Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. mars 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Framhald átaks til að stytta bið eftir völdum aðgerðum

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela Sjúkratryggingum Íslands að semja við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands um að framkvæma valdar aðgerðir á grundvelli átaks stjórnvalda til að stytta biðlista.

Þetta er annað árið af þremur sem átakið nær til og eru 840 milljónir króna af fjárlögum þessa árs til ráðstöfunar. Átakið á þessu ári verður tvískipt og nær til hálfs árs í senn. Greiðslur til stofnanana vegna þátttöku þeirra í átakinu munu fara fram mánaðarlega í samræmi við fjölda aðgerða.

Við val á tegundum aðgerða fyrir átakið var byggt á ráðgjöf Embættis landlæknis. Þetta eru liðskiptaaðgerðir, hjartaþræðingar og augasteinsaðgerðir líkt og í fyrra, en að auki er bætt við völdum kvensjúkdómaaðgerðum.

Gert er ráð fyrir að ráðist verði í sambærilegan fjölda aðgerða og í átakinu á síðastliðnu ári en endanlegar upplýsingar um fjölda aðgerða á hverri stofnun liggja fyrir á næstu dögum. Í fyrra leiddi átakið til þess að gerðar voru 48% fleiri liðskiptaaðgerðir en ella og 137% fleiri augasteinsaðgerðir. Hjartaþræðingum fjölgaði lítið sem ekkert, eða um 1%.

Landspítalinn mun annast allar tegundir þeirra aðgerða sem falla undir átakið og Sjúkrahúsið á Akureyri framkvæmir allar aðgerðir aðrar en hjartaþræðingar. Heilbrigðisstofnun Vesturlands mun annast liðskiptaaðgerðir.

Stofnanirnar þrjár munu eiga þess kost að framkvæma aðgerðir sem falla undir átakið á öðrum opinberum heilbrigðisstofnunum þyki það henta. Þetta er liður í þeirri viðleitni að nýta betur mannafla og aðstöðu á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins og gera fleiri íbúum utan höfuðborgarsvæðisins kleift að fá sérhæfða heilbrigðisþjónustu í eða nær sinni heimabyggð.

Sjúkratryggingar semja um augasteinsaðgerðir

Leitað hefur verið til fyrirtækjanna Sjónlags og Lasersjónar um þátttöku í átakinu vegna fjölgunar augasteinsaðgerða og gangi það eftir mun heilbrigðisráðherra fela Sjúkratryggingum Íslands að annast samningagerð við fyrirtækin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum