Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. október 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 12. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn  mánudaginn 24. október 2011, kl. 10.30, í húsnæði Háskólans að Bifröst, Hverfisgötu 4-6, 5. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) og Páll Þórhallsson (PÞ) skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) fulltrúi BHM og KÍ. Sonja Ýr Þorbergsdóttir og Magnús Pétursson boðuðu forföll.

Nokkrar athugasemdir bárust frá Magnúsi Péturssyni eftir að JÓ sendi nefndarmönnum nýjustu útgáfu siðareglnanna, ásamt grunngildum og góðum siðvenjum. Kristín velti einnig upp þeirri spurningu hvort ekki væri ástæða til að hafa í reglunum eitthvað um hegðun starfmanna á ferðum innanlands og utan.

Í upphafi fundar var rætt um ábendingu Kristínar og kom þá fram að miklar umræður hafi skapast um hegðun í vinnuferðum og á ferðalögum á vinnstofum með starfsfólki ráðuneyta. Liður d) í kaflanum um hegðun og framgöngu þar sem er talað um að rýra ekki trúverðugleika með ámælisverðri framkomu ætti að ná yfir alla hegðun og þá líka á ferðalögum en fundarmenn voru sammála um að það gæti verið skynsamlegt að hafa fyrstu árlegu skýrslu um störf nefndarinnar ítarlega og þar væri hægt að nefna þau atriði sem vöktu sérstakar umræður á vinnustofunum. Fram kom hjá PÞ að skýrslan yrði lögð fram á Alþingi og er hún á þingmálaskrá vorþings.

JÓ bætti inn í kaflann um hegðun og framgöngu nýjum lið eftir síðasta fund, en þar er sérstaklega vísað til nýrra samfélagsmiðla, s.s. bloggsins og Facebook. Eftir miklar umræður var ákveðið að hafa setninguna óbreytta. Í b) lið 4. kafla er talað um að leiðrétta mistök eða misskilning með „sem minnstu mögulegu tjóni“. Orðið tjón var tekið út og skaði sett í staðinn.

Enn og aftur urðu umræður um lið d) í 4. kafla og hvað það merkti að „halda ekki leyndri vitneskju um málefni sem varða almannahag“. Í umræðum var m.a. velt vöngum yfir því hvort þessi regla væri að leggja of miklar skyldur á herðar almennra starfsmanna og hvort almennir starfsmenn eigi að tjá sig um einstök mál við fjölmiðla. Eins og PÞ benti á er svipuð regla í siðareglum ráðherra og mun eðlilegra að skyldan um að upplýsa almenning hvíli á honum. Eftir heilmiklar vangaveltur var ákveðið að taka út þessa reglu en bæta eftirfarandi texta við c) liðinn: Jafnframt bendir hann ráðherra eða næsta yfirmanni á málefni sem eðlilegt er að upplýsa almenning um.

GHÞ vakti athygli á d) lið í 1. kafla þar sem talað er um að starfsfólk beiti sér ekki í þágu tiltekinna aðila. Fundarmenn sammála um að betra sé að taka þetta út og nú er seinni málsgreinin á þessa leið: „Starfsfólk gætir jafnræðis þegar komið er til móts við  óskir hagsmunahópa“. GHÞ benti líka á að b) liður í 3. kafla væri á skjön við aðra liði að því leyti að þar væri talað um starfsmann í eintölu en starfsfólk í hinum liðunum. Þessu var breytt og fyrri málsgreinin í d) lið hljóðar svo: „Starfsfólk tilkynnir ráðuneyti sínu um gjafir sem það þiggur vegna starfs síns eða opinbers hlutverks“.

Þar sem ekki gafst tími til að ræða grunngildin og siðvenjurnar var ákveðið að hafa annan fund í vikunni og var fundartími ákveðinn kl. 15 fimmtudaginn 27. október. Fundurinn verður á sama stað, það er í húsnæði Háskólans á Bifröst á 5. hæð að Hverfisgötu 4-6.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 12:00. Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum