Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. febrúar 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 7. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn mánudaginn 21. febrúar 2011, kl. 8:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 2. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson (PÞ) forsætisráðuneyti, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Magnús Pétursson fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúar BHM, BSRB og KÍ. Kristín Ástgeirsdóttir boðaði forföll.

Eins og fram kom hjá JÓ hefur ekki mikið gerst frá því hópurinn hittist síðast. Ekki er enn búið að leggja ráðherrareglurnar fyrir ríkisstjórn en það verður vonandi gert mjög fljótlega. Samskipti við ráðuneytisstjóra nýju sameinuðu ráðuneytanna leiddu í ljós að þar vilja menn komast hjá kostnaði við þetta verkefni og nú er hugmyndin að stefna að því að halda námskeið í sal í menntamálaráðuneytinu fyrir valda fulltrúa úr þessum ráðuneytum. MP spurði hvort ætlunin væri að stefna að sambærilegum námskeiðum fyrir aðra ríkisstarfsmenn á næstunni en JÓ taldi fullsnemmt að taka ákvörðun um það. Námskeið með fulltrúum úr velferðar- og innanríkisráðuneytinu væri eins konar tilraunaverkefni sem væntanlega myndi gagnast við skipulagningu og framkvæmd frekari fræðslu.

PÞ kynnti nefndarmönnum drög að frumvarpi um Stjórnarráðið sem verið er að undirbúa í forsætisráðuneytinu. Þar eru nokkrar greinar sem snerta viðfangsefni samhæfingarnefndarinnar enda er kaflinn um siðferðileg viðmið í starfsemi Stjórnarráðsins tekinn óbreyttur úr núgildandi lögum. Í framhaldinu urðu nokkrar umræður um einstakar greinar frumvarpsins og bað PÞ nefndarmenn að senda sér athugasemdir í tölvupósti ef einhverjar væru.

Aftur var rætt um væntanlegt námskeið sem nú er stefnt að því að halda 24. eða 25. mars. Þar væri eðlilegt að leggja fram drög að siðareglum fyrir stjórnsýsluna og tók JÓ að sér að fara yfir reglurnar með tilliti til breytinga sem orðið hafa á siðareglum ráðherra. Hann mun síðan senda endurbætt drög til nefndarmanna. Á námskeiðinu væri fyrst sagt frá störfum samhæfingarnefndar og drög að siðareglum kynnt. Þá tæki við hópavinna þar sem ca. 5 manna hópar fengju raunhæf dæmi til að glíma við sem talsmaður úr hópnum segði svo frá. Einhverjum tíma væri síðan eytt í yfirferð eða vinnu með drög að siðareglum. JÓ, PÞ og HF munu  sjá um undirbúning og framkvæmd námskeiðsins en öðrum nefndarmönnum er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í námskeiðinu hafi þeir tök á því.

Ekki var tekin ákvörðun um dagsetningu næsta fundar.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum