Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. mars 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Erindi Svandísar Svavarsdóttur á ráðstefnu um vistvæn innkaup

Fjármálaráðherra, fundarstjóri og ágætu ráðstefnugestir.

Mér er það mikil ánægja að fá að vera með ykkur hér í dag og fá tækifæri til að fjalla um eitt af áherslumálum mínum þ.e.a.s. vistvæn innkaup og sjálfbærni.

Ég ætla að hefja mál mitt á tveimur sögum.

Sú fyrsta er um fyrirtækið Humble Energy en þeir stærðu sig af því að þeir gætu unnið nægilega orku á hverjum degi til að bræða 7 milljón tonn af jöklum. Í auglýsingunni sem birtist í TIME magazine árið 1962 segir:

Jöklar heimsins hafi verið meira og minna óbreyttir í árþúsundir. Ef orkan sem Humble Energy vinnur til á hverjum degi, væri breytt í hita, gæti hún brætt 80 tonn af jökulís á sekúndu. Til að mæta aukinni orkuþörf þjóðarinnar hefur Humble hagnýt sér vísindin til að verða stærsti orkuframleiðandi Bandaríkjanna. Með rannsóknum hefur Humble á undraverðan máta meðhöndlað olíu þannig að hún nýtist á margvíslegan hátt í daglegu lífi og við efnaframleiðslu.“

Við getum brosað að þessari auglýsingu í dag en í ljósi sögunnar er þetta líklegast ein allra kaldhæðnislegsta auglýsing sem gerð hefur verið. Þrátt fyrir að líklega hafi auglýsingin endurspeglað tíðarandann sem ríkti á árinu 1962.

En það ár er einmitt talið marka tímamót í umhverfismálum. Þá kom út bókin „Raddir vorsins þagna“ (Silent Spring) eftir Rachel Carson. Í þeirri bók er því haldið fram að eftirlitslaus notkun á eiturefnum eins og til dæmis DDT væri ekki bara skaðlegt fyrir skordýr og smápöddur heldur einnig fugla og menn. Titillinn „Raddir vorsins þagna“ vísar einmitt til fuglasöngsins sem var horfinn á stórum hluta landbúnaðarsvæða Bandaríkjanna. Bókin var harðlega gagnrýnd á sínum tíma en smám saman áttaði alþjóðasamfélagið sig á skaðsemi meindýraeitra s.s. DDT og árið 1972 var lagt bann við notkun þess en þá hafði DDT verið á markaði frá því um 1940 eða í um 30 ár.

Rúmum áratug áður en DDT kom á markað, eða 1928, var hins vegar annað efni fundið upp sem var talið algert töfraefni. Efnið var litar- og lyktarlaust, hafði engin eituráhrif og var hvorki eldfimt né ætandi, hvort heldur sem var í vökva- eða gasformi. Thomas Midgley, annar vísindamannana sem fann upp efnið, sýndi til dæmis fram á skaðleysi þess með því að fylla lungun af því og anda því rólega á kerti og kæfði þar með eldinn. Þar sem efnið virtist ekki hafa neinar hliðaverkanir fékk það fljótlega margvíslegt notagildi, allt frá því að vera notað í slökkvitæki í það að vera algengasti kælimiðill í kælitækjum. Flest ykkar hafa líklega áttað sig á því að hér er verið að tala um FREON.

Það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum (1974) sem grunsemdir vakna að Freon gæti haft áhrif á ósonlagið. Í maí 1985 fékk alþjóðasamfélagið vitneskju um að stórt gat í ósonlaginu myndaðist á hverju vori yfir suðurskautinu (Sept. til nóv. á suðurhveli). Þetta var áfall fyrir vísindasamfélagið þar sem búið var að mæla ósonlagið með gervihnattamælingum í fjölda ára yfir suðurhveli án þess að nokkurt ósongat fyndist. Þegar farið var að skoða gervihnattamælingarnar þá kom vissulega í ljós að gervihnettirnir hefðu mælt ósongatið. Vandamálið var hinsvegar að tölvurnar voru forritaðar til meðhöndla óvenjulágar mælingar sem villur í mælingu.

Það sem var einn helsti kostur Freons var einnig stærsti ókostur þess. Freon brotnaði aldrei niður í andrúmsloftinu og barst upp í heiðahvolfin. Þar var sólarljósið nægilega sterkt að klóratómið losnaði frá Freoninu en það er klórið sem eyðir ósoninu.

Einungis nokkrum árum eftir að ósongatið uppgötvaðist þá náðist víðtæk alþjóðleg samstaða um að banna notkun ósoneyðandi efna í áföngum. Í raun má segja að notkun ósoneyðandi efna hafi minnkað mun hraðar á Vesturlöndum en gert var ráð fyrir í upphafi. Helsta ástæða þess er talin vera að það voru til staðkvæmdarefni sem höfðu sömu notagildi og Freon og án þess að notkun þeirra hefði verulegan kostnaðarauka í för með sér.

HÉR MÁ SPYRJA SIG HVAÐ ÞETTA HAFI AÐ GERA MEÐ VISTVÆN INNKAUP Á ÍSLANDI?

Jú sagan um ósongatið og Freon kennir okkur margt.

Í fyrsta lagi stafa mörg umhverfisvandamál af óljósu orsakasambandi milli athafnar í dag og afleiðingar í framtíðinni. Það var ekki nokkurn sem grunaði þegar Freon uppgötvaðist að það ætti eftir að valda einu stærsta umhverfisvandamáli sem mannfólkið hafi staðið frammi fyrir. Auk þess má benda á að Freon er afskaplega öflug gróðurhúsalofttegund.

Það sama má segja um mörg af þeim efnum sem við erum að nota í dag. Við höfum í raun mjög takmarkaða vitneskju á því hvaða áhrif þau hafa í umhverfinu.

Í öðru lagi eru nú þegar til lausnir við mörgum af þeim vandamálum sem við erum að glíma við í dag. Hins vegar er ekki nægilegur þrýstingur á markaðinn til að skipta yfir í umhverfisvænni lausnir. Með vistvænum innkaupum viljum við skapa þann þrýsting

Í þriðja lagi þá er það ekki eins og stundum er haldið fram að við verðum að fórna þeim lífsgæðum sem við höfum í dag til þess að verða umhverfisvæn. Að verða „grænn“ er ekki einhver rómantísk nostalgía um að við verðum að lifa í sjálfsþurftarbúskap og rækta okkar eigin matvæli og ganga í vinnuna á hverjum degi. NEI. Vistvæn innkaup fjalla þvert á móti um það að skapa forsendur til að geta notið í framtíðinni þeirra lífsgæða sem við njótum í dag.

Svo má ekki gleyma að íslenska ríkið kaupir vörur, þjónustu og verk fyrir meira en 100 milljarða króna á ári sem er um fjórðungur af útgjöldum ríksins. Við höfum því stjórntækið til að breyta rétt umhverfinu og okkur sjálfum til hagsbóta.

Þegar árið 1992 á Heimsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um umhverfi og þróun, sem í daglegu máli er kölluð Ríó ráðstefnan var lögð rík áhersla á að sýna frammá hvernig sjálfbær þróun og hagsæld verða að haldast í hendur. Á Ríó ráðstefnunni voru samþykktar 27 grundvallarreglur í umhverfismálum og má heimfæra nokkrar þeirra beint uppá vistvæn innkaup. Þar má fyrst telja mengunarbótaregluna sem einfaldlega segir að sá sem veldur mengun/umhverfisspjöllum skal bera kostnaðinn af menguninni.

Í áttundu meginreglunni er síðan lögð sérstök áhersla á að einstök lönd marki sína stefnu til að hvetja til hreinnar framleiðslutækni og sjálfbærs neyslumynsturs.

Árið 2002 var haldin í Jóhannesarborg ráðstefna um umhverfi og þróun. Á þeim 10 árum sem voru liðin frá Ríó vorum við búin að læra heilmargt. Í Jóhannesarborg var það beinlínis fullyrt að vistvæn innkaup opinberra aðila væru forsenda breytts neyslumynsturs og þar með nauðsynleg til að ná markmiðunum sem sett voru fram meðal annars í Ríó árið 1992.

Umhverfis- og fjármálaráðuneytin eru í um áratug búin að vinna að innleiðingu vistvænna innkaupa á Íslandi, í anda ráðstefnanna í Ríó og Jóhannesarborg. Í bæði innkaupastefnu og umhverfisstefnu ríkisins hefur verið lögð áhersla á að tekið sé tillit til vistvænna sjónarmiða við opinber innkaup. Til þess að skerpa enn frekar á stefnu ríkisins í þessum málaflokki, samþykkti ríkisstjórnin í mars 2009, sérstaka stefnu um „vistvæn innkaup ríkisins“, þar sem lögð er áhersla á að ríkið sé „upplýstur vistvænn kaupandi“.

Í innkaupastefnu ríkisins frá 2002 segir m.a. að við innkaup skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Í þeirri stefnu sem hér er kynnt um vistvæn innkaup ríkisins er þetta úfært nánar svo hægt sé að vinna að þessu markmiðið á markvissan hátt. Grunnur innkaupastefnu ríkisins byggir á því að ávallt skuli leitast við að gera hagstæðustu kaup. Með vistvænu innkaupastefnunni er markmiðið að leiðbeina hvernig umhverfisstjónarmið þurfa einnig að koma inn í þessa jöfnu svo þau séu höfð til hliðsjónar við mat á valkostum.

Í stefnunni um vistvæn innkaup er lögð árhersla á eftirfarnadi þætti:

Ábyrgð og gagnsæi: Áhersla verður lögð á gagnsæi gagnvart markaðnum varðandi skilyrði sem ríkið setur fram í umhverfismálum við innkaup. Verður lögð áhersla á að skýra breyttar þarfir ríkisins hvað þennan þátt varðar.

Einföldun og skilvirkni: Þróa á sameiginlegt verklag og verkfæri sem gera vistvæn innkaup einföld, fagleg og aðgengileg. Samræmd innkaup, til að mynda rammasamningar, auka skilvirkni en við útboð á þeim verður einnig tekið tillit til umhverfissjónarmiða.

Menntun og sérhæfing: Lögð er áhersla á að starfsfólk ríkisstofnana fái upplýsingar, fræðslu og faglega ráðgjöf um vistvæn innkaup. Unnið verði markvisst að því að aðstoða ríkisstofnanir við innleiðingu vistvænna innkaupa og að Ríkiskaup standa fyrir námskeiðum og fyrirlestrum á sviði innkaupa og koma á fræðslu á þessu sviði.

Efling samkeppnismarkaðar: Ríkisstofnanir gefi skýr skilaðboð til markaðar um að þær taki tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða við innkaup. Aðeins með þeim hætti getur markaðurinn brugðist við þeim og bætt framboð sitt sem mætir nýjum þörfum.

Góð samskipti við aðila markaðarins og gagnsæ vinnubrögð stuðla að virkri samkeppni, auknu vöruúrvali og nýsköpun til að mæta auknum væntingum og kröfum um umhverfissjónarmið.

Með stefnu um vistvæn innkaup eru sett fram fjögur mælanleg markmið sem lögð verður áhersla á til næstu fjögurra ára.

Þau eru:

1. Að þróaðir verði mælikvarðar um efnahagslegan og umhverfislegan ávinning vistvænna opinberra innkaupa. Þessi vinna er í gangi núna.

2. Að hlutfall útboða á vegum ríkisins þar sem sett verði eftirfarandi umhverfisskilyrði verði:

a. 2010: a.m.k. 30% útboða innihaldi umhverfisskilyrði

b. 2011: a.m.k. 60% útboða innihaldi umhverfisskilyrði

c. 2012: a.m.k. 80% útboða innihaldi umhverfisskilyrði

3. Fyrir 1 mars 2011 ljúki a.m.k. þrjár lykilstofnanir ríkisins 1. stigi við innleiðingu vistvænna innkaupa, eins og líst verður hér á eftir

4. Fyrir lok ársins 2012 ljúki allar ríkisstofnanir (A hluta) 1. stigi við innleiðingu vistvænna innkaupa.

Þó svo að ríkið sé stærsti opinberi kaupandinn á Íslandi, þá er það ekki sá eini. Til þess að þessi vinna nýtist sem flestum, og til þess að umhverfiskröfur sem birgjar þurfa að mæta séu þær sömu, óháð því hvort um sé að ræða ríki eða sveitarfélög, óskaði umhverfisráðuneytið eftir því að sveitarfélög kæmu að þessari vinnu ásamt ríkinu. Stofnaður var stýrihópur um verkefnið með fulltrúum frá umhverfisráðuneytinu, fjármálarráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ.

Hlutverk stýrihópsins er að samþætta umhverfisskilyrði almennu verklagi við útboð og búa til verkfæri sem gera vistvæn innkaup einföld, fagleg og aðgengileg fyrir alla. Það væri til dæmis óskandi að atvinnulífið myndi nota sömu vistvænu skilyrði í sínum útboðum og opinberir aðilar ætla að sammælast um að nota. Stýrihópurinn vinnur að gerð fræðsluefnis og verkfæra sem nýtast munu sem flestum við vistvæn innkaup. Auk þess er búið að opna sérstakan fræðsluvef um vistvæn innkaup sem er með slóðina www.vinn.is.

Á næstu 4 til 6 vikum verður lögð lokahönd á að klára umhverfisskilyrði fyrir alla helstu vöruflokka sem rammasamningar Ríkiskaupa ná yfir. Við gerð íslensku skilyrðanna hafa samevrópsk skilyrði auk skilyrði norðurlandanna verið höfð til hliðsjónar. Það auðveldar verulega innleiðingu vistvænna innkaupa á Íslandi þar sem að flestir erlendir birgjar kannast við þessi skilyrði auk þess sem þetta styrkir íslensk fyrirtæki í erlendri samkeppni.

Umhverfisskilyrðin eru fyrst og fremst hugsuð fyrir innkaupastofnanir eins og Ríkiskaup við gerð rammasamninga eða í almennum útboðum. Við gerð rammasamnings er yfirleitt samið við 3 birgja og geta stofnanir síðan valið við hvaða birgja - er verslað. Vörur innan rammasamninga geta haft mismunandi umhverfisáhrif. Með umhverfisskilyrðunum er því einnig verið að gera gátlista sem eiga að nýtast einstökum stofnunum til að velja umhverfishæfustu vöruna innan rammasamnings hverju sinni.

Auk fyrrnefnds stýrihóps, sem er samstarfsvettvangur ríkis og sveitarfélaga, hefur ríkið stofnað vinnuhóp sem á að aðstoða ríkisstofnanir við að innleiða vistvæn innkaup. Einstök sveitarfélög geta síðan innleitt sambærilega vinnuhópa hjá sér. Í vinnuhópnum sitja fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu, Ríkiskaupum og Umhverfisstofnun. Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn þrói aðferðarfræði með nokkrum stofnunum á næstu 12 mánuðum, þannig að minnsta kosti þrjár stofnanir verði búnar að innleiða vistvæn innkaup að ári.

Sú aðferðarfræði verði síðan notuð til að innleiða vistvæn innkaup hjá öllum öðrum ríkisstofnunum fyrir lok ársins 2012 í samræmi við markmið stefnunnar.

Í Bretlandi var þróaður ákveðinn framvindurammi sem hefur reynst ágætlega þar í landi við innleiðingu vistvænna innkaupa. Við höfum fengið þennan ramma að láni frá þeim og gerum ráð fyrir að hafa þá aðferðarfræði til hliðsjónar hérlendis við innleiðingu hjá ríkinu. Þetta er það sem er kallað fyrsta stig vistvænna innkaupa í markmiðunum í stefnunni. Lykilatriðin í framvindurammanum eru:

1. Fólk: Að byggja upp færni hjá lykilfólki í innkaupum varðandi vistvæn innkaup. Smám saman eiga vistvæn innkaup að vera sjálfsagður hluti í öllum innkaupum

2. Sýn: Að það sé samsýn hjá yfirmönnum og starfsmönnum einstakra stofnanna hvað vistvæn innkaup eru og hvernig stofnunin vinni að vistvænum innkaupum

3. Innkaupaferli: Til að fjarlægja hindranir við innleiðingu vistvænna innkaupa verði helstu innkaup greind með tilliti til umhverfisþátta og komið á skilvirku verklagi við kaup á vöru og þjónustu

4. Birgjar: Að stofnanir greini sína lykilbirgja og komi á samráði til að minnka umhverfisáhrif veittrar þjónustu/keyptrar vöru og að birgjar verði fræddir um stefnu ríkisins um vistvæn innkaup

5. Eftirfylgni: Að einstakar stofnanir komi sér upp mælikvörðum um hvernig meta eigi ávinning viðkomandi stofnunnar varðandi vistvæn innkaup og að þau hafi innleitt vistvæn innkaup.

Ein einfaldasta leið kaupenda að kaupa vistvænt er að kaupa vörur sem eru umhverfismerktar, t.d. með norræna umhverfismerkinu „Svaninum“ eða Evrópska merkinu „Blóminu“. Því miður er því enn svo farið að fáar vörur eða þjónusta eru umhverfismerktar á Íslandi. Á þessu er þó að verða veruleg breyting. Í dag hefur Umhverfisstofnun fengið nokkurn fjölda umsókna um Svaninn. Í viðtölum við birgja er ein helsta ástæða þess að þeir séu að verða sér út um Svaninn, aukinn þrýstingur frá opinberum aðilum. Við erum því þegar farin að finna að vistvæna innkaupastefnan okkar er farin að skila árangri. Því miður getum við ekki bara beðið um að vörur uppfylli Svaninn, meðal annars þar sem að suma vöruflokka er ekki hægt að umhverfismerkja og hins vegar þar sem það takmarkar verulega fjölda birgja sem gætu veitt ákveðna þjónustu / vöru og þar með væru önnur markmið eins og hagstæðasta verð sett í uppnám. Það er hins vegar alveg ljóst að innan nokkurra ára viljum við gjarnan sjá að Svanurinn verði ráðandi í nokkrum vöruflokkum. Þetta erum við þegar farin að sjá t.d. innan ræstigeirans, þar sem að 2 fyrirtæki eru þegar komin með Svaninn, eitt fær líklega vottun í mars og nokkur önnur síðar á árinu.

Góðu gestir

Ég vil að lokum enda þessa tölu á að vitna í sýningu sem var haldinn í listasafni Kaupmannahafnar í desember síðastliðnum. Sýninginn hét „Nature Strikes Back – Man and Nature in Western Art“. Þar var mynd eftir danskan listmálara „Christian Schmidt-Rasmundssen“

Myndin heitir „At Long Last Mankind Found a Way to Conquer Death“. Nafn myndarinnar vísar til þess að mannfólkið telur sig loksins hafa leyst gátuna, að sigra manninn með ljáin. Dauðinn er falinn í snjókalli, það sést glitta í hann, út stendur handleggurinn og ljárinn. Maðurinn hins vegar sér það ekki. Hann kemur spásserandi og brosandi með meiri eldivið í ofninn. Eldurinn logar dátt og bræðir snjóinn. Ofninn er tákn tæknilausna sem maðurinn hefur fundið upp til að geta lifað í og stjórnað náttúrunni. Án ofnsins myndi mannfólkið farast (úr kulda). En – og sumir myndu segja „eins og venjulega“ – er lausnin ekki nægilega vel úthugsuð, þar sem að hún að lokum sleppir út manninum með ljáin. Þetta er ósjálfbær lausn, hættuleg til langframa. Áhyggjulaus heldur trúðurinn áfram að bera eldivið í ofninn í stað þess að staldra við og hugsa. Hann skilur ekki þá krafta sem stjórna náttúrunni og þá hættu sem þeir geta haft í för með sér. Margbreytileika náttúrunnar ber að sýna virðingu, en trúðurinn fattaði það bara ekki.

Vistvæn innkaup fjalla um að staldra við, hugsa og gera það sem er skynsamlegt til framtíðar.

Ég vil hvetja ykkur til að kynna ykkur heimasíðu verkefnisins www.vinn.is þar sem er að finna ýmislegt fræðsluefni um vistvæn innkaup, stefnu ríkisins og erlent og innlent fræðsluefni. Auk þess er á þessum vef kynntar helstu fréttir um vistvæn innkaup hérlendis og erlendis og er vefurinn uppfærður a.m.k einu sinni í viku.

Takk fyrir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum