Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. júní 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra átti tvíhliða fundi með forsætisráðherra Noregs og Finnlands

Forsætisráðherra Íslands, utanríkisráðherra Svíþjóðar og forsætisráðherra Finnlands
Forsætisráðherra Íslands, utanríkisráðherra Svíþjóðar og forsætisráðherra Finnlands

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, átti í gær, mánudag, tvíhliða fundi með forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg og með forsætisráðherra Finnlands, Jyrki Katainen, en forsætisráðherrarnir eru staddir á fundi Barentsráðsins í Kirkenes í Noregi.

Á fundi íslenska og norska forsætisráðherrans var einkum fjallað um stöðu tvíhliða samstarfs ríkjanna, svo og samstarfs innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.  Rætt var um stefnu nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi og aukna áherslu á samstarfs ríkjanna varðandi auðlindarannsóknir og fyrirhugaða olíuleit.  Forsætisráðherra kvað Ísland geta lært mikið af Noregi við undirbúning, lagasetningu og framkvæmd tengda olíuleit og hugsanlega olíuvinnslu, svo og meðferð hugsanlegs hagnaðar af slíkri nýtingu. Rætt var um efnahagsmál á Íslandi, meðal annars þörf fyrir aukna fjárfestingu, bæði innlenda og erlenda og tækifæri því tengd. Einnig ræddu forsætisráðherrarnir um nýtingu auðlinda úr sjó, meðal annars makrílveiðar.

Íslenski og finnski forsætisráðherrann ræddu um þróun efnahagsmála í Finnlandi og á Íslandi, svo og stöðuna á vettvangi Evrópu.  Samstarf Íslands og Finnlands hefur verið með miklum ágætum og voru forsætisráðherrarnir sammála um að ýmis tækifæri væru til þess að auka það, ekki síst varðandi málefni norðurslóða og hvað varðar þróun fjölbreytni í atvinnulífi. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jens Stoltenberg
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jens Stoltenberg

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum