Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. apríl 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmumndar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Landgræðslu ríkisins 2018

Forstjóri, starfsmenn Landgræðslunnar og aðrir ársfundargestir.

Á öðrum degi páska árið 1882, sem var 10. apríl, tók að frysta og gekk í norðanátt með hríðum og illviðrum. Sérstaklega var ástandið slæmt dagana 20. til 29. apríl. Fyrir norðan var vart hægt að komast úr húsi fyrir stórhríðum og kafaldsbyljum. Fyrir sunnan var kafaldið minna en veðurhæðin meiri ef eitthvað var. Þar var víða ekki snjór til að hlífa jörðinni, einkum í Rangárvallasýslu. Þar sem svo háttaði til gekk sandrok og grjóthríð yfir byggðirnar ofan af uppblásnu landi og það var samfellt harðviðri til 9. maí. Sandurinn bruddi valllendið, reif torfþök af húsum og flatti út húsveggi og garða. Fjöldi jarða fór í eyði, einkum í Landsveit og á Rangárvöllum. Í mörgum héruðum ríkti hallærisástand og fólk flosnaði upp. Sumir fóru til Ameríku, aðrir til annarra sveita; gerðust flóttamenn. Í dag köllum við það umhverfisflóttamenn.

Frásögn af þessum ægilegu hamförum má lesa í bókinni Sáðmenn sandanna, sem rekur sögu landgræðslu á Íslandi 1907-2007. Það var í raun ekki fyrr en í kjölfar þessa sem byrjað var að vinna skipulega gegn eyðingunni. Sú barátta átti verulega undir högg að sækja og naut síður en svo einskoraðs stuðnings meðal landsmanna eða alþingismanna. En vegna elju örfárra einstaklinga tókst að draga úr tjóni af völdum eyðingaraflanna. Og þrátt fyrir að síðan skipulagt landgræðslustarf hófst með lagasetningu 1907 hafi ógrynni af verðmætum jarðvegi tapast af landinu, þá er nú svo komið rúmum 100 árum síðar, að sandfok ógnar ekki lengur byggð í landinu og meira land grær en eyðist. Það er samt svo að á stórum svæðum sjáum við merki eyðingarinnar og langt í að vistkerfi geti þrifist og nái aftur eðlilegri starfsemi. Þar spilar saman að náttúran er síður en svo fyrirsjáanleg og landnýting er víða enn ekki í samræmi við ástand lands.

Ríkisstjórnin sem nú situr hefur sett málefni lands á dagskrá svo um munar. Þar eru loftslagsmál og náttúruvernd efst á lista. Hvað loftslagsmálin varðar þá eru þau órjúfanleg frá því hvernig við ráðstöfum landi og nýtum það. Eyðingin sem landið hefur þurft að þola hefur leitt til losunar á gríðarlegu magni af kolefni út í andrúmsloftið, verðmætu kolefni sem er forsenda frjósemi jarðvegs. Þess vegna er svo brýnt að við stöðvum slíka losun eins fljótt og auðið er.

Náttúruvernd er órjúfanleg viðfangsefnum landgræðslu og á næstu árum verður lögð mikil áhersla á að tryggja sjálfbæra nýtingu lands, hvort sem það er að hálfu ferðaþjónustu eða landbúnaðar, með bættri stýringu, aukinni þekkingu og eftirliti. Friðlýsing mikilvægra vistgerða og búsvæða og stofnun miðhálendisþjóðgarðs eru risastór verkefni framundan.

Ég hyggst leggja frumvarp fyrir Alþingi um gróður- og jarðvegsvernd til að leysa af 50 ára gömul lög. Þau lög voru sett fyrir tilkomu og gildistöku fjölda alþjóðasamninga á sviði umhverfismála. Þau munu kallast á við lög um náttúruvernd og lög um skógrækt til að tryggja samfellu í löggjöf hvað þessi mál varðar. Unnið er að þessu í ráðuneytinu nú. Verði þetta frumvarp að lögum mun það skilgreina betur þau víðtæku markmið sem landgræðsla getur stuðlað að og búa til farveg fyrir stefnumótun til að ná þeim markmiðum. Þetta er kannski það sem hefur helst vantað í landgræðslustarfinu, að stefna ríkisins sé skýr þannig að allir gangi í takt.

Það er unnið mjög gott starf innan Landgræðslunnar. Komið hefur verið á góðu samstarfi við bændur og aðra landeigendur sem þarf að þróa frekar. Í samstarfi við landbúnaðinn er unnið að kortlagningu gróðurauðlindar landsins sem mun gera alla umræðu um sjálfbærni nýtingar markvissari en verið hefur. Þetta er mikilvægt og framsækið starf. Við þurfum að vinna markvissar að því að taka út svæði sem eru illa farin og skipuleggja aðgerðir þeim til heilla. Landsáætlanir eru mikilvægar í því samhengi.

Öflugur mannauður stofnunarinnar gerir kleift að vinna markvisst í viðfangsefnunum, hvort sem það er að rækta og viðhalda félagslegum tengslum við landnotendur, þróa ný afbrigði til uppgræðslu, fræða almenning eða mæla magn af sandi sem fýkur yfir línu á tilteknu tímabili. Mannauður stofnunarinnar mun skipta sköpum í þeim áskorunum og tækifærum sem framundan eru í loftslags- og náttúruverndarmálum.

Ég vék að því hér að ofan að ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á loftslagsmálin. Landgræðsla í víðum skilningi er lykilþáttur í því að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Með því að stöðva eyðingu gróðurs og jarðvegs, hvort sem það er rofið mólendi, framræst mýri eða gróðurtorfur á öræfum, náum við að varðveita dýrmætt kolefnið í jarðveginum og jafnframt viðhalda og endurheimta vistkerfi sem geyma fjölbreyttar tegundir. Því landgræðsla er líka gríðarlega mikilvæg við að efla og varðveita líffræðilega fjölbreytni á landi. Það mun verða leiðarstef í vegferð okkar til að ná kolefnishlutleysi, að huga þurfi að fleiri markmiðum samhliða bindingu kolefnis. Framundan er því stefnumótandi vinna við að forgangsraða verkefnum með þessi fjölbreyttu markmið í huga. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er gert ráð fyrir auknum framlögum til loftslagsmála og hluti þeirra mun ganga til kolefnisbindingar. Nú er því tækifæri til að skoða hvernig við skipuleggjum starfið, hvort unnið er með stór svæði eða lítil, hvernig við virkjum best fólk til þátttöku og hvernig við samþættum þau mörgu viðfangsefni og hagsmuni sem tengjast landnotkun.

Á dögunum var lögð fram verkefnaáætlun á landsvísu um innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Þetta eru ákveðin tímamót á vegferð okkar til að ná sjálfbærri nýtingu á áfangastöðum í náttúru landsins sem eru sumir hverjir undir miklu álagi vegna umferðar ferðamanna. Landgræðslan á aldeilis hlut í þessu máli því fáir aðilar hafa verið duglegri við að benda á mikilvægi þess að móttaka ferðamanna þurfi að byggja á góðu skipulagi og megi ekki valda skemmdum á náttúrunni. Þar hefur farið fremstur í flokki Andrés Arnalds, sem í gegnum tíðina hefur verið í fararbroddi þeirra sem sagt hafa okkur til syndanna og í kjölfarið hafa fleiri „viljað Lilju kveðið hafa“. Það er nefnilega ekki sama hvernig innviðir áfangastaða í náttúrunni eru byggðir, þeir þurfa að falla að náttúrunni, vera í samræmi við aðstæður s.s. úrkomu, jarðveg, halla lands o.s.frv. Þess vegna mun taka til starfa samstarfshópur stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og ráðuneytis ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar hvers hlutverk verður að auka fagmennsku á þessu sviði, auka samstarf og tryggja góða nýtingu þeirrar þekkingar sem við eigum. Höfum við ferðamálaráðherra tryggt 20 milljónir árlega til næstu þriggja ára sérstaklega til að vinna að faglegri hlið innviðauppbyggingarinnar.

Landgræðslan hefur fengið það hlutverk að annast endurheimt votlendis. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni sem fellur vel að því sem Landgræðslan hefur verið að gera. Enda er endurheimt votlendis jarðvegsvernd og endurheimt vistkerfa. Ég geri ráð fyrir að verkefni við endurheimt votlendis muni stóraukast á næstu árum og þar ætti samstarf við Votlendissjóðinn, sem mun leggjast á árar til að virkja landeigendur og einkaaðila til aðgerða, að geta orðið farsælt og komið okkur langan veg fram á við.

Mig langar að nefna nýsköpun hér því innkoma Landgræðslunnar í umræðu um fráveitumál í Mývatnssveit olli ákveðnum straumhvörfum í því máli. Nú er svo komið að áhugi á fráveitumálum og þeim verðmætum sem í frárennslinu liggja hefur aukist mikið, t.d. í tengslum við vinnslu metans sem gæti skilað okkur ávinningi í loftslagsmálunum. Þá ber okkur að huga að endurnýtingu fosfórs í mun meira mæli og vonast ég til að geta sett vinnu í gang við að kanna möguleika þess á komandi misserum.

Ég vil að lokum þakka Landgræðslunni og starfsfólki hennar fyrir óeigingjarnt starf í þágu landsins okkar og íslenskrar náttúru. Þar á ég góða félaga og ætlast til þess að þau veiti mér og ráðuneytinu aðhald í okkar störfum en hægi hvergi á í að móta nýjar hugmyndir um hvernig við getum unnið landinu okkar og framtíðinni sem mest gagn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum