Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. apríl 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 8. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn mánudaginn 4. apríl 2011, kl. 8:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 2. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) og Páll Þórhallsson (PÞ) skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúar BHM, BSRB og KÍ. Magnús Pétursson, fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana, var fjarverandi.

Í upphafi fundar var sagt frá fundi/vinnustofu um siðareglur sem starfsfólk velferðar- og innanríkisráðuneytisins sótti þann 24. mars sl. og gekk vel að mati JÓ og HF. Þátttakendur fengu send drög að siðareglum fyrir fundinn og eftir stutta kynningu var þeim skipt í hópa sem hver fyrir sig fjallaði um einn kafla í reglunum. Seinni hluti vinnustofunnar fór í að ræða um siðferðleg álitamál út frá raunhæfum dæmum. Ætlunin er að bjóða öllum ráðuneytum upp á að senda fulltrúa á slíkar vinnustofur og í framhaldinu verði drögin endurskoðuð með tilliti til athugasemda og hugmynda þátttakenda. Svo breytt verði drögin send til þeirra sem sóttu vinnustofurnar og þau beðin um að stuðla að umræðum um siðareglur innan síns ráðuneytis áður en viðbrögð við breyttum drögum yrðu send samhæfingarnefndinni.

Nefndarmenn fóru þessu næst yfir punktana sem komu út úr fyrstu vinnustofunni og voru sammála um að margar athugasemdirnar væru gagnlegar. Lærdómurinn af þessari fyrstu vinnustofu var að æskilegt væri að hóparnir rökstyddu tillögur að breytingum og að dæmum um siðferðileg álitamál fylgdu útskýringar fyrir þá sem leiði vinnustofurnar. JÓ velti upp þeirri spurningu hvort reglurnar þyrftu að vera afdráttalausari hvað varðar hegðun en miklar umræður sköpuðust um þann þátt meðal starfsfólks velferðar- og innanríkisráðuneytisins.

Stefnt er að því að klára vinnustofurnar í apríl og senda í framhaldinu ný drög að siðareglum sem starfsmenn ráðuneytanna hefðu til skoðunar og umræðu yfir sumarmánuðina. Þá verði endanlegar reglur útbúnar og stefnt að því að innleiðingu þeirra verði lokið í haust. Í kjölfarið yrði fyrsta ársskýrsla samhæfingarnefndarinnar útbúin. Eins og PÞ benti á hefði kannski verið eðlilegra að byrja á því að setja almennum ríkisstarfsmönnum siðareglur í stað þess að byrja á reglum fyrir ráðherra og stjórnaráðsstarfsmenn en það skýrðist m.a. af þeirri staðreynd að auðveldar væri að hafa samráð við þessa aðila en almenna starfsmenn.

Næsti fundur var ekki ákveðinn en gert er ráð fyrir a.m.k. einu fundi fyrir sumarfrí.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 10:00

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum