Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. september 2016 Dómsmálaráðuneytið

Styrkja verkefni til að hvetja til aukinnar kosningaþátttöku ungs fólks

Verkefni um að hvetja ungt fólk til aukinnar þátttöku í kosningum var kynnt í dag. - mynd
Innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga styrkja verkefnið Skuggakosningar sem Landssamband æskulýðsfélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa fyrir. Markmið verkefnisins er að hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun í kjörklefanum í von um að kosningaþátttaka ungs fólks muni aukast.

Verkefnið var kynnt á fundi í dag með fulltrúum ofangreindra aðila en ætlunin er að ná markmiðum þess meðal annars með upplýsinga- og hvatningaherferð á netinu, með fundum og svonefndum skuggakosningum sem fram fara í aðdraganda alþingiskosninga. Opnaður hefur verið vefurinn egkys.is og er þar að finna helstu upplýsingar um verkefnið og um framboð stjórnmálaflokkanna.

Efla á lýðræðishyggju

Fulltrúar innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga fluttu ávörp við athöfnina og fulltrúar Landssambands æskulýðsfélaga og Sambands íslenskra framhaldsskólanema, Hildur Björgvinsdóttir og Tinna Isebarn, kynntu verkefnið nánar. Í kynningu þeirra tveggja lögðu þær áherslu á að tilgangurinn væri fyrst og fremst sá að efla lýðræðisþekkingu og virkni ungmenna. Ýtt verði undir pólitíska umræðu og fræðslu komið á framfæri á netinu, með stuttmyndum og fundum og hápunktur herferðarinnar væri síðan skuggakosningin um miðjan október.

Með skuggakosningunni er framhaldsskólanemum gefinn kostur á að kjósa stjórnmálaflokka. Þær munu standa dagana 10. til 13. október en niðurstöðurnar verða ekki birtar fyrr en eftir að kjörstöðum hefur verið lokað að kvöldi kjördags 29. október. Verður þá unnt að bera saman niðurstöður kosninganna hjá framhaldsskólanemum og alþingiskosninganna.

 

Þórdís Kolbrún, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, ávarpaði fundinn.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, flutti fundinum kveðju ráðherra og sagði það ánægjuefni að fulltrúar ungs fólks láti sig þetta efni varða, að auka kosningaþátttöku ungs fólks. Sagði hún verkefni sem þetta mikilvægt skref til að efla lýðræðisvitund og þekkingu ungmenna í framhaldsskólum og að hvetja til þátttöku í kosningum. Þakkaði hún samtökunum fyrir frumkvæði þeirra í málinu og sagðist vona að markmið þess næðist, að auka þátttöku ungs fólks.

Auk þess að styrkja verkefnið skrifuðu Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, bréf til grunnskóla, framhaldsskóla og ýmissa hagsmunaaðila og hvöttu til þess að nemendur tækju þátt í því verkefni sem áðurnefnd samtök ungmenna standa fyrir. Með því væri unnt að efla lýðræðismenntun í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira