Hoppa yfir valmynd
12.03.2019 13:52 Félagsmálaráðuneytið

Þörf á opinberum viðmiðum um skólasókn

Könnun Velferðarvaktarinnar um skólasókn lauk í febrúar, en hún sneri meðal annars að skólaforðun í grunnskólum landsins. Tilgangur hennar var að afla upplýsinga frá skólastjórnendum sem geta nýst við stefnumótun í málefnum barna. Markmiðið er að tryggja sem flestum börnum farsæla skólagöngu og sporna gegn brotthvarfi úr skóla.

Á meðal helstu niðurstaðna er að leyfisóskir vegna grunnskólanema hafa aukist mikið og telur stór hluti skólastjórnenda að foreldrar/forsjáraðilar hafi of rúmar heimildir til að fá leyfi frá skólasókn fyrir börnin sín. Velferðarvaktin leggur til að sett verði af stað vinna sem miðar að því að setja opinber viðmið um skólasókn á Íslandi og/eða auka heimildir skólastjórnenda til að hafna leyfisóskum foreldra/forsjáraðila.

Könnunin sýnir einnig að um 1.000 skólabörn glíma við skólaforðun. Leggur Velferðarvaktin til að sett verði af stað vinna við að fyrirbyggja skólaforðun og koma til móts við börn sem glíma við hana. Einnig að fjarvistaskráningar verði samræmdar um landið svo unnt verði að fylgjast með umfangi skólaforðunar á hverjum tíma.

Áður hefur Velferðarvaktin lagt fram tillögur til að sporna gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum, en beinir nú augum sínum að grunnskólanum. Rannsóknarfyrirtækið Maskína sá um framkvæmd könnunarinnar. Haft var samband við skólastjóra í öllum 172 grunnskólum landsins frá 18. janúar til 11. febrúar. Af þeim svöruðu 135 sem er 78,5% svarhlutfall.

Tvíþætt könnun

Könnunin var tvíþætt og sneri annarsvegar að skólasókn tengda fríum innanlands og erlendis og hins vegar að skólasókn tengda skólaforðun, sem er þegar barn forðast að sækja skóla vegna tilfinningalegra erfiðleika, til að forðast aðstæður, til að fá athygli frá fjölskyldu eða öðrum í umhverfi sínu eða vegna þess að aðrir staðir eru áhugaverðari. Niðurstöður eru ekki greinanlegar niður á einstaka skóla, en staðsetning skóla er greind ef svarendur voru 4 eða fleiri.

Aukin frí koma niður á námi barna

Helstu niðurstöður eru að um 79% skólastjórnenda segja að leyfisóskum foreldra/forsjáraðila vegna fría innanlands og erlendis á skólatíma hefur fjölgað á síðustu árum. Ríflega helmingur þeirra segir að leyfisóskir hafa aukist mikið. Um 47% skólastjórnenda telja að fjarvera þessara nemenda komi mjög mikið eða fremur mikið niður á námi þeirra.

Of rúmar heimildir foreldra

Rúm 74% skólastjórnenda telja að foreldrar/forsjáraðilar hafi of rúmar heimildir til að fá leyfi frá skólasókn fyrir börn sín og eru um 79% þeirra mjög eða fremur hlynntir því að sett verði opinber viðmið, t.d. fjöldi daga, um leyfisveitingar vegna fría á skólatíma. Um 48% segjast því mjög hlynntir. Yfir 90% skólanna hafa ekki sett sér slík viðmið og 78% skólanna hefur aldrei  hafnað því að gefa nemendum leyfi frá skólasókn á skólatíma vegna fría.

Andleg vanlíðan helsta orsök skólaforðunar

Samkvæmt könnuninni má gera ráð fyrir að um 1.000 grunnskólanemar á Íslandi glími við skólaforðun, þ.e. 2,2%. Helsta ástæðan er andleg vanlíðan eins og kvíði og þunglyndi, sem er nefnd hjá um 76% skólastjórnenda og erfiðar aðstæður á heimili sem eru nefndar hjá um 29%.

Hjá rúm 83% skólanna eru til viðmið eða verklag sem gripið er til að hálfu skólans þegar upp koma tilvik um skólaforðun. Þeir aðilar sem skólinn hefur þá samvinnu við eru m.a. foreldrar/forsjáraðilar, barnið sjálft, barnavernd, félagsþjónustan, heilsugæslan og BUGL og gripið er til úrræða á borð við umfjöllun í nemendaráði og viðtöl barns hjá námsráðgjafa, umsjónarkennara, sálfræðingi eða hjúkrunarfræðingi. Tæp 70% skólastjórnenda telja það mjög eða fremur mikilvægt að samræma fjarvistaskráningu um allt land svo mögulegt verði að meta umfang skólaforðunar á Íslandi.

Tillögur Velferðarvaktar

Velferðarvaktin telur að farsæl skólaganga bæti stöðu þeirra sem hennar njóta og sé grundvöllur að góðum lífsgæðum. Í ljósi niðurstaðna könnunarinnar leggur Velferðarvaktin til að:

  • sett verði af stað vinna sem miði að því að setja opinber viðmið um skólasókn á Íslandi og/eða auka heimildir skólastjórnenda til að hafna leyfisóskum foreldra/forsjáraðila. Í því sambandi má líta til reglna sem nágrannalönd okkar hafa sett
  • ýtt verði undir viðhorfsbreytingu meðal foreldra/forsjáraðila um að borin sé virðing fyrir skólasókn barna
  • sett verði af stað vinna með það að markmiði að fyrirbyggja skólaforðun og koma til móts við þau börn sem glíma við hana með auknum beinum stuðningi, úrræðum og forvörnum innan skólanna í samstarfi skóla- heilbrigðis- og félagsþjónustu
  • sett verði af stað vinna við að samræma fjarvistaskráningu um allt land svo fylgjast megi meðumfangi skólaforðunar á hverjum tíma

Lagt er til að Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra setji af stað formlegan starfshóp sem fjalli um ofangreindar tillögur.

Starfshópurinn verði í góðu samstarfi við m.a. Umboðsmann barna, Skólastjórafélag Íslands, Kennarasamband Íslands, heilsugæsluna, Embætti landlæknis, Barnaverndarstofu og frjáls félagasamtök sem koma að málefnum barna og skólanna s.s. Heimili og skóli, Barnaheill, UNICEF og fleiri.

Málþing 20. maí

Vakin er athygli á því að Samband íslenskra sveitarfélaga, í samstarfi við Velferðarvaktina og Umboðsmann barna, mun standa fyrir málþingi um skólasókn og skólaforðun á Grand hóteli mánudaginn 20. maí nk. frá kl. 8:30-12:00. Á málþinginu verður gerð grein fyrir niðurstöðum könnunar Velferðarvaktarinnar meðal skólastjórnenda á umfangi og ástæðum fjarvista nemenda úr grunnskólum og möguleikum til þess að bregðast við þeim. Í erindum verða málin skoðuð m.a. út frá sjónarhóli skólayfirvalda, barnaverndar og foreldra/forsjáraðila með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.


Velferðarvaktin var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Hún er óháður greiningar- og álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunasamtaka og fylgir þeim eftir. Að velferðarvaktinni standa samtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin.

  • Birgir Rafn Baldursson frá Maskínu kynnti helstu niðurstöður
  • Frá fundi Velferðarvaktarinnar í morgun.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira