Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. mars 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra ræðir loftslagsmál í Brussel

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra með starfsfólki EFTA.
Í Brussel

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra stýrði morgunverðarfundi norrænu umhverfisráðherranna, sem haldinn var í Brussel í gær. Reglulega er efnt til slíkra morgunverðarfunda til að undirbúa fundi ráðherraráðsins (Environmental Council) sem fara fram samdægurs.

Aðalefni fundarins að þessu sinni var framlag umhverfisráðherra Evrópusambandsins til vorfundar sambandsins sem haldinn verður 19. og 20. mars næstkomandi. Þar verða loftslagsmálin efst á dagskrá auk efnahagsvandans og orkumála.

Umhverfisráðherra átti einnig fund með Andreas Carlgren, umhverfisráðherra Svíþjóðar, en Svíþjóð fer með formennsku í Evrópusambandinu á síðari helmingi yfirstandandi árs. Á þeim fundi ræddu ráðherrarnir sérstaklega framvindu mála undir formennsku Svíþjóðar og mögulegri þátttöku Íslands í orku- og loftslagsstefnu Evrópusambandsins. Fyrir liggur að Ísland mun taka virkan þátt í viðskiptakerfi með losun gróðurhúsalofttegunda (ETS), en árið 2013 mun rúmlega 40% af líklegri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi falla undir viðskiptakerfi ESB. Umhverfisráðherra ræddi möguleika á þátttöku Íslands í fleiri þáttum orku- og loftslagsstefnunnar, s.s. varðandi endurnýjanlega orkugjafa og mat á sanngjarnri skiptingu skuldbindinga.

Umhverfisráðherra ræddi einnig við Stefán Hauk Jóhannesson, sendiherra Íslands í Brussel, um stöðu mála gagnvart EES samningnum sem undir umhverfisráðuneytið falla. Umhverfisráðherra heimsótti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og Skrifstofu EFTA í Brussel þar sem hún kynnti sér starfsemi stofnananna og ræddi um þau mál sem efst eru á baugi innan EES samningsins á sviði umhverfismála.       

Auk ráðherra tóku þátt í fundunum Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, staðgengill sendiherra, og Ingimar Sigurðsson, fulltrúi umhverfisráðuneytisins í sendiráðinu í Brussel.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum