Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júní 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

ETS viðskiptakerfið um losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda innleitt hér á landi

Koldíoxíð.
Koldíoxíð.

Alþingi samþykkti á dögunum breytingar á lögum nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda. Með breyttum lögum er stigið fyrsta skrefið í að innleiða í íslenskan rétt reglur er varða viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda sem oftast er nefnt ETS kerfið (ETS = Emission Trading Scheme).
 
Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda hefur verið virkt innan ESB frá árinu 2005. Viðskiptakerfið er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þak er sett á fjölda losunarheimilda í kerfinu og fækkar þeim frá ári til árs. Þeim mun að hluta til verða úthlutað ókeypis en að hluta til verða boðnar upp. Þess ber að geta að hverja heimild er aðeins hægt að nota einu sinni.

Er gert ráð fyrir að ETS kerfið muni leiða til þess að fyrst dragi úr losun í þeim geirum þar sem ný og loftslagsvænni tækni er ódýrust. Aðrir geirar muni kaupa sér heimildir til að byrja með. Eftir því sem þakið lækkar, losunarheimildum fækkar og þær verða dýrari muni fleiri geirar sjá sér fjárhagslegan hag í því að skipta yfir í lofslagsvænni tækni.

Tekið inn í EES samninginn árið 2007

Viðskiptakerfið var tekið inn í EES-samninginn árið 2007 og EFTA ríkin hafa verið þátttakendur í því frá árinu 2008. Þar sem sú starfsemi á Íslandi sem hefði átt að falla innan kerfisins var sérstaklega undanþegin til ársins 2012 hefur kerfið ekki enn verið sett á fót hér á landi. Þátttaka Íslands í því hefur því hingað til takmarkast við upplýsinga- og skýrsluskil til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
 
Nú liggur fyrir að miklar breytingar verða á viðskiptakerfinu á næstu misserum og mun það hafa mikil áhrif á íslenskan iðnað í framtíðinni. Frá og með 1. janúar 2012 fellur öll flugstarfsemi innan EES og til og frá svæðinu undir kerfið. Þar með munu flugrekendur þurfa að standa skil á losunarheimildum er samsvarar þeirri losun sem flug á þeirra vegum hefur í för með sér. Árið 2013 munu svo ýmsar tegundir iðnaðar bætast við kerfið, þ.m.t. álbræðsla, sem verður til þess að allnokkur íslensk fyrirstæki verða hluti af kerfinu.
 
Þær reglur sem nú voru leiddar í lög lúta, auk almennra reglna um gagna- og skýrsluskil, skráningu og eftirlit, fyrst og fremst að flugstarfsemi en gert er ráð fyrir frekari lagabreytingum á næstu misserum eftir því sem reglurnar þróast á vettvangi ESB og EES.
 
Lög um breytingu á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda (viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir).

Athugasemd vegna fréttaflutnings

Vegna umræðu í fjölmiðlum um ETS viðskiptakerfið vill umhverfisráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Innleiðing ETS kerfisins hér á landi hefur ekkert með umsókn Íslands um aðild að ESB að gera. Viðskiptakerfið er hluti af EES samningnum og var fyrst tekið inn í samninginn árið 2007 (tilskipun 2003/87/EB), tveimur árum áður en Ísland skilaði inn umsókn sinni til sambandsins.

Ekki er rétt að líkja saman íslenska kvótakerfinu í sjávarútvegi og ETS viðskiptakerfinu með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Þótt í báðum tilfellum sé úthlutað ákveðnum kvóta sem er framseljanlegur þá er aðeins hægt að nota hverja úthlutun einu sinni innan ETS viðskiptakerfisins. Þannig er kvótanum ekki úthlutað til frambúðar.

Auk þess gerir kerfið ráð fyrir því að á hverju ári sé tiltekinn hluti losunarheimilda boðinn upp og seldur. Þá er gert ráð fyrir að hlutur heimilda sem boðinn verður upp fari smátt og smátt vaxandi á hverju ári. Sem dæmi um þetta er gert ráð fyrir að þegar úthlutun losunarheimilda til flugstarfsemi hefjist á næsta ári muni um 15% heimildanna verða boðnar út. Tekjur af útboðum renna í ríkissjóð viðkomandi landa.

Óumdeilanlegt er að viðskiptakerfið muni, þegar til lengri tíma er litið, leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda, þar sem losunarheimildum er kerfisbundið fækkað frá ári til árs. Þannig er gert ráð fyrir því að árið 2020 verði orðinn 21% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim iðnaði sem fellur undir ETS kerfið sé miðað við árið 2005.

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum