Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. desember 2010 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 3. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn mánudaginn 6. desember 2010, kl. 8:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 5. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) og Páll Þórhallsson (PÞ), skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Magnús Pétursson (MP) fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúar BHM, BSRB og KÍ.

Fyrir fundinn höfðu nefndarmenn verið beðnir um að skoða sérstaklega drög að siðareglum fyrir ráðherra sem fylgdu frumvarpi um breytingar á Stjórnarráðinu (lög um siðareglur nr. 86/2010). MP sagði að sér litist betur á I og II hluta, þ.e. grunngildin og upptalningu á góðum siðvenjum, en þann þriðja sem eru siðareglur ráðherra og spurði hvort ekki væri hægt að byrja á því að fá umræður meðal ráðherra um þá hluta. JÓ taldi það hæpið nema ráðherrum væri stefnt á fund gagngert með það að markmiði. Eins og KÁ benti á var ákall um skýrari reglur, t.d. varðandi gjafir o.fl., forsenda þess að ráðist var í verkefnið og því væru sértæku reglurnar nauðsynlegar.

Hugmynd JÓ var að byrja á því að setja ráðherrum siðareglur og vekja með því athygli á starfi nefndarinnar. PÞ sagði að það væri ekki sjálfgefið að setja ráðherrum siðareglur áður en búið væri að setja almennar reglur fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. Rökin fyrir því að byrja á ráðherrareglunum voru m.a. að skapa umræður en eins og PÞ benti á gætu áhrifin orðið þau að almennir starfsmenn stjórnsýslunnar fengju það á tilfinninguna að búið væri að ákveða fyrirfram hvernig reglurnar ættu að vera. Reglurnar kæmu því ofanfrá sem samkvæmt fræðunum væri ekki góð nálgun. Í framhaldinu stakk MP upp á því að við nýttum okkur vinnuna sem nú fer fram vegna væntanlegrar sameiningar ráðuneyta. Nýju ráðuneytin væru þá eins konar „tilraunadýr“ og umræðum um siðareglur yrði fléttað inn í almennar umræður um gildi og starfsreglur. Þessari hugmynd var vel tekið og í umræðum sem fylgdu í kjölfarið var m.a. rætt um siðferðilegar kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja og stofnana sem ríkisfyrirtæki kaupa þjónustu af. Einnig urðu heilmiklar umræður um það hver ætti að hafa eftirlit með því að ráðherra færu eftir siðareglum og hvernig ætti að taka á mögulegum brotum.

JÓ er að vinna að verkáætlun fyrir nefndina en lagði til að næstu skref yrðu þessi:

1)    leggja til að III kafli siðareglnanna taki gildi fyrir ráðherra,

2)    kanna hugmyndir forsætisráðherra um eftirlitsaðila,

3)    ræða við ráðuneytisstjóra nýju sameinuðu ráðuneytanna,

4)    skoða röð og atriði í drögum að aðgerðaáætlun.

MP tók að sér að ræða við Önnu Lilju ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytis.

Næsti fundur ákveðinn síðdegis miðvikudaginn 15. desember.

Ekki fleira rætt og fundi slitið 9.50.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum