Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. apríl 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 14. apríl 2011

1. tbl. 13. árg.
Útgefið 14. apríl 2011
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Ráðuneytisstjóri

Háskólinn á Akureyri stóð rétt að uppsögn vegna skipulagsbreytinga

Þann 3 mars. sl. var kveðinn upp í Hæstarétti athyglisverður dómur er snýr að uppsögn vegna skipulagsbreytinga þegar um samdrátt í rekstri stofnunar er að ræða. Af því tilefni þykir rétt að reifa dóm Hæstaréttar ásamt því að rifja upp nokkur atriði er varða uppsögn vegna samdráttar í rekstri. Einnig er hér rétt að benda á „Leiðbeiningar til stjórnenda um uppsagnir ríkisstarfsmanna vegna rekstrarlegra ástæðna“ (PDF 175 KB) sem gefnar voru út í febrúar 2011 og  birtar eru á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. En fyrst dómurinn:

Dómur Hæstaréttar frá 3. mars 2011 í máli nr. 472/2010
Í maí 2010 var kveðinn upp dómur hjá héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem málavextir voru þeir að dósent í stærðfræði og eðlisfræði við Háskólann á Akureyri var sagt upp störfum vegna samdráttar í starfsemi skólans. Skólinn hafði látið fara fram mat á kennaranum og samkennara hans innan kennaradeildar. Héraðsdómur taldi að þetta mat væri ekki nóg og taldi að skólanum bæri að meta hæfni kennarans í samanburði við aðra kennara á sama fræðasviði, þó svo að þeir störfuðu við aðra deild skólans en kennaradeild. Niðurstaða héraðsdóms var því sú að úr því að skólinn komst að þeirri niðurstöðu að segja yrði upp kennara á þessu fræðasviði þá yrði skólinn að meta alla kennara skólans á þessu fræðasviði þó svo að einungis ætti að spara í kennaradeildinni þar sem einungis tveir kennarar störfuðu á þessu fræðasviði. Rökstuddi héraðsdómur þessa niðurstöðu með vísan til dóms Hæstaréttar frá 10. maí 2007 í máli tölvunarfræðings á Landspítalanum, sbr. mál nr. 647/2006. Dæmdi héraðsdómur skólann til greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar.

Ríkið var ekki sammála þessari túlkun héraðsdóms og áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar. Taldi ríkið að  túlkun héraðsdóms væri alltof víðtæk og að ef þessi sjónarmið héraðsdóms ættu almennt að gilda um starfsmenn ríkisins þá yrði illframkvæmanlegt að segja starfsmönnum upp í hagræðingarskyni á deildaskiptum stofnunum, þar sem margir hefðu sömu menntun. Má hér sem dæmi nefna að ef fækka ætti hjúkrunarfræðingum á tiltekinni deild á Landsspítalanum  yrði að meta alla hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum óháð því á hvaða deild þeir ynnu. 

Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem fyrir lá að kennaradeild og háskólaráð höfðu komist að þeirri niðurstöðu að draga ætti úr raungreinakennslu við deildina féllst dómurinn ekki á það með kennaranum að rektor hefði með uppsögninni farið gegn ákvörðunum deildarráðs eða háskólaráðs. Taldi dómurinn það ekki orka tvímælis að ráðning kennarans hefði verið bundin við kennaradeild og að byggt hefði verið á því í starfsemi skólans að einstakir kennarar væru ráðnir til ákveðinna deilda skólans, störfuðu við þær og lytu í ýmsum atriðum boðvaldi deildarforseta eða deildarfundar. Við samanburð á kennurum þeirra greina sem kennarinn kenndi hefði rektor því ekki með réttu lagi getað litið út fyrir raðir þeirra sem störfuðu við kennaradeild skólans. Taldi Hæstiréttur því ekki tilefni til að hnekkja því mati skólans að kennari í þessum greinum, sem einn sat eftir í stöðu við kennaradeild, stæði framar í samanburði við þann kennara sem sagt var upp störfum. Var skólinn því sýknaður af kröfu kennarans.

Nokkur atriði er varða uppsögn vegna samdráttar í rekstri
Ákvörðun forstöðumanns um uppsögn eða niðurlagningu starfs á grundvelli skipulagsbreytinga er tvíþætt; annars vegar þarf að taka ákvörðun um til hvaða ráðstafana þurfi að grípa í rekstri stofnunar vegna breyttra aðstæðna og hvaða breytingar skili bestum árangri og hins vegar þarf að ákveða hvaða starfsmanni eða starfsmönnum skuli sagt upp störfum þegar niðurstaða um til hvað ráðstafana þurfi að grípa  er fengin.

Að baki ákvörðunar forstöðumanns um uppsögn starfsmanna vegna samdráttar í rekstri stofnunar þurfa að liggja réttar og málefnalegar ástæður og þýðingarmikið er að rétt sé haldið á málum í samræmi við gildandi lög og reglur stjórnsýsluréttarins. Þegar forstöðumaður hefur tekið ákvörðun um að fækka þurfi starfsmönnum til að ná fram markmiðum í rekstri stofnunar þá þarf hann að ákveða hvaða starfsmanni eða starfsmönnum skuli segja upp störfum.

Þar sem ákvörðun forstöðumanns er að meginstefnu undir mati hans komin er nauðsynlegt til að tryggja vandaða stjórnsýsluhætti og að fyrir liggi gögn eða upplýsingar í skráðu formi um undirbúning og einstakar ákvarðanir. Mati forstöðumanns eru þó settar skorður að því leyti að það verður að byggjast á lögum og málefnalegum sjónarmiðum er taki mið af þeim hagsmunum sem viðkomandi stofnun ber að vinna að. Dæmi um þætti sem horfa má til við mat forstöðumanns eru hæfni starfsmanna, atriði er varða áherslur í starfsemi stofnunarinnar, starfsreynsla, þekking á viðkomandi sviði, afköst og árangur í starfi geta skipt máli, forgangsröðun verkefna einstakra starfsmanna, fjárhagsleg staða verkefna og faglegur ávinningur þannig að verkefnum þess starfsmanns sem kemur verst út við slíkan samanburð yrði hætt og honum sagt upp störfum.

Sé starfsmaður ekki ráðinn í ákveðið starf sem leggja á niður verður forstöðumaður að láta fara fram mat á hæfni starfsmannsins í samanburði við aðra starfsmenn, meðal annars með tilliti til þekkingar og starfsreynslu á viðkomandi sviði, áður en hann getur tekið ákvörðun um uppsögn starfsmanns vegna niðurlagningar á starfi.

Í hugum margra forstöðumanna kanna þetta að virka frekar þunglamalegt. En eins og umboðsmaður hefur sagt þá eiga reglur núgildandi laga ekki að standa því í vegi að gerðar séu nauðsynlegar breytingar í röðum starfsmanna ríkisins hvort sem það er vegna ástæðna sem varða einstaka starfsmenn eða vegna þess að þörf er á breytingum til hagræðingar.

Eigi ástæður starfsloka rætur að rekja til rekstrar stofnunar, s.s. vegna samdráttar,  hagræðingar eða breytinga á skipulagi, er áminning ekki undanfari uppsagnar og ekki er skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður hennar áður en hún tekur gildi. Lagakröfur um rökstuðning leiða hins vegar til þess að tilgreina verður réttar ástæður uppsagnar.

Við framkvæmd uppsagna verður að gæta vel að því að fara með virðingu og aðgætni að starfsfólki. Haga verður framkvæmd af varfærni og reyna eins og kostur er að leiða starfsmenn áfram í gegnum breytingarnar.

Dómar og álit umboðsmanns Alþingis er varða efnið:
Álit umboðsmanns nr. 4018/2004. þar sem fram koma helstu sjónarmið sem umboðsmaður byggir á.
Álit umboðsmanns nr. 4212/2004, 4218/2004 og 4306/2005. er varða uppsagnir hjá Fasteignamat ríkisins.
Dómar Héraðsdóms Reykjavíkur í málum E- 8305/2007 og E-8306/2007 en dómarnir varða sömu mál og í áliti umboðsmanns í málum nr. 4306/2005 og 4212/2004.
Hæstaréttardómur í máli tölvunarfræðings á Landspítala, mál nr. 647/2006.

Héraðsdómur Reykjavíkur í málum E-4804/2007, E-4807/2007 og E-4808/2007 er varða uppsagnir hjá Landspítala.

Efni úr fréttabréfi fyrir stjórnendur ríkisstofnana:
2. tbl. 9. árg. 22. júní 2007.
4. tbl. 7. árg. 29. desember 2005.

Hvernig framselur forstöðumaður vald sitt?

Ákvæði 50. greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins heimilar forstöðumönnum stofnana ríkisins að framselja vald samkvæmt sömu lögum til annarra stjórnenda stofnunarinnar, enda sé það gert skriflega og tilkynnt starfsmönnum stofnunarinnar. Framsalshafar verða þeir einir sem fengið hafa formlega tilkynningu þess efnis frá forstöðumanni. Gildistími framsalsins er frá og með undirritun yfirlýsingar þess efnis og gildir þar til annað er ákveðið.

Framsal valds má framkvæma t.d. með yfirlýsingu forstjóra þar sem tilgreindum stjórnanda eða fleiri stjórnendum er falið vald til að taka ákvarðanir um tiltekna þætti. Þessir þættir geta t.d. verið sem hér segir:

 • Ráðningar starfsmanna.
 • Gerð ráðningarsamninga skv. 42. gr. stml.
 • Upplýsingagjöf um starfskjör á grundvelli kjarasamninga.
 • Gerð erindisbréfa eða starfslýsinga skv. 8. gr. stml.
 • Samráð við starfsmenn um orlof og orlofstöku skv. 11. gr. stml.
 • Ákvarðanir um vinnutíma skv. 17. gr. stml.
 • Að veita starfsmanni færi á að tjá sig áður en áminning er veitt eða uppsögn fer fram.
 • Að neyta annarra heimilda skv. ákvæðum IX. kafla stml.
 • Að annast eftirlit og eftirfylgni skyldna starfsmanna skv. IV. kafla stml.
 • Breytingar á störfum og verksviði starfsmanna skv. 19. gr. stml.
 • Að veita áminningu skv. 44. gr., sbr. 21. gr. stml.
 • Uppsagnir starfsmanna og/eða ákvarðanir um starfslok.
 • Að veita rökstuðning fyrir uppsögn.
 • Framlenging uppsagnarfrests.
 • Ákvörðun um starf annars staðar skv. 20. gr. stml.

Um framsal þessara þátta til annarra stjórnenda hjá stofnun skal tilkynna starfsmönnum á þann hátt sem forstöðumaður telur nauðsynlegt.

Sé framsal valds ekki gert með formlegum hætti getur það leitt til ógildingar ákvörðunar.

„Diplómanám í opinberri stjórnsýslu?” Ég mæli hiklaust með því

Ég fór í diplómanám í opinberri stjórnsýslu fyrst og fremst í þeim tilgangi að efla mig sem stjórnanda innan opinbera geirans. Ég hef verið stjórnandi frá árinu 1996 og þar sem breytingar eru tíðar er nauðsynlegt að setja sig sífellt inn í nýjar aðstæður. Tímaskortur hrjáir flesta stjórnendur og oft á tíðum getum við fallið í þá gryfju að telja mikilvægara að endurmennta samstarfsmennina en okkur sjálf. Ég tók námið á löngum tíma og valdi eftirtalin fög; forysta og breytingastjórnun í opinberum rekstri, akademía fyrir framtíðarstjórnendur, opinber stjórnsýsla, stjórnun stofnana og stjórnsýsluréttur. Verkefnin sem ég vann í hverju fagi tóku mið af þörfum míns embættis og skiluðu sér í umbótaáætlunum og ýmsum nýmælum í starfinu.

Námið uppfyllti væntingar mínar, var bæði skemmtilegt og fjölbreytt. Þar var fléttað saman fræðilegri umfjöllun við það sem efst var á baugi hverju sinni.

Þá var það óvæntur bónus að kynnast samnemendum sem starfa á mismunandi vettvangi og læra af reynslu þeirra. Ég mæli óhikað með þessu námi, bæði fyrir reynda stjórnendur og nýja.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir

Sigríður Björk Guðjónsdóttir
Lögreglustjóri á Suðurnesjum

Diplóma í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í opinberum rekstri, á vef Háskóla Íslands.


Ýmislegt fréttnæmt

Kjaraviðræður eru hafnar
Kjaraviðræður ríkisins við viðsemjendur sína eru hafnar. Viðræðurnar hafa farið fremur hægt af stað en félögin hafa aðallega óskað eftir viðræðum um sérmál sín enn sem komið er. Nokkur félög hafa ekki enn óskað eftir fundi og bíða átekta.

Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd ríkisins hafa fylgst að og haft að markmiði að stefna að því að gera kjarasamning til þriggja ára. Óljóst er þegar þetta er skrifað hver verður niðurstaðan.

Samantekt á lögum um ríkisstarfsmenn og lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins
Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur gefið út á rafrænu formi tvær samantektir er varða lög sem gilda um ríkisstarfsmenn. Annars vegar er um að ræða samantekt á starfsmannalögum en hins vegar er um að ræða samantekt á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þar eru tekin saman lögskýringargögn, dómsúrlausnir, álit umboðsmanns Alþingis ofl. Ráðgert er að samantektirnar verði uppfærðar árlega á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.

Samantektirnar má nálgast hér: http://www.fjarmalaraduneyti.is/rikisstarfsmenn/rettarheimildir/log-og-reglur/

Reifanir á dómum
Einnig hafa verið birtar á heimasíðunnni reifanir á dómum sem kveðnir voru upp á árinu 2010 og varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess:

http://www.fjarmalaraduneyti.is/rikisstarfsmenn/rettarheimildir/domar/

Stofnanir ríkisins geta átt rétt á endurgreiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands ef starfsmaður er frá vinnu vegna vinnuslyss

Minnt er á að stofnanir ríkisins geta átt rétt á greiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands ef starfsmaður stofnunarinnar er fjarverandi frá vinnu vegna vinnuslyss eða slyss á beinni leið til eða frá vinnu. Stofnunin á rétt þessum greiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands fyrir þann tíma sem viðkomandi er á launum hjá stofnuninni, en eftir það renna þær til starfsmannsins. Slysadagpeningar greiðast almennt ekki lengur en 52 vikur. Eyðublað fyrir tilkynningu um vinnuslys til Sjúkratrygginga er á vefsíðunni sjukra.is

Um slysatryggingar er fjallað í IV kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 27. gr. er fjallað um hvaða slys falla undir trygginguna og í 33. gr. kemur fram að dagpeningar greiðast frá 8. degi, enda hafi hinn slasaði verið óvinnufær í minnst 10 daga.

Um endurgreiðslu slysatrygginga á nauðsynlegum kostnaði vegna sjúkrahjálpar vegna afleiðinga bótaskylds slyss er fjallað í reglugerð nr. 541/2002.

Til upprifjunar er rétt að geta þess að fjallað um vinnuslys í grein 12.2.9 í kjarasamningum. Þá kemur fram í grein 12.2.7 að greiða beri starfsmanni laun frá upphafi fjarvista þegar um vinnuslys eða slys á beinni/eðlilegri leið til og frá vinnu er að ræða.

Umbætur í íslenskri stjórnsýslu, eða hvað?

Forstöðumenn gegna mikilvægum hlutverkum í íslenskri stjórnsýslu og á þeim brennur að reka stofnanir samfélagsins með sem bestum og hagkvæmustum hætti. Forstöðumenn eru einnig lykilhópur við að innleiða nýsköpun og umbætur í íslenskri stjórnsýslu til þess að hægt sé að veita samfélaginu góða þjónustu þrátt fyrir lækkandi fjárveitingar.

Því miður er nú svo komið að í öllu umbótastarfinu blasir við það vandamál að forstöðumenn upplifa að þeir séu beittir órétti af hendi stjórnvalda á sama tíma og kröfur til þeirra eru meiri en nokkru sinni fyrr.

Stétt forstöðumanna ríkisstofnana, sem hvorki hefur samningsrétt né verkfallsrétt, hefur umfram aðra hópa í samfélaginu orðið fyrir óréttlátum aðgerðum í kjölfar hruns íslensks efnahagslífs í árslok 2008. Laun voru lækkuð og fryst með lagasetningu í tvígang og hefur kaupmáttur þessa hóps lækkað um 10% umfram aðra sambærilega hópa síðan í ársbyrjun 2009. Ákvæðum laga um frystingu og launalækkun var aflétt 1. desember 2010 en þrátt fyrir það hafa kjörin ekki verið leiðrétt til fyrra horfs þó að lög um Kjararáð tilgreini að svo skuli gert. Þetta verður að teljast afar slæm stjórnsýsla og mögulegt lögbrot á sama tíma og stjórnvöld gera kröfur um að vinnubrögð verði bætt í stjórnsýslunni í heild.

Forstöðumenn geta og vilja standa vaktina af fullum krafti í krefjandi verkefnum en þeir þurfa að fá eðlilega og sanngjarna umbun fyrir störf og árangur. Það er  órökrétt að forstöðumenn fái neikvæð skilaboð í formi óréttlætis af hendi stjórnvalda þegar þeir þurfa á hvatningu og stuðningi að halda. Eðlileg laun og samhengi á milli árangurs og umbunar er hluti að nauðsynlegu umbótastarfi í íslenskri stjórnsýslu. Ella er hætta á atgerfisflótta með ófyrirséðum afleiðingum.

Magnús Guðmundsson
formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira