Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. ágúst 2018 Forsætisráðuneytið

Heimsókn forsætisráðherra á Íslendingaslóðir í Kanada og Bandaríkjunum

Katrín Jakobsdóttir í Gimli - mynd

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, og eiginmaður hennar, Gunnar Sigvaldason, voru heiðursgestir á Íslendingahátíðum sem haldnar voru í Gimli í Manitoba og í Mountain í Norður-Dakóta 4. og 6. ágúst sl. Flutti forsætisráðherra ávarp á báðum hátíðum og tók þátt í hátíðahöldum þeim tengdum. Íslendingahátíð var nú haldin í 119. sinn í Mountain og í 129. sinn í Gimli.

Í ferð sinni heimsóttu þau Íslendingaslóðir í Gimli og Riverton, meðal annars Menningarsafnið Nýja Ísland í Gimli (New Iceland Heritage Museum) og dvalarheimilið Betel þar sem margir aldraðir afkomendur íslenskra Vesturfara búa. Forsætisráðherra heimsótti einnig Mannréttindasafnið í Winnipeg og Manitobaháskóla, þar sem hún skoðaði íslenska bókasafnið og kynnti sér íslenskudeild háskólans.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Það er merkilegt að kynnast af eigin raun hve mikla rækt afkomendur Íslendinga hér í Kanada og Bandaríkjunum leggja við þessa sögu og segja má að ummerki um íslenska landnema séu hér á hverju strái. En það er ekki síður mikilvægt að skynja hinn einlæga vilja til að rækta þessi samskipti til framtíðar og eiga meira samstarf á ýmsum sviðum menningar, stjórnmála og viðskipta.“

Í heimsókninni fundaði forsætisráðherra með Brian Pallister, forsætisráðherra Manitoba, Rochelle Squires, ráðherra Manitoba fyrir sjálfbæra þróun og málefni kvenna, Jeff Wharton, ráðherra sveitastjórnarmála Manitoba, James Bezan, fulltrúa Manitoba í kanadíska þinginu, og Myrnu Driedger, forseta lögjafaþings Manitoba. Einnig hitti hún þingmennina Derek Johnson og Len Isleifson sem eru af íslenskum ættum. Þá sat forsætisráðherra sérstakan hádegisverð í boði Janice C. Filmon, fylkisstjóra Manitoba, ásamt 14 konum sem getið hafa sér gott orð á ólíkum sviðum í Manitoba.

Ræða forsætisráðherra í Gimli.

Ræða forsætisráðherra í Mountain.

 

  • Heimsókn forsætisráðherra á Íslendingaslóðir í Kanada og Bandaríkjunum  - mynd úr myndasafni númer 1
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Janice C. Filmon, fylkisstjóri Manitoba. - mynd
  • Gunnar Sigvaldason og Katrín Jakobsdóttir - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum