Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. október 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur á haustfundi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga 2011

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á haustfundi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga með Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti þann 19. október 2011.

Góðir fundargestir.

Það er mér ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á haustfundi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, sem haldinn er með Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, umhverfisráðuneytinu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Þegar tryggja á að samfélagið gangi smurt fyrir sig er í mörg horn að líta. Flækjustigið á manngerðu umhverfi er raunar svo óheyrilega mikið á þeirri tækniöld sem við lifum á, að hvert og eitt okkar háð hundruðum, ef ekki þúsundum, annarra dag hvern – bara til að tryggja okkur helstu nauðþurftir. Þessu flækjustigi fylgja ýmsar hættur – sjúkdómar berast á milli manna, mengun getur komist í vatnsból, matvæli geta borið ýmiskonar smit – ógnir við heilbrigði leynast víða.

Hlutverk heilbrigðiseftirlits er því ekki lítið í þessu samhengi; að tryggja að almenningi stafi ekki hætta af sínu nánasta umhverfi og því sem hann lætur í sig. Oft vill loða við eftirlitsstarfsemi það álit að hún sé einhvers konar blind eftirfylgd með lögum og reglugerðum en þeir sem þekkja til vita að þar er mikill misskilningur á ferð. Þvert á móti virðist augljóst hversu mikilvægt starf þið, sem í dag boðið til þessa haustfundar, innið af hendi.

Í mínum huga er mikilvægt að styrkja samvinnu og samstarf þeirra sem vinna að heilbrigðiseftirliti í landinu, því eftirlit, til dæmis með matvælum, efnaeftirlit, mengunarvarnir, vöktun umhverfis, eftirlit með húsnæði og ótal öryggisþáttum er vissulega viðamikið samstarfsverkefni fjölda fólks. Þá tekur heilbrigðiseftirlit til fræðslu og að veita leiðbeiningar og stuðlar þannig að því að gera almenningi kleift að tryggja sér sjálfum heilbrigði.

Á landinu eru tíu heilbrigðisnefndir, auk þess sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun sinna verkefnum á sviði hollustuhátta og mengunarvarna. Þegar framkvæmdin skiptist á svo margar hendur getur það leitt til þess að mismunandi sé farið með mál á milli ólíkra svæða. Því þarf að leggja áherslu á að samnýta þekkingu og samræma framkvæmdina – en til þess eru samkomur á borð við þessa mikilvægur samræðuvettvangur.

Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er Umhverfisstofnun falin yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti á landinu en í henni felst einmitt að sjá til þess að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu. Þá skal stofnunin sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt – nokkuð sem er ekki vanþörf á hjá lítilli þjóð í stóru landi. Umhverfisstofnun ber að hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa og veita þá ráðgjöf og þjónustu sem hún getur og aðstæður krefjast. Þá skal stofnunin samræma kröfur sem gerðar eru til starfsemi á sviði heilbrigðiseftirlits og að því að slíkum kröfum sé framfylgt. Þetta hlutverk Umhverfisstofnunar er mjög mikilvægt, til að tryggja að sá fjölda aðila sem kemur að heilbrigðiseftirliti í landinu vinni sem smurð vél. Það er atvinnulífi, stjórnvöldum og landsmönnum öllum mikilvægt að framkvæmd heilbrigðiseftirlits sé vandað og með samræmdum hætti á landinu.

Til þess að skýra betur verkaskiptingu heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar, m.a. til að treysta framkvæmdina og koma í veg fyrir skörun stefni ég að því að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þessum breytingum er ætlað að stuðla að úrbótum á lagaumhverfi, sem oft á tíðum er óþarflega óskýrt, meðal annars varðandi útgáfu starfsleyfa, eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi og hver skuli fara með eftirlit í hverju tilviki.

Allar breytingar sem stuðla að aukinni samvinnu í þessum málaflokki og að því að unnið sé að sameiginlegu markmiði hljóta að teljast til bóta. Í því ljósi má opna á umræðu um að gera róttækari breytingar þegar til lengri tíma er litið.

Ráðuneytið mun síðar í þessari viku funda með framkvæmdastjórum heilbrigðiseftirlitssvæða til að fara yfir fyrirhugaðar breytingar á lögunum – en við svona breytingar þarf að sjálfsögðu að stunda náið samráð við þá sem hafa mesta reynslu af því að starfa eftir og framfylgja lögunum.

Þá er unnið að frumvarpi til laga um efni, sem stefnt er að leggja fram eftir áramót. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um efni, sem eru annars vegar endurskoðun á lögum um eiturefni og hættuleg efni og hins vegar á lögum um efni og efnablöndur. Það er ekki vanþörf á – lög um eiturefni og hættuleg efni eru komin vel til ára sinna, voru sett árið 1988 og byggja að miklu leyti á lögum frá árinu 1968. Óhætt er að segja að það umhverfi sem lögin eiga að ná til hafi breyst talsvert á líftíma þeirra.

Í frumvarpinu á m.a. að leita leiða við að treysta stjórnsýslu efnamála; einfalda og skýra kerfi eftirlits og leyfisveitinga; endurskoða tilhögun gjaldtöku, og fjalla um þvingunarúrræði og stjórnsýslusektir. Við vinnuna verður sérstaklega litið til þess að efla tvær mikilvægar meginreglur umhverfisréttar; skiptiregluna og mengunarbótaregluna. Afar mikilvægt er að gera efnaeftirlit markvissara en það er í dag og að tryggt verði að það sé með samræmdum hætti um land allt. Framundan er umfangsmikið samráð við þessa heildarendurskoðun efnalöggjafar og mun ráðuneytið þar að sjálfsögðu leita í smiðju Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi er mikilvægur félagsskapur. Til samtakanna hefur umhverfisráðuneytið leitað og er það starfsfólki ráðuneytisins mikilvægt og gagnlegt að eiga aðgang að samtökum sem þessum – geta notið þeirrar sérfræðiþekkingar sem hér er samankomin. Í gegnum þessi samtök hefur verið hægt að ræða þau mál sem unnið er að hverju sinni, líkt og stefnt er að með lagafrumvörpin sem ég nefndi.

Samráð, samvinna og samstaða - þetta eru þættir sem skipta máli. Við sem vinnum að umhverfis- og hollustuverndarmálum stefnum að sameiginlegum markmiðum. Meginmarkmiðið er göfugt; að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði, standa vörð um heilnæmt og ómengað umhverfi og samhliða þessu að tryggja góða og skilvirka stjórnsýslu. Ávallt er mikilvægt að styrkja tengsl inn á við, en einnig við sveitarfélög og önnur stjórnvöld, með því að leggja áherslu á samráð. Með virku samráði og samvinnu er hægt að fá skýrari mynd af því málefni sem til umræðu er hverju sinni. Ákvarðanir og lausnir sem byggjast á samráði eru einnig mun líklegri til að verða farsælli en þær ákvarðanir sem teknar eru einhliða.

Nú á haustdögum skilaði nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga af sér hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Í hvítbókinni er heildarúttekt á lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi. Þetta er nýjung hér á landi, en algeng vinnubrögð víða í kringum okkur. Hvítbókin gefur okkur tækifæri til að byggja á faglegri þekkingu og yfirsýn – ástunda vönduð vinnubrögð sem kalla á samráð við gerð laga sem snerta jafn mikilvægt málefni og náttúruvernd er. Næstu vikurnar er hvítbókin í umsagnarferli – og vil ég nýta tækifærið til að hvetja ykkur til að kynna ykkur efni hennar á heimasíðu umhverfisráðuneytisins og koma athugasemdum ykkar og tillögum á framfæri. Hérna skiptir máli að fá sem flest sjónarmið og besta umræðu.

Með því að fara heildstætt yfir málaflokkinn er lagður grunnar að því að endurskoðun náttúruverndarlaga verði þannig úr garði gerð að náttúruvernd verði hafin til vegs og virðingar og staða hennar styrkt til muna. Það er ánægjulegt að með náttúruvernd sé verið að ryðja brautir í nýjum vinnubrögðum. Þegar lagður er grunnur að lagaumhverfi náttúru og umhverfis, þá hljótum við að gera kröfu um heildarsýn og að ákvörðunartaka sé lýðræðisleg. Hvítbók um náttúruvernd sýnir hverju fagleg og vönduð vinnubrögð geta skilað, hvernig stjórnmálin geta aukið gagnsæi og stuðlað að skýrari grundvelli ákvarðana. Þetta eru vinnubrögð sem ætti að taka upp víðar í framtíðinni.

Góðir fundargestir.

Skilvirkt og faglegt heilbrigðiseftirlit, sem tekur til hollustuhátta og mengunarvarna, byggir á mannauði. Það byggir á metnaðarfullu fólki, sem er tilbúið að leggja sig fram og sýna frumkvæði. Störf ykkar skipta máli við að tryggja öryggi okkar og þau góðu lífskilyrði sem við búum við.

Ég þakka ykkur öllum fyrir ykkar framlag til hollustuverndar og umhverfis og fyrir ánægjulega samvinnu í þeim samstarfsverkefnum sem þið hafið unnið með umhverfisráðuneytinu.

Ég vona að þið eigið ánægjulega og gagnlega fundardaga.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum