Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. nóvember 2015 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundar með framkvæmdastjóra EASO

Forsætisráðherra og framkvæmdastjóri EASO. - mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fundaði í dag í Valletta með framkvæmdastjóra EASO, Stuðningsskrifstofu Evrópu í málefnum hælisleitenda (European Asylum Support Office) og fékk kynningu á starfsemi og verkefnum stofnunarinnar.

Heimsóknin var í tengslum við þátttöku forsætisráðherra í leiðtogafundi um vandann vegna fólksflutninga, sem haldinn er á Möltu þessa dagana. Forsætisráðherra voru kynnt starfsemi og verkefni stofnunarinnar og nýjustu upplýsingar hennar um umfang vandans og mögulega þróun hans. Meðal annars kom fram að stofnunin telur mikilvægt að samræma aðgerðir ríkja betur en nú er og að mikilvægt sé að gera meira til að gera fólki kleift að dvelja áfram í flóttamannabúðum og komast heim. Einnig þurfi að auka viðbúnað, skráningu og aðkomu sérfræðinga á helstu móttökustöðum (hot spots) innan Evrópu. Þá sé nauðsynlegt að ráðast að rótum vandans að því marki sem hægt er á hverjum stað.

Forsætisráðherra segir fundinn hafa verið upplýsandi. „Það var mjög gott að fá greinargóða og hreinskipta kynningu á umfangi og eðli vandans. Við ræddum nauðsynlegar aðgerðir og hver reynsla og stefna Íslands er í þessum málaflokki, og það var sérstaklega áhugavert að heyra mat þeirra á því hvernig þessi vandi muni þróast og hvaða leiðir þau telja vænlegastar til að ná árangri“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum