Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. maí 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Kynntu leiðsögukerfi í samgöngum

Þrír verkfræðingar fluttu erindi á sjöundu málstofu samgönguráðs í dag þar sem þeir kynntu ýmsar hliðar á nútíma upplýsingatækni í samgöngum. Var einkum fjallað um leiðsögutækni í flugi, á sjó og á vegum.

Fundur samgönguráðs um leiðsögutækni.
Rætt var um leiðsögutækni, eftirlit og gjaldtöku á fundi samgönguráðs í dag.

Arnór B. Kristinsson frá Flugstoðum ræddi um flugleiðsögu, Guðjón Scheving Tryggvason frá Siglingastofnun fjallaði um leiðsögu til sjós og Björn Ólafsson hjá Vegagerðinni talaði um landleiðsögu.

Í erindi Arnórs kom fram að í flugumferðarþjónustu og flugleiðsögu Flugstoða sé notast við hefðbundinn flugleiðsögubúnað sem byggist á radíóvitum á jörðu niðri. Það sé traust tækni en nokkuð dýr og viðhald orðið kostnaðarsamt. Lagt verði til að gervihnattaleiðsögutækni verið notuð í auknum mæli í flugleiðsögu enda henti hún vel íslenskum aðstæðum og alþjóðlegri þróun. Slík tækni bjóði jafnvel uppá meiri nákvæmni en hefðbundinn búnaður. Hann sagði Flugstoðir hafa unnið ötullega að því að innleiða þá tækni í flugleiðsögu hérlendis. Arnór ræddi einnig ýmis önnur svið í eftirliti með flugumferð og stjórnun hennar svo sem fjarskipti og sagði góð fjarskipti geta leitt til hagræðis vegna möguleika á þéttari flugumferð.

Síauknar kröfur um eftirlit

Guðjón Scheving Tryggvason fór yfir breytingar og þróun sem orðið hefur í leiðsögu á sjó og fjallaði um upplýsinga- og eftirlitskerfi. Á sama hátt og í flugi hefur hefðbundin leiðsögutækni verið notuð svo sem ratsjár, sjókort og dýptarmælar, vitar, baujur og leiðarmerki og sagði hann kröfur um siglingaöryggi og mengunarvarnir sífellt fara vaxandi, bæði innanlands og erlendis. Guðjón kynnti upplýsingakerfi Siglingastofnunar um veður, ölduhæð og sjólag, og sagði tilgang nýs eftirlits- og upplýsingakerfis vera þann að draga úr hættu á skipssköðum og mengun sjávar og takmarka áhrif þeirra á lífríki sjávar og strandsvæði. Rakti hann meðal annars tilkomu Vaktstöðvar siglinga, sjálfvirks auðkenniskerfis skipa og hins nýja rafræna tilkynningakerfis skipa sem nefnt er á ensku Safe Sea Net og nefndi einnig að í júlí 2008 tækju gildi reglur um aðskildar siglingaleiðir fyrir Reykjanes.

Björn Ólafsson ræddi eftirlit og upplýsingaþjónustu Vegagerðarinnar sem hann sagði mjög umfangsmikla. Tilgangurinn væri að hafa jafnan vitneskju um ástand og færð á vegum og miðla til vegfarenda með sjálfvirkum hætti til dæmis á netinu eða með símsvörun og hægt væri einnig að fá upplýsingar um breytilegt burðarþol vega til að geta stýrt álagi og beitt takmörkunum ef þurfa þykir. Þá greindi hann frá auknum möguleikum á GPS mælingum sem beita mætti við gjaldtöku af umferðinni og nýta jafnvel í því skyni að stýra umferð.

Hér má sjá glærur með erindi Arnórs B. Kristinssonar.


Hér má sjá glærur með erindi Guðjóns Scheving Tryggvasonar.

Hér má sjá glærur með erindi Björns ÓIafssonar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira