Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. nóvember 2010 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 1. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn mánudaginn 1. nóvember 2010, kl. 8:00, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 5. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson (PÞ) og Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) öll skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Magnús Pétursson (MP) fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) tilnefnd af BHM og KÍ. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, fulltrúi BSRB boðaði forföll.

Formaður bauð fundarmenn velkomna og dreifði dagskrá ásamt lögum um breytingu á stjórnarráðslögunum sem kveða á um samhæfingarnefndina og starfsvið hennar auk frumvarps að sömu lögum. Hann gerði stuttlega grein fyrir starfshópi sem var skipaður  PÞ og HF auk hans en sá hópur hafði það hlutverk að semja drög að siðareglum fyrir ráðherra og starfsfólk stjórnsýslunnar en drögin fylgja ofangreindu frumvarpi. PÞ rakti helstu breytingar sem urðu á frumvarpinu í meðförum þingsins, s.s. niðurfelling ákvæðis um að brot ráðherra á siðareglum væri sambærilegt við önnur brot sem kveðið er á um í lögum um ráðherraábyrgð. Eins og fram kom hjá JÓ var upphaflega hugmynd starfshópsins að einhvers konar úrskurðarnefnd tæki fyrir meint brot á siðareglum en horfið hefði verið frá því enda ekki endilega nauðsynlegt að refsa þótt reglur séu brotnar. Betra væri að siðareglur væru leiðbeinandi og gæfu tilefni til umræðna og fræðslu.

KÁ taldi mikilvægt að bæta siðferði almennt í stjórnsýslunni og velti fyrir sér hvort Rannsóknarskýrsla Alþingis gæti ekki gefið vísbendingar um á hvað hefði reynt í þeim efnum. PÞ minnti á að nefndin ætti að hafa samráð við embætti umboðsmanns Alþingis og ríkisendurskoðun og án efa gætu þessir aðilar líka komið með gagnlegar ábendingar. Fundarmenn voru þeirrar skoðunar að heppilegast væri að líta á innleiðingu siðareglna sem ferli, þ.e. að fyrst þyrfti að vekja til vitundar með umræðum og í kjölfarið settu menn sér svo reglur. Reynsla GHÞ, sem er sálfræðingur, er að þar sem siðareglur eru virkar líkt og í hennar fagstétt séu menn áhugasamir um reglurnar.

Þessu næst fór JÓ yfir drögin sem nefnd voru hér að ofan. Samkvæmt þeim eru siðareglurnar þríþættar. Fyrst eru sett fram fjögur megingildi, þá kemur upptalning á góðum siðvenjum sem líta má á sem eins konar brýningu en í þriðja hlutanum eru sértækari reglur fyrir ráðherra annars vegar og starfsfólk stjórnarráðsins hins vegar. Síðar í vikunni á PÞ að fjalla um siðareglur á námskeiði fyrir ráðherra, aðstoðarmenn þeirra og ráðuneytisstjóra og voru nefndarmenn sammála um að það væri skynsamlegt að nota drögin sem útgangspunkt umræðna þar.

Einhvers konar áætlun um starf nefndarinnar væri æskilegt að mati JÓ og einnig þyrfti að ræða hvar ætti að leita fanga. OECD sem er leiðandi í baráttunni gegn spillingu hefur á síðustu árum gefið út mikið af leiðbeinandi efni sem gæti nýst nefndinni en einnig mætti horfa til siðareglna í öðrum löndum. Aftur var nefnt að það væri mikilvægt að vita hver væru helstu vandamálin í íslenskri sjórnsýslu og hvar reyndi mest á siðferðið. Undir lok fundar var ákveðið að fá umboðsmann Alþingis og ríkisendurskoðanda á næsta fund til að ræða þessi mál og MP ætlar að heyra ofaní félaga sína í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana milli funda. Næsti fundur var ákveðinn mánudaginn 15. nóvember kl. 8:30.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 9:20. Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum