Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. október 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 11. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn föstudaginn 7. október 2011, kl. 13.15, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 2. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar og Páll Þórhallsson (PÞ) skipaðir af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúar BHM, BSRB og KÍ. Kristín Ástgeirsdóttir og Magnús Pétursson boðuðu forföll.

Þeir sem tóku þátt í vinnustofum um siðareglur í vor fengu tækifæri til að koma með athugasemdir við ný drög sem voru send út í kjölfar síðasta fundar. Samantekt þessara athugasemda var send nefndarmönnum í tölvupósti fyrir nokkru og var helsta verkefni fundarins að fara yfir athugasemdirnar.

Fyrsta athugasemd beindist að fyrsta lið og var þess efnis að ráðuneytisstjórum væri bannað að eiga hlutabréf. Nefndarmenn voru sammála um að það væri full strangt og ákvæðið eins og það er ætti að tryggja að ekki kæmi til hagsmunaárekstra.

Í næstu athugasemd var lagt til að orðið skal kæmi inn í 3 lið undir Hegðun og framganga en ekki þótti ástæða til að breyta orðalagi.

Þá voru tillögur um tilfærslu orða í nokkrum liðum og voru flestar til bóta.

Starfsmaður sem ekki hafði haft tækifæri til að taka þátt í vinnustofunni sendi nokkuð ítarlegt bréf þar sem velt var upp spurningum varðandi fyrsta lið í 2. kafla, Ábyrgð og ráðdeild. Þar segir að hver starfsmaður sé ábyrgur fyrir athöfnum sínum og gjörðum sem eigi að vera almenningi til heilla en eins og bréfritari bendir á gæti þetta í einhverjum tilvikum stangast á við gr. 15 í starfsmannalögunum þar sem segir að starfmanni sé skylt að hlýða fyrirskipunum yfimanna sinna. Nokkrar umræður urðu um þetta atriði og þá sérstaklega út frá pólitísku hlutverki ráðherra en eins og PÞ benti á er að nokkru leyti komið til móts við þetta atriði í nýju Stjórnaráðslögunum. Sami starfsmaður lagði til að sömu reglur giltu fyrir öll ráðuneyti varðandi gjafir en nefdarmönnum fannst eðlilegra að hvert ráðuneyti setti sér reglur.

Þá var spurt hvort nauðsynlegt væri að gera greinarmun á yfir- og undirmönnum, sbr. lið 3 í 4. kafla og lið 3. í 5. kafla. Allir sammála um að breyta orðalagi og tala eingöngu um samstarfsfólk. Setningunni var breytt og er nú svona: Starfsmaður vekur athygli samstarfsfólks á upplýsingum sem geta haft áhrif á málsmeðferð og niðurstöður mála.

Loks urðu miklar umræður um athugasemd varðandi 4. lið í fjórða kafla: Starfsfólk heldur ekki vitneskju sinni um málefni sem varða almannahag leyndri, nema brýnt sé að gera það vegna almannahagsmuna. Orðið almannahagur þótti opið og matskennt og einnig væri munur á því að starfsmaður héldi einhverju leyndu eða neitaði að upplýsa um eitthvað sem viðkomandi hefði vitneskju um. Í þessu sambandi var rætt um trúnað enda ljóst að starfsmenn eru oft upplýstir um eitthvað sem varðar almannahag en eru bundnir trúnaði. Á endanum var ákveðið að breyta þessari setningu og hafa hana svo hljóðandi: Starfsfólk heldur ekki leyndri vitneskju sinni um málefni sem varðar almannahag, nema trúnaðarskyldur eða almannahagsmunir krefjist þess.

Í lok fundar var lítillega rætt um gildin og siðvenjurnar og hvort þessir kaflar myndu henta almennum ríkisstarfsmönnum. A.m.k. tvö atriði í siðvenjunum myndu virka undarlega í almennum reglum þar sem þar er talað um samstarf við Alþingi og mörk stjórnmála og stjórnsýslu. Ákveðið að þetta þyrfti að ræða frekar. JÓ mun senda siðareglurnar með nýjustu breytingum til samhæfingarnefndarinnar til yfirlestrar.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 14.30.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum