Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 13. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn  fimmtudaginn 27. október 2011, kl. 15.00, í húsnæði Háskólans að Bifröst, Hverfisgötu 4-6, 5. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) og Páll Þórhallsson (PÞ) skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) fulltrúi BHM og KÍ. Sonja Ýr Þorbergsdóttir og Magnús Pétursson boðuðu forföll.

Haldið áfram að fara yfir textann og nú beindist athyglin að grunngildunum og góðum siðvenjum. Nokkrar breytingar  á orðalagi og í einstaka tilfellum var setningum skipt úr. Eftir þessa yfirferð eru kaflanrir eins og hér má sjá:

I. Hluti: Grunngildi Stjórnarráðs Íslands

Óhlutdrægni

Stjórnarráð Íslands starfar á grundvelli laga í þágu almennings. Stefnumótun og ákvarðanir mótast af sanngirni og virðingu fyrir lögum. Sérhagsmunir stýra hvorki málsmeðferð né niðurstöðu mála. Leitast er við að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og þess gætt að almennir borgarar hafi jafnan aðgang að starfsfólki Stjórnarráðsins.

Ábyrgð

Starfsfólk Stjórnarráðsins ber ábyrgð á gjörðum sínum sem einstaklingar og vinnur störf sín þannig að forsendur og ástæður ákvarðana séu ljósar og opinberar eftir því sem kostur er og almannahagsmunir krefjast. Hófs er gætt í meðferð fjármuna, ákvarðanir byggðar á bestu fáanlegum upplýsingum og meðalhófs gætt í ákvörðunum og aðgerðum.

Þjónusta

Starfsfólk Stjórnarráðsins kemur til móts við þarfir og óskir borgaranna með skilvirku samstarfi ráðuneyta og starfsfólks, gagnsærri stjórnsýslu og greiðri upplýsingamiðlun til almennings. Starfsfólk sýnir frumkvæði í einstökum málum eftir því sem við á, vinnur að bestu lausnum og sýnir borgurunum virðingu í samskiptum við þá.

Heilindi

Starfsfólk Stjórnarráðsins starfar í almannaþágu með sanngirni og skilvirkni að leiðarljósi. Samskipti innan Stjórnarráðsins og við almenning byggjast á trausti, gagnkvæmri virðingu, heiðarleika og hreinskilni. Í daglegu starfi er sýnd ráðdeild og ráðvendni og leitast við að sætta ólík sjónarmið í þágu almennings.

II. Hluti: Góðar siðvenjur í stjórnsýslu

Starfsfólk Stjórnarráðs Íslands

  1. Starfar í almannaþágu af vandvirkni og samkvæmt bestu dómgreind.
  2. Sinnir starfi sínu af alúð, trúmennsku og heiðarleika.
  3. Sýnir einstaklingum sem til þess leita virðingu og háttvísi.
  4. Kostar kapps um skilvirkt samstarf við Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
  5. Stuðlar að lýðræðislegum og gagnsæjum stjórnarháttum á eigin starfsvettvangi.
  6. Gætir þess að samstarfsfólk njóti sannmælis og virðingar.
  7. Vinnur að góðum samskiptum á vinnustað.
  8. Sýnir því virðingu að samstarfsfólk leiti réttar síns telji það á sér brotið.
  9. Leitast við að skapa traust á og virðingu fyrir eigin stöðu og starfi.
  10. Afgreiðir mál með skýrum hætti jafnskjótt og því verður við komið.
  11. Hefur forystu um lausnir þegar það á við.
  12. Leitast við að bæta vinnubrögð og starfshætti.
  13. Forðast sóun og ómarkvissa meðferð fjármuna.
  14. Axlar ábyrgð á eigin ákvörðunum og krefst hins sama af öðrum.
  15. Stendur vörð um hlutleysi og faglegt sjálfstæði starfsmanna.
  16. Virðir jafnræði og forðast mismunun.
  17. Stendur vörð um skoðana- og tjáningarfrelsi.
  18. Gætir að mörkum stjórnmála og stjórnsýslu.
  19. Vekur athygli viðeigandi aðila á ólögmætum ákvörðunum og athöfnum.
  20. Forðast hagsmunaárekstra og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf.

Ákveðið að birta reglurnar á innra vef Stjórnarráðins og óska eftir athugasemdum og til að tryggja að allir sjái þær verði einnig sendur tölvupóstur til allra starfsmanna. Samkvæmt lögum ber samhæfingarnefndinni líka að senda drögin til Siðferðistofnunar til umsagnar og verður það að sjálfsögðu gert. Á næsta fundi sem var ákveðinn 17. nóvember kl. 9:00 verður síðan farið yfir athugasemdir en endapunkturinn er svo staðfesting forsætisráðherra.

Þá var ákveðið að boða fulltrúa frá heildarsamtökum opinberra starfsmanna til fundarins þann 17. nóvember til að ræða um siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 16:30.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum