Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. október 2018 Innviðaráðuneytið

Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2018

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fór fram miðvikudaginn 10. október síðastliðinn. Fundinn sóttu fulltrúar sveitarfélaga og samtaka þeirra auk gesta.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, ávarpaði fundinn í upphafi og færði kveðjur frá Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem á sama tíma mælti fyrir nýrri samgönguáætlun á Alþingi. Sagði hún regluverk sjóðsins hafa breyst í gegnum árin og honum hefðu verið falin sífellt aukin verkefni eftir því sem ný verkefni hafa verið færð frá ríki til sveitarfélaga. Mörgum finnist jöfnunarkerfið flókið og ógagnsætt og því gott markmið að vinna að því að einfalda regluverkið og auka yfirsýn. Þó skipti það mestu máli að reglurnar virki í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið. Þá var velt upp þeirri spurningu hvort sveitarfélögin séu of vel haldin í núverandi kerfi, hvort hvata vanti til hagræðingar og sameiningar og hvort tekjuhá sveitarfélög, sem ekki nýta tekjustofna sína, eigi að fá það bætt með framlögum úr sjóðnum.

Ragnhildur fjallaði um nýja hugsun í stefnumótun og benti á að virk stefnumótun væri forsenda framfara og borgurum, fyrirtækjum og stofnunum nauðsynleg. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu er löng hefð fyrir stefnumótun og áætlanagerð s.s. með samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun. Þessar áætlanir hafi lifað sjálfstæðu lífi – án mikilla tengsla hver við aðra. Benti Ragnhildur á að þessu væri verið að breyta og þegar hafi verið mótuð sameiginleg framtíðarsýn, markmið og árangursmat. Ný hugsun í stefnumótun ráðuneytisins er hafin.

Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, greindi frá helstu atriðum í starfsemi sjóðsins á árinu 2017 og fór yfir reikninga sjóðsins. Kom þar fram að tekjur Jöfnunarsjóðs á síðasta ári hafi numið alls 44,5 milljörðum króna og framlög úr sjóðnum 45,3 milljörðum króna.

Þá kynnti Hrafnkell Hjörleifsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, vefsvæði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem opnað var í vor. Vefsvæðið veitir á gagnvirkan hátt aðgang að tölfræðiupplýsingum um framlög sjóðsins. Þar er hægt að skoða og bera saman framlög sjóðsins eftir landsvæðum og sveitarfélögum aftur til ársins 2013. Er vefsvæðinu ætlað að gera framlögum Jöfnunarsjóðs skil á aðgengilegri máta en áður og auðvelda notendum að gera samanburð og afla sér greinargóðra upplýsinga um málaflokkinn.

Að lokum fjallaði Hrafnkell um nýja reglugerð nr. 460/2018 um Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Úthlutun framlaga úr sjóðnum til sveitarfélaga til uppbyggingar eða breytinga á fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk fer eftir ákvæðum hennar. Samkvæmt reglugerðinni er heimilt að úthluta framlögum til fjármögnunar á hlutdeild í stofnframlagi til byggingar búsetukjarna fyrir fatlaða íbúa, til jöfnunar á íþyngjandi kostnaði vegna langtímaleigusamninga um húsnæði fyrir fatlað fólk, til stuðnings við nauðsynlegar endurbætur á eldra íbúðarhúsnæði fatlaðs fólks, til byggingar hæfingarstöðva og til annarra sérstakra undantekningartilvika sem talin eru falla að hlutverki sjóðsins en falla þó ekki undir áðurnefnd verkefni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum