Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. ágúst 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Víðtækur aðgangur að náttúrufarsgögnum frá veðurtunglum

Frá undirritun EUMETSAT samningsins.

Ísland fékk fulla aðild að evrópsku veðurtunglastofnuninni EUMETSAT (http://www.eumetsat.int)  í dag, 30. ágúst þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Alain Ratier, forstjóri EUMETSAT, undirrituðu aðildarsamning.

Sem aðildarríki mun Ísland hafa óheftan aðgang að gögnum sem varða fjölmarga þætti náttúrufars og taka fullan þátt í stefnumarkandi ákvörðunum stofnunarinnar. Þá munu íslensk fyrirtæki og framkvæmdaaðilar geta boðið í verkefni og Íslendingar fá tækifæri til að vinna að verkefnum á vegum EUMETSAT.

Undirritun aðildarsamningsins fór fram í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu að viðstöddum Árna Snorrasyni, forstjóra Veðurstofu Íslands, Paul Counet, yfirmanni alþjóðatengsla EUMETSAT, Silvia Castañer, yfirmanni lögfræðisviðs EUMETSAT, og fleiri fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Veðurstofu Íslands.

Evrópska veðurtunglastofnunin er milliríkjastofnun um rekstur gervitungla, upphaflega stofnað af evrópskum veðurstofum 1986 í þeim tilgangi að útvega gervitunglagögn til notkunar við veðurspár, veðurspárreikninga og loftslagsathuganir sérstaklega með hagsmuni aðþjóðaflugsins í huga. Afurðum hefur fjölgað síðan þá og notkunarsviðið víkkað. EUMETSAT framleiðir og dreifir gögnum til veðurstofa aðildarlanda allan sólarhringinn, alla daga ársins og er í samstarfi við veðurstofur innan vébanda Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar WMO. Stofnunin er ennfremur í fullu samstarfi við rekstraraðila gervitungla í Bandaríkjunum og að þróa samvinnu á því sviði við Kína, Indland, Japan, Kóreu og Rússland. Næsta stóra verkefni þeirra er að setja í loftið gervitungl til að fylgjast með Norðurskautssvæðinu, og mun það bæta þjónustu við Ísland verulega. Ísland hefur verið samstarfsaðili síðan 2006 og haft aðgang að EUMETSAT gögnum samkvæmt tímabundnum aðlögunarsamningi. Með fullri aðild tryggja Íslendingar sér óheftan aðgang að gögnum sem nýtast til dæmis við veðurspár og loftslagsrannsóknir, vegagerð, haf- og  náttúrufræðirannsóknum, háskólum og hugbúnaðarfyrirtækjum.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum