Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. júlí 2012 Forsætisráðuneytið

A-431/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

ÚRSKURÐUR


Hinn 28. júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-431/2012.

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 20. júní 2011, kærði [A], drátt á svörum frá velferðarráðuneytinu vegna erindis til þess, dags. 7. júní sama ár, þar sem farið var fram á aðgang að kaupsamningum milli ráðuneytisins og GlaxoSmithKleine ehf. um kaup á bóluefnunum Infarix Polio, Priorix, Boostrix, og Boostrix Polio auk afrits af kaupsamningi milli ráðuneytisins og IcePharma um kaup á bóluefninu NeisVac C frá framleiðandanum Baxter.

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti velferðarráðuneytinu framkomna kæru með bréfi, dags. 21. júní 2011. Var athygli ráðuneytisins vakin á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga beri stjórnvaldi að taka ákvörðun um hvort það verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hefði beiðni kæranda ekki þegar verið afgreidd væri því beint til ráðuneytisins að taka ákvörðun í málinu svo fljótt sem við yrði komið og birta hana kæranda og úrskurðarnefndinni eigi síðar en kl. 16.00 þann 28. júní. Kysi ráðuneytið að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin í té afrit þeirra, auk þess sem ráðuneytinu var þá gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæru málsins og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sömu tímamarka. Kæranda var sent afrit þessa bréfs.

Þann 22. júní barst úrskurðarnefndinni afrit af bréfi kæranda til velferðarráðuneytisins, dags. þann sama dag. Í því bréfi afmarkar kærandi áðurnefnd kæruefni með þeim hætti að farið er fram á afrit af öllum samningsgögnum varðandi tilgreinda rammasamninga sem gerðir hafi verið milli heilbrigðisyfirvalda og GlaxoSmithKleine ehf. annars vegar og Icepharma hf. /Baxter hins vegar. Kemur í bréfinu fram að kærandi óski aðgangs að rammasamningi nr. 2143, og gögnum með honum, þ.e. „Tilboð seljanda dags. 13. júní 2006 og útboðslýsing vegna útboðs NR 14042.“ Af gögnum málsins er ljóst að þessi beiðni lýtur að gögnum sem tengjast samningi um kaup íslenska ríkisins á bóluefnunum Infarix Polio, Priorix, Boostrix, og Boostrix Polio af fyrirtækinu GlaxoSmithKleine ehf. Segir í bréfinu einnig að óskað sé aðgangs að rammasamningi nr. 2144 og gögnum með honum, þ.e. „Tilboð seljanda dagsett 12. júní 2006 og útboðslýsing vegna útboðs NR 14042.“ Af gögnum málsins er ljóst að þessi beiðni lýtur að gögnum sem tengjast samningi um kaup íslenska ríkisins á bóluefninu NeisVac C frá framleiðandanum Baxter af fyrirtækinu IcePharma hf.

Í bréfinu tekur kærandi fram að hann hafi fengið afhent afrit af umræddum rammasamningum, þ.e. rammasamningum númer 2143 og 2144, með útstrikunum. Hann árétti hins vegar vilja sinn til að fá afhent tilboð seljenda og útboðslýsingar.

Svar velferðarráðuneytisins við bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. júní, barst með bréfi, dags. 27. júní. Þar kemur fram að velferðarráðuneytið hafi framsent beiðni kæranda um umrædd gögn til landlæknis með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem umbeðin gögn hafi orðið til þar og séu geymd hjá því embætti, nánar tiltekið hjá sóttvarnarlækni.

Úrskurðarnefndin tekur fram í þessu sambandi að sóttvarnarlæknir starfar á vegum landlæknisembættisins, sbr. 4. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997. Í úrskurði þessum er því vísað til landlæknis eða landlæknisembættisins þótt þau erindi og bréf sem lýst er kunni að vera undirrituð af sóttvarnarlækni.

Þann 30. júní 2011 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af bréfi landlæknis til kæranda. Þar kemur fram landlæknir hafi móttekið bréf frá kæranda, dags. 22. júní 2011, til velferðarráðuneytisins sem framsent hafi verið til embættisins. Í því bréfi kemur ennfremur fram að samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga eigi almenningur ekki rétt á aðgangi að gögnum sem varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra lögaðila. Kærandi hafi fengið afrit af téðum kaupsamningum nema það sem varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni. Þá segir í bréfinu að kæranda sé synjað um frekari gögn.

Á tímabilinu júní til nóvember 2011 bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál allnokkrar kærur og önnur erindi frá kæranda í máli þessu vegna synjunar stjórnvalda á að afhenda honum afrit af kaupsamningum og tengdum gögnum vegna lyfjakaupa. Á meðal þessara gagna er bréf kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. júlí 2011. Í því segir m.a. svo:

„Vísað er til bréfs sem sent var til velferðarráðuneytisins þann 7. júní 2011, þar sem „Óskað var eftir eftirtöldum gögnum“ varðandi kaup á eftirtöldum bóluefnum: Infarix Polio (innihald DTaP), Priorix (innihald MMR), Boostrix (innihald DTaP, Hib, IPV), Boostrix Polio (innihald DTap, IPV) frá GlaxoSmithKline ehf. og svo gögn varðandi kaupin á NeisVac C (innihald MCC) frá IcePharma/Baxter.

Undirritaður vill koma því á framfæri að hann hafi fengið afrit af undarlegum TipEx-uðum rammasamningum (NR. 2143 og NR. 2144) og það án nánari skýringa eða eitt eða neitt í því sambandi. Þau gögn (tilboð seljanda og útboðslýsing) sem áttu að fylgja með, voru ekki send með þrátt fyrir að þessi gögn séu hluti af þessum samningum.“

Þann 2. nóvember 2011 ritaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf til landlæknis þar sem tilgreindir voru í 13 liðum þeir kaupsamningar sem kærandi hafði óskað aðgangs að og kærumál hans fyrir úrskurðarnefndinni lutu að. Þar voru tilgreind þau kæruefni sem hér eru til umfjöllunar og afstöðu landlæknis óskað til þeirra.

Svar barst frá landlækni, dags. 7. desember. Þar er í sérstökum lið í svarinu sérstaklega fjallað um aðgang kæranda að rammasamningi númer 2144 og gögnum sem honum tengjast. Um þann þátt málsins segir m.a. svo í bréfi landlæknis.

„Sóttvarnarlæknir sendi [A] bréf dags. 29.6.2011 þar sem fram kemur að hann hafi þá þegar fengið sent afrit af rammasamningi nr. 2144 nema þau atriði sem varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þ.e. samningsverð bóluefnanna. Í sama bréfi synjar sóttvarnarlæknir [A] um frekari gögn á grunni 5. gr. upplýsingalaga er kveða á um að almenningur eigi ekki rétt á aðgangi að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Að mati sóttvarnarlæknis þá geta innsend gögn lyfjafyrirtækja vegna útboðs bóluefna innihaldið slíkar viðkvæmar upplýsingar.“

Í bréfinu er einnig sérstaklega fjallað um aðgang kæranda að rammasamningi númer 2143. Um þann þátt segir svo í bréfi landlæknisembættisins:

„Sóttvarnarlæknir sendi [A] bréf dags. 29.6.2011 þar sem fram kemur að hann hafi þá þegar fengið sent afrit af rammasamningi nr. 2143 nema það sem varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þ.e. samningsverð bóluefnis. Í sama bréfi synjar sóttvarnarlæknir [A] um frekari gögn á grunni 5. gr. upplýsingalaga er kveða á um að almenningur eigi ekki rétt á aðgangi að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Að mati sóttvarnarlæknis þá geta innsend gögn lyfjafyrirtækja vegna útboðs bóluefna innihaldið slíkar viðkvæmar upplýsingar.“

Landlæknir hefur afhent úrskurðarnefndinni afrit af umræddum rammasamningum og afrit af tilboðum seljanda sem liggja þeim til grundvallar. Landlæknir hefur á hinn bóginn ekki afhent úrskurðarnefndinni þá útboðslýsingu sem umrædd tilboð grundvallast á.

Með bréfi, dags. 12. desember, voru kæranda kynntar skýringar landlæknis. Athugasemdir hans af því tilefni bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 19. sama mánaðar.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.
Eins og fram er komið afmarkast þau kæruefni sem til úrlausnar koma í þessum úrskurði við synjun landlæknis á að afhenda kæranda afrit af gögnum er varða rammasamning nr. 2143, dags. 25. september 2009, annars vegar og afrit af gögnum er varða rammasamningi nr. 2144, dags. 2. október 2009, hins vegar. Nánar tiltekið hefur kærandi óskað afrits af umræddum rammasamningum í heild sinni, án útstrikana, tilboðum seljenda og útboðslýsingum þeirra.

Af gögnum málsins er ljóst að báðir samningarnir voru gerðir í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup bóluefni í almennum bólusetningum á Íslandi. Fyrrnefndi rammasamningurinn (nr. 2143) felur í sér samning um kaup á NeisVac C bóluefni af Icepharma hf. Síðarnefndi samningurinn (nr. 2144) felur í sér samning um kaup á bóluefnunum Infarix Polio, Priorix, Boostrix, og Boostrix Polio af fyrirtækinu GlaxoSmithKleine ehf.

2.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.

Landlæknir hefur byggt synjun á aðgangi að þeim gögnum sem kæra málsins beinist að á 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, nánar tiltekið á því að í umræddum gögnum komi fram upplýsingar sem varði mikilvæg fjárhags- eða viðskiptamálefni þeirra fyrirtækja sem stóðu að umræddum tilboðum og eru aðilar umræddra rammasamninga, þ.e. IcePharma hf. og GlaxoSmithKleine ehf. og eftir atvikum framleiðendum þeirra lyfja sem um ræðir. 

Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila  sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“
Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum málsins geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Ber ennfremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344).
Í máli þessu ber því að leysa úr því hvort viðskiptahagsmunir þeirra fyrirtækja sem teljast seljendur bóluefna samkvæmt umræddum rammasamningum standi í vegi fyrir afhendingu umbeðinna gagna samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga.

3.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið afhent afrit af umræddum rammasamningi nr. 2143, að því undanskildu að strikað hefur verið yfir einingaverð í samningnum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að umræddar upplýsingar varða með beinum hætti ráðstöfun opinberra hagsmuna. Í ljósi meginreglu upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr., geta hagsmunir almennings af því að fá aðgang að slíkum upplýsingunum rutt til hliðar viðskiptalegum hagsmunum viðsemjenda ríkisins, enda hafi ekki verið sýnt fram á að það valdi viðkomandi beinu tjóni verði upplýsingarnar gerðar opinberar. Hefur úrskurðarnefndin m.a. byggt á því í úrskurðum sínum að það sjónarmið að upplýsingar um umsamið endurgjald hins opinbera til einkaaðila fyrir veitta þjónustu eða vörur skuli fara leynt verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Hefur í því sambandi einnig verið litið til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum A-74/1999, A-133/2001 og A-229/2006, svo dæmi séu tekin. Í þessu ljósi telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að rammasamningur nr. 2143 hafi ekki að geyma upplýsingar af því tagi að þær falli undir undantekningarákvæði 5. gr. upplýsingalaga og því eigi kærandi  rétt á aðgangi að samningnum í heild sinni, án útstrikana.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið ítarlega tilboð seljandans Icepharma hf., dags. 13. júní 2009, sem liggur til grundvallar umræddum rammasamningi nr. 2143. Tilboðið samanstendur af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi af yfirliti yfir tilboðið og fylgigögn þess. Í öðru lagi tveimur útfylltum eyðublöðum sem bera yfirskriftina „Tilboðsblað“ annars vegar og „Upplýsingar um tilboð og bjóðanda“ hins vegar. Á fyrrnefnda blaðinu koma fram þau verð sem viðkomandi lyf er boðið á. Í þriðja og síðasta lagi af 9 viðaukum sem bera eftirfarandi yfirskriftir:

1) NeisVac-C –Clinical Summary
2) Expert Statement for NeisVac-C regarding Post-Marketing Surveillance
3) Experience and Reliability in Vaccine Government Contracts
4) NeisVac-C Global Licensing Status
5) Samantekt um eiginleika lyfs og Fylgiseðill
6) Almennar upplýsingar um IcePharma og starfsemi þess
7) Gæðastefna Parlogis hf.
8) Endurskoðaðir og áritaðir ársreikningar Icepharma hf.
9) Afrit af innflutnings- og dreifingarleyfi Parlogis hf.

Upplýsingar sem fram koma í yfirliti yfir tilboðið og fylgigögn, auk þeirra upplýsinga sem fram koma í þeim útfylltu eyðublöðum sem að framan greinir teljast að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál ekki viðkvæmar né verður séð að það yrði IcePharma hf., framleiðanda umrædds lyfs eða öðrum lögaðilum sem þar er fjallað um til tjóns yrðu þær gerðar opinberar. Hér er fyrst og fremst um að ræða almennar upplýsingar um það lyf sem um ræðir, bjóðanda og verð.

Viðaukar sem tilgreindir eru hér að ofan nr. 4), 5), 6), 7), 8) og 9) geyma heldur ekki viðkvæmar upplýsingar fyrir bjóðanda. Hér er í fyrsta lagi um að ræða lista yfir þau lönd sem leyft hafa hið umrædda lyf. Almennt verður að ætla að þar sé um að ræða útgáfu opinberra leyfa (liður 4). Í öðru lagi er um að ræða upplýsingar sem einnig má nálgast um lyfið á heimasíðu Lyfjastofnunar á svonefndri sérlyfjaskrá (liður nr. 5). Í þriðja lagi almennar upplýsingar um Icepharma hf. á einni bls. (liður nr. 6). Í fjórða lagi afrit af gæðastefnu Parlogis og almennar upplýsingar um það fyrirtæki á tveimur bls. (liður 7). Í fimmta lagi áritaður ársreikningur IcePharma hf. (liður nr. 8) og loks afrit af tilteknum opinberum leyfum Parlogis hf., og ekki verður séð að geymi á neinn hátt viðkvæmar viðskiptaupplýsingar (liður 9).

Framantaldir þættir tilboðsins telja um 33 bls. af þeim 37 sem tilboðið er í heild sinni, að undanskilinni forsíðu. Landlækni ber með vísan til framangreinds, sbr. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga og 7. gr. sömu laga að afhenda kæranda umræddan hluta tilboðsins, auk forsíðu þess.

Á hinn bóginn telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að í ofangreindum viðaukum sem hér hafa verið auðkenndir með númerunum 1), 2) og 3) komi fram upplýsingar um viðskiptamálefni framleiðanda NeisVac-C og eða bjóðanda, sem rétt sé samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga að leynt fari. Kærandi á því ekki rétt á aðgangi að þeim á grundvelli 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Hér er um að ræða upplýsingar sem bera með sér að hafi verið aflað vegna tilboðsins, eða í tengslum við sambærileg tilboð eða markaðssetningu, og að viðkomandi fyrirtæki hafi hagsmuni af því að leynt fari. Þá eru upplýsingar sem fram koma í þeim lið tilboðsins sem ber yfirskriftina „Experience and Reliability in Vaccine Government Contracts“ að finna upplýsingar um heildarsölu umrædds lyfs á tilteknum markaðssvæðum. Eðlilegt er einnig að þessar upplýsingar fari leynt af tilliti til hagsmuna framleiðanda lyfsins.

 
4.
Kærandi hefur þegar fengið afhent afrit af áðurnefndum rammasamningi nr. 2144 að því undanskildu að strikað hefur verið yfir einingaverð í samningnum. Með vísan til sömu röksemda og fram koma í tölul. 3 hér að ofan telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að kærandi eigi rétt á aðgangi að umræddum rammasamningi í heild sinni, án útstrikana.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið ítarlega tvö tilboð seljandans GlaxoSmithKleine ehf., dags. 12. júní 2009, auðkennd GSK-1 og GSK-2. Af afhendingu Landlæknis á umræddum gögnum til úrskurðarnefndarinnar verður að ætla að bæði tilboðin geti legið eða liggi til grundvallar umræddum rammasamningi nr. 2144. Í tilboði auðkennt GSK-1 er að finna eftirtalda liði.

1) Forsíða.
2) Tvö útfyllt eyðublöð með yfirskriftina „Tilboð“ annars vegar og „Upplýsingar um tilboð og bjóðanda“ hins vegar.
3) Almennar upplýsingar um hlutverk og stefnu GlaxoSmithKleine á tveimur blaðsíðum.
4) Yfirlýsing um ábyrgð GlaxoSmithKleine plc. á skuldbindingum GlaxoSmithKleine ehf. vegna útboðsins.
5) Afrit af ársskýrslu GlaxoSmithKleine 2005
6) Afrit af gæðastefnu fyrirtækisins Parlogis, almennar upplýsingar um fyrirtækið og afrit af gjaldskrá, innflutnings-, dreifingar- og framleiðsluleyfum fyrirtækisins.
7) Yfirlýsing bjóðanda um samninga vegna flutnings og afhendingar lyfja.
8) Samantekt á eiginleikum lyfs á íslensku og ensku
9) Upplýsingar frá lyfjagreiðslunefnd um verðskrárgengi 1. júní 2006

Tilboð auðkennt GSK-2 inniheldur sömu liði, með sömu upplýsingum og það tilboð sem að framan er um fjallað, með auðkennið GSK-1, að undanskildum lið númer 5) og hluta af lið númer 8).

Engar af þeim upplýsingum sem fram koma í nefndum tilboðum lúta með beinum hætti að viðkvæmum viðskiptalegum hagsmunum GlaxoSmithKleine ehf., framleiðanda þeirra lyfja sem um ræðir eða öðrum lögaðilum sem þar er fjallað um. Þær upplýsingar sem í tilboðunum koma fram teljast því að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál ekki þess eðlis að þær gætu orðið GlaxoSmithKleine ehf. eða öðrum til tjóns yrðu þær gerðar opinberar. Ekkert af þessum upplýsingum eru þess eðlis að þær virðist byggðar á sérstökum rannsóknum viðkomandi fyrirtækja, aðrar en þær sem þegar hafa verið gerðar opinberar á sérlyfjaskrá.

Landlækni ber með vísan til þessa að afhenda kæranda umrædd tilboð í  heild sinni.

5.
Landlæknir hefur undir meðferð málsins ekki afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup bóluefni í almennum bólusetningum á Íslandi sem beiðni kæranda um aðgang að gögnum lýtur þó að. Ekki liggur annað fyrir en að umrætt útboð hafi verið opið útboð í þeim skilningi að allir er þess óskuðu áttu þess kost að afla sér útboðslýsingarinnar og gera tilboð á grundvelli hennar. Með vísan til þessa er það afstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Landlækni beri að afhenda kæranda útboðslýsingu í umræddu útboði Ríkiskaupa sé hún fyrirliggjandi hjá embættinu.

 
Úrskurðarorð

Landlækni ber að afhenda kæranda, [A], eftirtalin gögn:
(1) Rammasamning nr. 2143, dags. 25. september 2009, um kaup á bóluefninu NeisVac C af Icepharma hf. í heild sinni.
(2) Tilboð Icepharma, dags. 13. júní 2006, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi, þó að því undanskildu að kæranda skulu ekki afhentir þrír viðaukar með tilboðinu sem bera yfirskriftirnar „NeisVac-C –Clinical Summary“, „Expert Statement for Neis Vac-C regarding Post-Marketing Surveillance“ og „Experience and Reliability in Vaccine Government Contracts“.
(3) Rammasamning nr. 2144, dags. 2. október 2009, um kaup á tilgreindum bóluefnum af GlaxoSmithKleine ehf. í heild sinni.
(4) Tilboð GlaxoSmithKleine ehf., dags. 12. júní 2006, og auðkennt GSK-1, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi.
(5) Tilboð GlaxoSmithKleine ehf., dags. 12. júní 2006, og auðkennt GSK-2, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi.

Jafnframt ber Landlækni að afhenda kæranda, [A], útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum á Íslandi, sé hún fyrirliggjandi hjá embættinu.
 

 


Trausti Fannar Valsson
Formaður

 

 

                   Sigurveig Jónsdóttir                                                          Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum