við mikla hugmyndaauðgi og frumkvæði starfsfólks við að gera við besta úr þeim aðstæðum. Það leikur enginn vafi á því að næstu árin er þörf á góðri samvinnu heilbrigðisyfirvalda og stjórnenda Landspítala við búa þannig að núverandi húsnæði spítalans að sem best fari um sjúklinga og starfsfólk.

Ég sagði að tvær meginástæður væru fyrir því menn gætu litið fram á nýja og spennandi tíma í heilbrigðismálum á Íslandi. Seinni ástæðan tengist frumvarpi sem ég kynnti í ríkisstjórn í morgun um stofnun nýrrar sjúkratryggingastofnunar sem mun starfa undir yfirstjórn og eftirliti heilbrigðisráðuneytisins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að kostnaðargreina eigi heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang.

Starfsemi nýju stofnunarinnar, sem tekur til starfa 1. september nk. mun annars vegar byggja á sjúkra- og slysatryggingakafla laga um almannatryggingar, lögum um heilbrigðis-þjónustu og lyfjalögum og hinsvegar felast í því að semja fyrir hönd ráðherra við stofnanir, félaga-samtök, fyrirtæki og einstaklinga um kaup og greiðslur fyrir tiltekna tegund heilbrigðisþjónustu, magn hennar og gæði.

Þeir kostir sem ætlunin er að ná fram með starfsemi sjúkratryggingastofnunarinnar og markvissri notkun á mismunandi greiðslukerfum eru aukið gegnsæi á starfsemi sjúkrahúsa, aukinn hvati til afkasta og sveigjanleiki til að beina starfsemi í ákveðinn farveg miðað við þörf á hverjum tíma.  Þannig verður einfaldara að taka á biðlistum og að efla ákveðna þjónustu í samræmi við stefnu ráðuneytis og áherslur á hverjum tíma.  Markmiðið er að til verði fjármögnunarkerfi sem með ákveðnu gegnsæi stuðlar að trausti milli kaupenda og seljanda þjónustu, fjölbreytilegri rekstrarformum, markvissari fjárveitingum og bættri  fjármálstjórn heilbrigðisstofnana.

Meginávinningur fyrir sjúkrahúsið er að framlög fylgja umfangi starfsemi sem tryggir betur en áður fjármögnun þegar auka þarf framboðna þjónustu á einhverjum sviðum.

Nýja sjúkratryggingastofnunin mun ekki taka til starfa með látum. Það verður engin bylting í fjármögnun í heilbrigðiskerfinu á næstunni. Það verða hins vegar innleiddar breytingar – löngu þarfar breytingar – sem lúta að skilgreiningu á kostnaði, kaupum á þjónustu og samþættingu ábyrgðar og valds yfir fjármálum. Þetta mun breyta rekstrarumhverfi Landspítala til hins góða – og spítalinn er tilbúinn. Til þess að þetta kerfi geti virkað þarf að liggja fyrir hvað aðgerðir kosta. Þar hefur Landspítalinn unnið góða vinnu í svokölluðu DRG kerfi sem er grundvöllur þess að unnt sé að taka upp blandaða fjármögnun með tilheyrandi gegnsæi þar sem fjármagn fylgi sjúklingum.

Það hlutverk sem nýju sjúkratryggingastofnuninni er ætlað að leika í íslenskri heilbrigðisþjónustu er í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, en það er líka eins og sniðið að tillögum OECD sem stofnunin kynnti í upphafi árs. Á sama tíma og OECD hrósaði íslenskra heilbrigðiskerfinu var gagnrýnt hve dýrt það væri, og því spáð að við myndum lenda í verulegum erfiðleikum innan fárra ára ef ekki tækist að ná böndum á kostnaðaraukningunni. Helstu tillögur OECD lutu að aukinni samkeppni og fjölbreyttari rekstrarformum, vel skilgreindum þjónustusamningum og eflingu kaupendahlutverks hins opinbera auk þess sem OECD mælti með aukinni áherslu á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og eflingu heimaþjónustu.

Góðir ársfundargestir.

Ég hef hér stiklað á stóru varðandi helstu atriðin í heilbrigðismálum og gæti auðveldlega haldið áfram lengi dags. Ég ætla hins vegar að láta mér nægja að ljúka máli mínum með því að minnast á ákveðið atriði sem mér er nokkuð hugleikið og það tengist ímyndarmálum heilbrigðisþjónstunnar. Þetta atriði hefur afar mikla þýðingu. Eitt er það að við Íslendingar búum við frábæra þekkingu og færni á sviði heilbrigðismála og eigum fullt erindi með hana út fyrir landsteinana í einu eða öðru formi. Hitt er síðan það að við mættum temja okkur að halda þessari staðreynd betur á lofti hér heima. Umræðan í fjölmiðlum vill því miður oftast frekar einskorðast við það sem miður fer og þessu þarf að breyta. Það er einfalt að kasta allri skuldinni á fjölmiðlana en staðreyndin er sú að við eigum hér öll hlut að máli. Einstaka deilumál eru ekki það sem helst er einkennandi fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu, stjórnendur og starfsfólk -  heldur fagmennska, þekking og færni. Þessu þurfum við öll að hjálpast að við að halda á lofti.

Kærar þakkir!

 

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum