Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. febrúar 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Gild rök gegn sameiningu

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði verða ekki sameinaðar gegn gildum rökum heimamanna. Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, tilkynnti þetta í dag eftir að hafa rætt við sveitarstjórnarmenn á norðanverðum Vestfjörðum og framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Heilbrigðisráðherra heimsótti í gær og dag heilbrigðisstofnanir, starfsmenn þeirra, og sveitarstjórnarmenn í Vestlendingafjórðungi. Vildi ráðherra með för sinni kynna sér af eigin raun afstöðu heimamanna í viðkomandi sveitarfélögum til sameiningar heilbrigðisstofnana. Ráðherra hefur lagt á það ríka áherslu að hann vildi taka eins mikið tillit til óska þeirra og gerlegt væri, að svo miklu leyti sem þeir færðu haldgóð rök fyrir áherslum sínum. Eftir ítarleg samtöl við forystumenn í heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum sagði ráðherra ljóst að ávinningurinn af því að sameina suður og norðursvæðið væri svo miklum takmörkunum háður að ávinningurinn væri vandséður. - Það þýðir ekkert að sameina heilbrigðisstofnanir með reglustiku úr Reykjavík og keyra málið þannig áfram ef gild rök mæli gegn sameiningu. Ef forsendur breytast og afstaða fólksins fyrir Vestan breytist, þá hlusta ég. Heilbrigðisráðherra er til fyrir þau, ekki öfugt, sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum