Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. október 2010 Utanríkisráðuneytið

Ræður Össurar Skarphéðinssonar á Alþingi um fríverslun við Bandaríkin

Fyrri ræða ráðherra flutt kl. 17:59

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að flytja þetta mál. Málið er í sjálfu sér jákvætt og horfir til framfara. Allt of sjaldan beina hv. þingmenn augum sínum til framtíðarinnar og sjá tækifæri í því erfiða ástandi sem Íslendingar búa við nú um stundir. Ég hef hlustað á hv. þingmann sem hefur setið hér um nokkurra daga skeið og hrifist af því hvað hann er þróttmikill og vaskur í ræðustól. Sýnist mér að þingið gæti vel ýtt sér starfskrafta hans með varanlegri hætti en að hann komi hingað sem varaþingmaður.

Ég vil ekki draga úr þessari tillögu. Hún er jákvæð. Það er hins vegar nauðsynlegt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því, eins og kom reyndar fram í máli hv. framsögumanns, að Íslendingar og það viðskiptabandalag sem þeir eru aðilar að, þ.e. EFTA, hafa freistað þess að ná samkomulagi við Bandaríkin um gerð slíks samnings. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að allnokkur ár eru síðan. Ekki man ég algjörlega hvenær það var kannað síðast en hv. þingmaður verður hins vegar að vita að ástæður voru fyrir því að ekkert varð úr þeim umleitunum. Niðurstaða þeirra kannana sem gerðar voru á sínum tíma, fyrst af hálfu EFTA og síðan tvíhliða af hálfu Íslands, var sú að ekki var grundvöllur til að hefja slíkar fríverslunarviðræður við Bandaríkin, hvorki á vettvangi EFTA né tvíhliða.

Það var aðallega tvennt sem réð þar mestu. Í fyrsta lagi hafa Bandaríkin margsinnis á undanförnum árum gefið til kynna í viðræðum við íslensk stjórnvöld að í ljósi takmarkaðra viðskiptahagsmuna hafi þau ekki áhuga á tvíhliða fríverslunarsamningi við Ísland. Í öðru lagi er rétt að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því, af því að mér fannst mál hans byggjast að verulegu leyti á þeim möguleikum sem hann sá fyrir landbúnaðarafurðir og landbúnaðinn á Íslandi, að hin ástæðan fyrir því að ekki tókst betur til er sú að Bandaríkin, m.a. á fundum embættismanna þeirra og EFTA-ríkjanna sem voru haldnir allt fram að miðjum þessum áratug, gáfu skýrt til kynna að forsenda fríverslunarsamnings væri sú að markaðsaðgangur fyrir landbúnaðarvörur, þar með taldar viðkvæmar landbúnaðarvörur svo sem kjötvörur, yrði bættur mjög verulega frá því sem nú er. Það er þessi skýra afstaða Bandaríkjanna varðandi markaðsaðgang fyrir þeirra landbúnaðarvörur inn á íslenskan markað sem hefur leitt til þess að ekki hefur verið talið raunhæft af hálfu EFTA-ríkjanna eða Íslands að óska eftir formlegum fríverslunarviðræðum við Bandaríkin.

Nú vil ég ekki snúa út úr fyrir hv. þingmanni, en auðvitað freistar það mín að túlka þetta sem svo að hér sé kominn fram breytt afstaða af hálfu hins forna og gamalgróna bændaflokks, Framsóknarflokksins, að hann vilji láta reyna á þolrifin í íslenskum landbúnaði með því að láta hann keppa á frjálsum markaði við innfluttan varning á sviði kjötframleiðslu frá Bandaríkjunum. Hingað til hefur verið talin rík nauðsyn á tollvernd fyrir nákvæmlega þess konar vöru vegna þess að íslenskir framleiðendur hafa talið sig eiga mjög erfitt með að standast þá samkeppni. Ég vil ekki halda því fram að þetta sé breytt afstaða Framsóknarflokksins, en þetta er það sem Bandaríkin hafa sagt. Þau vilja fá verulega bættan aðgang fyrir kjöt sitt. Þá gæti hv. þingmaður sagt: Við gætum fallist á það svo fremi sem gætt verður allra alþjóðlegra reglna um sóttvarnir og í krafti þeirra væri hægt að koma í veg fyrir að hingað yrði flutt inn hrátt kjöt. Það kann vel að vera. Þetta eru sömu rökin og ýmsir þeir sem standa með mér í skoðanaskóla varðandi Evrópusambandið hafa, ég þar á meðal, gagnvart þeim máflutningi að við náum ekki árangri í viðræðum okkar við Evrópusambandið á landbúnaðarsviðinu.

Ég er þeirrar skoðunar að sóknarfærin í samningum við Evrópusambandið séu miklu meiri á sviði landbúnaðar en forustumenn í landbúnaði gefa sér. Ég tel að staða landbúnaðarins sé betri en margir haf ályktað að hún sé til þess að standast slíka samkeppni sem kynni af slíku að leiða, en þá tek ég það líka skýrt fram að þau rök sem ég taldi að við gætum notað sem skjöld okkur til varnar ef ráðist yrði í slíkar viðræður við Bandaríkin yrðu og verða að sjálfsögðu notuð í viðræðum við Evrópusambandið. Við Íslendingar búum við sérstakar aðstæður. Við þurfum á fæðuöryggi að halda. Evrópusambandið hefur gert það að forgangsatriði fyrir einstakar þjóðir sínar. Við erum fjarri matarkistum heimsins. Við erum úr alfaraleið. Ef það er einhver þjóð sem þarf á skotheldu fæðuöryggi að halda, ef kemur til náttúruhamfara eða styrjalda, eru það Íslendingar. Við búum sömuleiðis að erfðaefni sem er einstakt og hefur verið hér frá landnámi. Það þarf að varðveita. Þetta eru rök sem ég ímynda mér að við mundum nota þegar við færum í viðræður við Bandaríkin af þeim toga sem lagt er til. Nákvæmlega sömu rök beita menn í samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Ef ég sný málinu algjörlega við, án þess að ég vilji gera hv. þingmanni upp einhver sérstök áform, má hugsanlega segja að hægt sé að tefla þessum möguleika fram gagnvart öðrum möguleikum sem t.d. utanríkisráðherra sem hér stendur hefur skákað fram á taflborð, þ.e. samningi við Evrópusambandið. Það mætti segja að nákvæmlega þetta væru rökin fyrir því að það væri í lagi frá sjónarhóli hv. þingmanns að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þ.e. hann heldur því fram, samkvæmt greinargerðinni og ágætri ræðu hans áðan, eða ég dreg þá ályktun af máli hans að íslenskur landbúnaður geti staðið í samkeppni af þessu tagi. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður ætlist til þess að við fáum að flytja út okkar unnu vörur, hugsanlega hráar, á Bandaríkjamarkað án þess að þeir geri a.m.k. kröfu um slíkt hið sama. En ef íslenskur landbúnaður getur staðið í samkeppni við bandaríska markaðinn, hvers vegna ekki við hinn evrópska?

Rökin sem hv. þingmaður notar fyrir ávinningnum af því að tengjast Bandaríkjunum sterkari viðskiptaböndum eru nákvæmlega þau sömu og hægt er að nota fyrir því að tengjast Evrópusambandinu viðlíka böndum.

Ég fagna þessari þingsályktunartillögu hv. þingmanns og bið hann að fyrirgefa að ég skuli hafa teygt hana út í umræðu um Evrópusambandið. Það var ekki gert til að gera lítið úr tillögu hv. þingmanns, heldur einungis til að benda honum á að eins og ég les þetta mál þá er hann að tefla fram rökum sem hægt er að nota fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hann er í reynd að leggja fram rök frá sjónarhóli landbúnaðarins sem eru nákvæmlega hin sömu og ýmsir, þar á meðal ég, hafa sagt að menn eigi að skoða að því er varðar landbúnaðarhlið slíkra viðræðna.

Horfa á upptöku á vef Alþingis með því að smella hér

Seinni ræða ráðherra flutt kl. 18:12

Frú forseti. Ég tek skýrt fram að ég geri engar athugasemdir við að hv. þingmaður hafi flutt þessa tillögu. Ég sagði í ræðu minni áðan að hún væri jákvæð og ég fagnaði því alltaf þegar þingmenn úr hvaða flokki sem er horfðu til framtíðar.

Sannarlega liggja í þessu tækifæri og vissulega væri gott ef hægt væri að gera slíkan samning. Það sem ég rakti hins vegar er ekki af eigin reynslu heldur það sem embættismenn mínir, sem hafa staðið í þessu í gegnum árin og hafa tengsl við EFTA, hafa tjáð mér. Ég hef ekki reynt þetta á eigin skinni. Þeir hafa sagt mér að Bandaríkin hafi á undanförnum árum margsinnis gefið til kynna í viðræðum að þau hafi ekki mikinn áhuga vegna þess að viðskiptahagsmunir séu takmarkaðir. Hverjir eru þá hagsmunir okkar af þessu? Bandaríkin eru mjög mikilvægur útflutningsmarkaður fyrir íslenskar afurðir. Ef við skoðum t.d. árið 2009 nam vöruútflutningur til Bandaríkjanna ekki nema 3,9% af heildarútflutningi. Ég veit af því að hv. þingmaður er búinn að skoða þetta mál að hann veit að útflutningur okkar til Evrópusambandsríkjanna var 83,5%. Ég er viss um að þetta er í greinargerð hans, ég hef ekki lesið hana algjörlega, en þar sjá menn afstöðu þessara hagsmuna.

Það liggur sem sagt líka fyrir að Bandaríkjamenn hafa tjáð á fundum embættismanna þeirra og EFTA sem sannarlega voru haldnir upp að 2005, ekki síðustu fimm árin, að forsendan af þeirra hálfu væri markaðsaðgangur fyrir landbúnaðarvörur, þar með talið það sem við á Íslandi lítum á í samningum okkar sem viðkvæmar landbúnaðarafurðir. Þegar við segjum „viðkvæmar“ erum við að hugsa til hagsmuna innlends landbúnaðar, þar á meðal kjöts, svo að það komi skýrt fram. Það var sú skýra afstaða Bandaríkjanna varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur sem leiddi til þess að ekki hefur verið talið raunhæft af hálfu EFTA-ríkjanna eða Íslands að óska eftir formlegum fríverslunarviðræðum við Bandaríkin.

Ég gat þess að slíkar kannanir eða þreifingar hefðu ekki átt sér stað svo mér sé kunnugt um eftir 2005, en á þeim tíma hefur hins vegar önnur þjóð okkur skyld, Sviss, sem við náttúrlega vinnum með, leitað hófanna um þetta og komist að sömu niðurstöðu. Það var þessi skýra afstaða Bandaríkjamanna varðandi aðgang fyrir landbúnaðarafurðir sem þeir flokka líka sem viðkvæmar sem leiddi til þess að af hálfu Svisslendinga að ekki var talin forsenda til að halda áfram frekari viðræðum.

Horfa á upptöku á vef Alþingis með því að smella hér.

Sjá yfirlit á vef Alþingis yfir ræður þingmanna um fríverslun við Bandaríkin með því að smella hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum