Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. mars 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Kría hefur sig til flugs: Þórdís Kolbrún skipar fyrstu stjórn Kríu

Þórdís Kolbrún kynnir Kríu á Tækni og hugverkaþingi 2019 - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skipað fyrstu stjórn Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs og sett reglugerð svo sjóðurinn geti hafið störf.

Stjórnin er skipuð til næstu fjögurra ára. Markmiðið með starfsemi Kríu er að færa fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja hér á landi í meira samræmi við umhverfið erlendis og efla þannig samkeppnishæfni íslenskra sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.

„Ég er stolt og glöð með að Kría hefur nú hafið sig til flugs. Kría verður til þess að þroska fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi, líkt og sambærilegir sjóðir erlendis hafa gert. Ég er viss um að Kría muni stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins. Nú þegar má sjá merki um að nýsköpunarumhverfið sé að taka komu Kríu fagnandi þó endanleg áhrif muni ekki koma i ljós fyrr en eftir nokkur ár. Ég óska fyrstu stjórn Kríu velfarnaðar og hlakka til að fylgjast með Kríu hjálpa nýsköpunarumhverfinu að vaxa og dafna enn frekar,“ segir Þórdís Kolbrún.

Stjórnina skipa þau:

Ari Helgason, fjárfestir

Eva Halldórsdóttir, lögmaður

Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður ráðherra

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stofnandi Northstack og ráðgjafi, formaður stjórnar

Pétur Már Halldórsson, forstjóri Nox Medical

Ráðherra undirritar reglugerð um skilyrði vísisjóða

Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður var stofnaður með lögum nr. 65/2020. Sjóðurinn er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hlutverk Kríu er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds) sem sjálfir fjárfesta í nýskapandi sprotafyrirtækjum. Tilgangur með stofnun Kríu er að efla fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og er liður í stefnumótun stjórnvalda í málefnum nýsköpunar og í samræmi við Nýsköpunarstefnu.

Í reglugerð ráðherra er kveðið með ítarlegum hætti á um þau skilyrði sem vísisjóðir þurfi að uppfylla svo Kría geti fjárfest og tekið þátt í þeim til móts við einkafjárfestingar.

Í fjármálaáætlun næstu 5 ára er samtals gert ráð fyrir um 8 milljörðum  til fjárfestinga Kríu.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun halda utan um umsýslu Kríu samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Undirbúningur Kríu

Stofnun Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs má rekja til Nýsköpunarstefnu til ársins 2030 sem gefin var út árið 2019. Þar kemur fram að stefnt skuli að því markmiði að hér á landi verði þroskað umhverfi nýsköpunarfjárfestinga og að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki hafi aðgang að sérhæfðum fjárfestingarsjóðum fyrir nýsköpun á sprotastigi og fyrstu stigum vaxtar.

Þórdís Kolbrún kynnti Kríu á Tækni- og hugverkaþingi 2019 og varð sjóðurinn að lögum 2020. Reglugerðin var til samráðs í Samráðsgátt stjórnvalda í nóvember. Eftir ábendingar sem bárust í samráðinu var ákveðið að gera fáeinar breytingar á reglugerðinni og þá aðallega að einfalda skilgreiningu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.

Stuðnings – Kría var tímabundið úrræði stjórnvalda til að bregðast við heimsfaraldri COVID-19, þar sem stjórnvöld buðu tímabundið mótframlag til fjárfestinga í lífvænlegum sprotafyrirtækjum.

Reglugerðin öðlast gildi eftir birtingu í Stjórnartíðindum.

Stuðnings - Kría styður við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum