Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. október 2014 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á ýmsum ákvæðum réttarfarslaga til umsagnar

Innanríkisráðuneytið kynnir drög að lagafrumvarpi sem réttarfarsnefnd hefur samið að tilhlutan innanríkisráðherra. Eru þar lagðar til fjölmargar breytingar á ákvæðum réttarfarslaga. Unnt er að koma umsögnum um frumvarpsdrögin til ráðuneytisins á netfangið [email protected] til 14. október næstkomandi.

Með frumvarpsdrögunum eru lagðar til breytingar á eftirtöldum lögum:

  • Lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991
  • Lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008
  • Lögum um aðför, nr. 90/1989
  • Lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991
  • Lögum um dómstóla, nr. 15/1998.

Frumvarpsdrögin miða einkum að því að auka skilvirkni við afgreiðslu dómsmála með því að einfalda reglur og auka hraða í málsmeðferð. Byggjast margar af þeim breytingum sem lagðar eru til á tillögum frá starfshópi á vegnum dómstólanna sem sendar voru ráðuneytinu til frekari skoðunar. Hafði starfshópurinn það hlutverk að skoða hvar í réttarfarslögum eða innri reglum dómstólanna mætti koma við aukinni einföldun og skilvirkni við rekstur dómsmála þannig að leiddi til hagræðingar.

Samhliða því eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar til samræmingar og lagfæringar á nokkrum ákvæðum réttarfarslaga. Þá eru lagðar til breytingar er varða skýrslutöku af börnum þar sem lagt er til að skýrslutaka fari ávallt fram í sérútbúnu húsnæði utan dómhúss nema hagsmunir brotaþola kalli á annað.

Samræmdar eru reglur um aðgang að gögnum í einka- og sakamálum sem og aukinn aðgangur annarra en þeirra sem beinna lögvarðra hagsmuna eiga að gæta að gögnum. Þá er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um heimildir til birtinga á niðurstöðum héraðsdóma og að settar verði reglur um að afmá viðkvæmar upplýsingar.

Réttarfarsnefnd hafði við samningu frumvarpsins náið samráð við Hæstarétt, dómstólaráð, Dómarafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands. Jafnframt var frumvarpið sent þessum aðilum til umsagnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira