Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. júlí 2017 Innviðaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um Þjóðskrá Íslands

Til umsagnar eru nú drög að frumvarpi til laga um Þjóðskrá Íslands. Frumvarpið er rammalöggjöf fyrir stofnunina. Engin slík löggjöf er í gildi en einstök lagaákvæði  er að finna í lögum.  Ekki er með skýrum hætti kveðið á um skyldur Þjóðskrár Íslands, yfirstjórn stofnunarinnar og fleiri atriði sem nauðsynlegt er að kveða á um stofnun sem þessa.  Þá þarf að setja traustari lagastoð  undir hin ýmsu verkefni sem stofnunin hefur með hendi svo sem verkefni tengd upplýsingasamfélaginu.

Markmið með frumvarpinu er að færa ákvæði um stofnunina á einn stað þó að hlutverk hennar sé jafnframt skilgreint í öðrum lögum og þá í sumum tilvikum með nákvæmari hætti en í fyrirhugaðri rammalöggjöf. Þá er markmið að setja viðhlítandi stoð undir ákveðin verkefni stofnunarinnar, svo sem þróun og rekstur upplýsinga- og þjónustuveitunnar Ísland.is.  Loks er brýnt að frumvarp sem þetta sé lagt fram í ljósi þess að verið er að endurskoða löggjöf er varðar þjóðskrá annars vegar og almannaskráningu hins vegar.

Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 9. ágúst næstkomandi og skulu þær berast á netfangið [email protected]. Drög að frumvarpinu eru meðfylgjandi og einnig samantekt um meginefni þess og helstu nýmæli.

Samantekt og helstu breytingar

Í I. kafla frumvarpsins er kveðið á um hlutverk, skipulag o. fl. er varðar Þjóðskrá Íslands. Vakin er athygli á því að ekki verður lengur stjórn yfir stofnuninni. Viðamesta ákvæði kaflans er þó 3. gr. en það varðar hlutverk stofnunarinnar. Í ákvæðinu er gerð grein fyrir hlutverkum Þjóðskrár Íslands með almennum hætti en eins og áður hefur komið fram er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar með nákvæmari hætti í öðrum lögum.

Í II. kafla er að finna nýmæli um rafrænu upplýsinga- og þjónustuveituna Ísland.is. Í dag hafa einstaklingar hér á landi aðgang að rafrænu, persónubundnu pósthólfi þar sem þeir geta nálgast ýmis gögn frá hinu opinbera. Ætlunin er að efla hina rafrænu upplýsinga- og þjónustuveitu og því nauðsynlegt að kveða á um hana í lögum. Hins vegar er gert ráð fyrir að reglur verði nánar útfærðar í reglugerð.

Í III. kafla er að finna ýmis ákvæði svo sem ákvæði um þjónustugjöld, kæruheimild, reglugerðarheimild o.fl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum