Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. janúar 2017 Forsætisráðuneytið

Ráðuneyti Bjarna Benediktssonar tekur til við

Ríksstjórn Bjarna Benediktssonar á fyrsta ríkisráðsfundi með forseta Íslands - mynd

Á fundi ríkisráðs á Bessastöðum í dag endurstaðfesti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tillögu forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, um að veita ráðuneyti hans lausn frá störfum.

Á öðrum fundi ríkisráðs sem haldinn var sama dag féllst forseti Íslands á tillögu Bjarna Benediktssonar alþingismanns um skipun fyrsta ráðuneytis hans og gaf út úrskurð um skiptingu starfa ráðherra.

Störfum er þannig skipt með ráðherrum:

  • Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
  • Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
  • Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
  • Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
  • Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra.
  • Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
  • Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra. 
  • Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Sjá nánar í forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra (á vef Stjórnartíðinda).

Einnig hafa verið gerðar breytingar á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta.

Samkvæmt úrskurðinum munu málefni Seðlabanka Íslands færast til forsætisráðuneytisins frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en verkefni hagskýrslugerðar og upplýsinga um landshagi, þ.m.t. málefni Hagstofu Íslands, færast frá fyrrnefnda ráðuneytinu til þess síðarnefnda. Að auki flytjast málefni Vísinda- og tækniráðs og málefni þjóðmenningar frá forsætisráðuneytinu til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þá færast málefni Þingvallaþjóðgarðs, að undanskildum Þingvallabænum, frá forsætisráðuneytinu til umhverfis- og auðlindaráðuneytis og neytendamál færast til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis frá innanríkisráðuneytinu. Loks færast verkefni byggðamála til innanríkisráðuneytis en þau heyrðu áður undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. 

Sjá nánar um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í forsetaúrskurði  (á vef Stjórnartíðinda).

Sjá einnig stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum