Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. febrúar 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á aðalfundi SKOTVÍS 2017

 

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á aðalfundi SKOTVÍS sem haldinn var 25. febrúar 2017.

 

Formaður Skotvís og stjórn, ágætu fundargestir,

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir að bjóða mér að koma hér og ávarpa aðalfund Skotvís. Það er mér sérstök ánægja og heiður enda eru þið, skotveiðimenn, afar mikilvægur samstarfsaðili okkar í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Veiðar, hvort sem þær eru stundaðar með veiðistöng við ár landsins eða með byssu til holta og heiða eru stór hluti af lífi og lífsgæðum margra Íslendinga. Sjálf sé ég reglulega neistann og tilhlökkunina í augum mannsins míns og annarra fjölskyldumeðlima þegar þeir fara á veiðar. Ég hef nú reyndar lengi verið á leiðinni sjálf að taka skotveiðiprófið svo ég geti skellt mér með í þessar ferðir. Og það er á listanum að drífa það af.

En ég þykist vita að það er ekki bara bráðin sjálf og það að kljást við hana sem togar veiðimanninn af stað. Það er líka okkar ótrúlega fallega náttúra. Að geta gengið um óbyggðir og lítt snortin svæði og notið þess sem fyrir augu ber, þó að radarinn sé að sjálfsögðu á fullu, eru lífsgæði út af fyrir sig. Nú, eða að sitja og bíða eftir rétta augnablikinu, en á sama tíma njóta þess að hlusta á það sem náttúran hefur upp á að bjóða.

Allt er þetta hluti af því njóta landsins okkar og nýta landsins gæði. Og þessu fylgir þá auðvitað að gera það sem við getum til að varðveita þessi gæði þannig að hægt verði að njóta þeirra til framtíðar.

Af þessu leiðir að náttúruverndin er samofin veiðinni. Hún er í raun forsenda veiðiferðanna. Enda þekki ég ekki veiðimann sem ekki er náttúruverndarsinni.

Ég veit að veiðimenn vilja að stundaðar séu sjálfbærar veiðar, og til þess að svo sé, þarf að styðja vöktun og rannsóknir á dýra- og fuglastofnum.

Það tengist auðvitað veiðistjórnun. Þar er unnið í samræmi við villidýralögin og haft samráð við þá aðila sem framkvæmd laganna varðar.

Veiðikortin og kerfið í kringum það eru mikilvæg atriði í tengslum við veiðistjórnun í landinu. Ég er nýlega búin að fá á mitt borð til skoðunar tillögur um úthlutun veiðikortatekna eftir nýju fyrirkomulagi þar sem horft er til þriggja ára, þar sem áhersla er lögð á að vakta og fylgjast með stofnstærðum þeirra fuglategunda sem eru undir mestu veiðiálagi. Þar vil ég þakka ykkur hjá Skotvís sérstaklega fyrir góða samvinnu við ráðuneytið um að koma á þessu nýja fyrirkomulagi. Jafnframt vil ég þakka ykkur fyrir virka þátttöku í samráðsnefnd um sjálfbærar veiðar, sem vonandi getur haldið áfram að þróast sem samráðsvettvangur félagasamtaka og stjórnvalda um málefni veiðistjórnunar, framþróunar og umbóta. Eins vona ég að gangi vel samstarfið við ykkur um að innleiða rafrænu veiðikortin, því að þar er meðal annars tækifæri til að sleppa við árlega útgáfu þúsunda plastspjalda sem líka er stórt umhverfismál!

Það skiptir miklu að allt sem lýtur að veiðikortakerfinu sé gagnsætt og unnið í góðu samstarfi við veiðimenn.

Ég hef á fyrstu vikum mínum sem ráðherra verið að setja mig inní hin fjölmörgu viðfangsefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Einn þáttur í því er að koma hér og heimsækja ykkur. Fyrir mig og þær ákvarðanir sem þarf að taka varðandi stjórnun á veiðum einstakra tegunda skiptir miklu að eiga við ykkur gott samstarf. Ég veit að það hefur verið tekist á um ýmsar ákvarðanir, svo sem um fyrirkomulag rjúpnaveiðanna. Eins eru uppi sjónarmið um ýmis mál, eins og veiðar á svartfuglum, hugsanlega vernd teistu, hreindýraveiðar og verndun blesgæsar svo nokkur atriði séu nefnd sem mér hafa borist til eyrna. Um þessi mál og önnur sem tengjast veiðum á villtum dýrum þarf ég að fræðast betur á næstu misserum með það að markmiði að vera vel í stakk búin til að vinna að nauðsynlegri vernd og sjálfbærum veiðum til framtíðar.

Ágætu gestir;

Að lokum vil ég minnast á það ákvæði stjórnarsáttmálans sem talar um sérstaka vernd miðhálendisins. Nú veit ég að Skotvís skrifaði undir viljayfirlýsingu um hálendisþjóðgarð ásamt fjölda annarra samtaka. Ég veit líka að margir meðlimir Skotvís eru þrátt fyrir það tortryggnir gagnvart því að svæðið verði gert að þjóðgarði og að með því að taka þátt í því verkefni vildu samtökin m.a. tryggja að þeirra rödd væri við borðið þegar verkefnið væri tekið lengra. Nú er það minn vilji að hálendið verði þjóðgarður EN ég vil leggja áherslu á að ég er meðvituð um ykkar áhyggjur. Við þurfum til dæmis að huga vandlega að því að sjálfbær hefðbundin nýting, t.d. sjálfbærar veiðar, rúmist innan mögulegs miðhálendisþjóðgarðs. Og það verður hugað vandlega að því. Ég vil að sama skapi ítreka að undirstaðan að allri útivist er náttúruverndin og að henni viljum við vinna í góðri samvinnu við ykkur og aðra hagsmunaaðila.

Og í blálokin vil ég endurtaka þakkir mínar fyrir boðið hingað á aðalfundinn. Skotvís eru mikilvæg samtök og samstarfsaðili umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Ég hlakka til að vinna með ykkur að góðum málum á næstu árum.  Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum