Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

16. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 16. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti
Staður og stund:
Velferðarráðuneytið 9. apríl 2014 kl. 14.00-16.00
Málsnúmer:
VEL12100264

Mætt: Benedikt Valsson (BV,Svf ), Guðný Einarsdóttir (GE, FJR), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður aðgerðahóps (AKÁ) Rósa G. Erlingsdóttir (RGE) starfsmaður aðgerðahóps, Eva Margrét Kristinsdóttir (EMK, VEL).

Forföll boðuðu: Oddur S. Jakobsson (OSJ, KÍ). Georg Brynjarsson (GB, BHM), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB),
Gestir á fundinum: Aðalbjörg Finnbogadóttir, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Fundarritari: Eva Margrét Kristinsdóttir (EMK, velferðarráðuneytið).

Dagskrá:

1.            Fundargerð 15. fundar lögð fram til samþykktar

Fundargerð samþykkt.

2.            Staða karla og kvenna á vinnumarkaði – framvinda verkefna

a.    Rannsóknarskýrsla um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.
Lagt var fram minnisblað um gerð og útgáfu rannsóknarskýrslu um stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Í samráði við framkvæmdanefnd um launajafnrétti var leitað samstarfs við EDDU öndvegissetur við Háskóla Íslands um framkvæmd verkefnisins. EDDA er þverfaglegt rannsóknarsetur við Háskóla Íslands sem hefur það að markmiði að hvetja til og styðja við samtímarannsóknir, með áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika, í samstarfi við innlendar og erlendar háskóla- og rannsóknarstofnanir. Rannsóknaráætlun EDDU hlaut öndvegisstyrk frá Vísinda- og tækniráði í samræmi við markáætlun RANNÍS til þriggja ára árið 2009 og árið 2013 var styrkurinn framlengdur um fjögur ár.

EDDA öndvegissetur hefur gert tillögu um að fela Katrínu Ólafsdóttur lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík umsjón með verkefninu. Sótt verður um styrk í Framkvæmdasjóð jafnréttismála til að fylgja eftir tillögum þeim sem fram koma í verkefni nr. 12 í framkvæmdaáætlun gegn launamisrétti kynjanna í áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi 2011. Þá verður sótt um viðbótarframlag úr rannsóknarsjóðum og óskað eftir mótframlögum frá aðilum vinnumarkaðarins. Rannsóknarsnið er nú í vinnslu og verður ásamt kostnaðaráætlun lagt fram til kynningar á næsta fundi aðgerðahóps.

b.    Launarannsókn 2014.
Lögð var fram til kynningar tilboðsbeiðni sérfræðiteymis aðgerðahóps um rannsóknarverkefni sem sent var til Hagstofu Íslands í lok mars.  Rannsóknin verður útfærð nánar af sérfræðiteyminu í samstarfi við Hagstofuna og verður kostnaðaráætlun lögð fyrir á næsta fundi aðgerðahóps. Í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið sækir velferðarráðuneytið um um styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála til að fjármagna verkefnið. Ísland fer árið 2014 með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og ein megináhersla formennskuáætlunar í jafnréttismálum er jafnrétti á vinnumarkaði. Í nóvember verða í Reykjavík haldnar tvær samliggjandi ráðstefnur um jafnrétti á vinnumarkaði. Sú fyrri verður lokaráðstefna rannsóknarverkefnis um hlutastörf á Norðurlöndum og sú síðari verður haldin í samstarfi samnorræns tengslanets um jafnrétti á vinnumarkaði og aðgerðahóps um launajafnrétti um jafnlaunamál. Vonir standa til að unnt verði að birta fyrstu niðurstöður launarannsóknarinnar á ráðstefnunni um jafnlaunamál. 

c.    Umsóknir í Framkvæmdasjóð jafnréttismála
Fyrir hönd aðgerðahóps um launajafnrétti er velferðarráðuneyti einnig umsækjandi í Framkvæmdasjóð jafnréttismála að verkefni til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali. Sótt er um í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Verkefnið verður unnið í samvinnu við Kristínu Önnu Hjálmarsdóttur kynjafræðing sem ráðinn verður verkefnastjóri og mun hún vinna í samstarfi við verkefnisstjórn með fulltrúum beggja ráðuneyta. Verkefnið hefur tvíþætt markmið. Annars vegar að hafa samráð við hagsmunaðila í því augnamiði að safna upplýsingum fyrir gerð framkvæmdaáætlunar um leiðir til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali. Hins vegar að gera aðgengilegar hagnýtar upplýsingar og leiðbeiningar sem geta nýst menntastofnunum, faggreinafélögum og atvinnurekendum við að koma verkefnum sínum í framkvæmd. Framkvæmd verkefnisins felst í að safna upplýsingum og kortleggja áherslur fagfélaga, hagsmunasamtaka, menntastofnana á grunn-, framhalds- og háskólastigi og sérfræðinga á sviði jafnréttismála. Um eigindlegt rannsóknarverkefni er að ræða og verður gögnum safnað með viðtölum við ofangreinda aðila. Gögnin verða flokkuð með það að markmiði að greina helstu áherslur hagsmunaaðila, vilja þeirra til verka, hugmyndir um aðgerðir og hugsanlegar hindranir. Gert er ráð fyrir að afurðir verkefnisins verði tvær. Annars vegar heimasíða sem verður upplýsingaveita fyrir fagfélög og menntastofnanir um það hvernig hægt sé að nálgast verkefni með heildstæðum hætti og hrinda í framkvæmd. Hins vegar skýrsla um fyrirliggjandi þekkingu og tillögur sem nýta má sem grundvöll fyrir gerð þeirrar framkvæmdaáætlunar sem aðgerðahópnum er ætlað að skila um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval.

3.            Tilraunaverkefni um jafnlaunastaðal

Farið var yfir stöðu mála í tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals og lagt var fram minnisblað um ráðgjöf og fræðslu til stofnana. Í mars voru haldnir fundir með þátttakendum í verkefninu og framundan er að halda vinnustofur þar sem farið verður í starfaflokkun, launagreiningu og skjölun. Sérfræðingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins leiða tilraunaverkefnið og hafa þeir jafnframt skipulagt vinnustofur og hannað námsefni byggt á jafnlaunastaðlinum. Fyrsta vinnustofan fyrir sveitarfélög og stofnanir verður haldin um starfaflokkun 11. apríl með þátttöku fulltrúa frá Fræðslusetrinu Starfsmennt sem hefur tekið að sér að halda utan um fræðsluna í framtíðinni en setrið hefur langa reynslu af þess konar verkefnum meðal ríkisstarfsmanna.

Minnisblað MT um jafnlaunastaðalinn um ráðgjöf og fræðslu var dreift á fundinum. Ákveðið var að kalla til fundar verkefnastjóra tilraunaverkefnisins, aðila fræðslusjóða- og/eða fræðslusetra almenna markaðarins og forsvarsaðila Fræðslusetursins Starfsmenntar til að kanna samstarf fræðslusjóðanna og viðeigandi fræðslusetra um vinnustofur og námskeið tengd innleiðingu jafnlaunastaðalsins. Þá var ákveðið að athuga hvort námskeið fyrir vottunaraðila í samræmi við reglugerð um vottun jafnlaunakerfa væri einnig hægt að undirbúa og halda í samstarfi við sömu aðila.

4.            Gerð framkvæmdaáætlunar um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval – Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Undir þessum lið mætti á fundinn Aðalbjörg Finnsdóttir sviðstjóri fagsviðs hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Aðalbjörg sagði að ánægja hefði verið með fund aðgerðahópsins um karla í umönnunar- og kennslustörfum og greindi frá miklum áhuga hjá félaginu um að taka þátt í verkefnum hópsins sem miða að uppbroti kynjaskiptingar starfa. Hópurinn kynnti fyrirhuguð verkefni á þessu sviði og ákveðið var að hafa samráð um frekari samstarf þegar svar hefði borist um fjármögnun verkefna sem snúa að undirbúningi framkvæmdaáætlunar um uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar.

5.            Önnur mál

Lögð voru fram fyrstu drög að dagskrá ráðstefnu um jafnlaunamál sem haldin verður í samstarfi aðgerðahóps og samnorræns tengslanets um jafnrétti á vinnumarkaði þann 13. Nóvember nk.

Upplýst var að félags- og húnsæðismálaráðherra hefur samþykkt tillögu aðgerðahópsins um að sérfræðingur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti verði skipaður í hópinn.

Lögð voru fram lokadrög reglugerðar um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Reglugerðin hefur lagastoð í nýju frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem nú er til meðferðar á Alþingi.

Fleira var ekki rætt.

Næsti fundur verður 7. maí 2014 kl. 14.00-16.00    

Rósa Guðrún Erlingsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum