Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. febrúar 2016 Innviðaráðuneytið

Breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja

Breyting á reglugerð um gerð og búnað ökutækja hefur tekið gildi í því skyni að innleiða þrjár nýjar Evrópugerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Breytingarnar snúast um reglur um hávaða frá ökutækjum, ýmsar tæknilegar kröfur sem gerðar eru til framleiðenda ökutækja og um gerðarviðurkenningar ökutækja. Ekki er talið að reglugerðirnar hafi bein áhrif hérlendis þar sem hér starfa engir framleiðendur ökutækja.

Breytingarnar varða reglugerð um gerð og búnað ökutækja, nr. 822/2004. Þær fela eingöngu í sér innleiðingu þriggja tiltekinna gerða sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn:

a. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 540/2014 frá 16. apríl 2014 um hljóðstig vélknúinna ökutækja og hljóðdeyfikerfa felur í sér endurnýjun og breytingu á tilskipun 2007/46/EB og um niðurfellingu tilskipunar 70/157/EBE.

Reglugerðin felur efnislega í sér tæknilegar kröfur sem gerðar eru til framleiðenda og prófunaraðila ökutækja að því er varðar hávaða frá ökutækjunum. Kröfurnar snúa að gerðarviðurkenningu nýrra ökutækja og eru gerðar til framleiðenda. Á Íslandi eru engir framleiðendur og hafa reglurnar því engin áhrif hér á landi enn sem komið er.

b. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/166/ESB felur í sér viðbætur og breytingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 661/2009 varðandi sértækar verklagsreglur, matsaðferðir og tæknilegar kröfur sem gerðar eru til framleiðenda og um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/46/EB og reglugerðum framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1003/2010, (ESB) nr. 109/2011 og (ESB) nr. 458/2011.

Fyrirséð er að reglugerð 2015/166/EB muni einungis hafa óbein áhrif hér á landi, í ljósi þess að hérlendis starfa ekki framleiðendur bifreiða. Þegar gerðarviðurkennd ökutæki koma hingað til lands, mun þegar hafa verið gengið úr skugga um að framleiðendur þeirra hafi fullnægt skilyrðum þeim sem fyrir hendi eru, m.a. samkvæmt þessari gerð.

c. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/562 frá 8. apríl 2015 felur í sér breytingu á reglugerð (ESB) nr. 347/2012 um framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 661/2009 og varðar gerðarviðurkenningarkröfur vegna tiltekinna flokka vélknúinna ökutækja að því er varðar háþróuð neyðarhemlunarkerfi.

Gerðin hefur aðeins áhrif á framleiðendur og þá sem gera prófanir á nýjum bifreiðum en hvorki eru framleiðendur á Íslandi né aðilar sem gerðarviðurkenna bifreiðar með slíkum hætti.

Breytingarnar á reglugerðinni fela eingöngu í sér ákvæði sem leiða af skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-rétti. Breytingin var unnin í samráði við Samgöngustofu en ekki var talin ástæða til frekara samráðs þar sem áhrif gerðanna hér á landi eru lítil og eingöngu óbein. Reglugerðin fær stoð í 60. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og hefur þegar öðlast gildi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum