Hoppa yfir valmynd
03.03.2020 11:05 Félagsmálaráðuneytið

Velferðarvaktin - Jafnt aðgengi að námi og bætt þjónusta

Í dag kynnti Velferðarvaktin niðurstöður tveggja kannana sem rannsóknarfyrirtækið Maskína framkvæmdi að hennar beiðni í árslok 2019. Sú fyrri fólst í  vefumræðuborði þar sem 86 nemendur á fyrsta ári í framhaldsskóla svöruðu spurningum og tóku þátt í umræðum. Sú seinni var spurningakönnun sem lögð var fyrir skólameistara framhaldsskólana og var svarhlutfall 96,7%.

Kannanir meðal fyrsta árs nema og skólameistara framhaldsskóla

Kannanirnar fjölluðu m.a. um hvernig var að hefja námið, andlega líðan, námskostnað, vinnu meðfram námi, stuðning foreldra við nám, rafræn námsgögn, móttökuáætlanir fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, heimanám og styttingu framhaldsskólans. Gefa kannanirnar vísbendingar um þær áskoranir sem lúta að nemendum á framhaldsskólastigi. 

Tillögur Velferðarvaktar

Velferðarvaktin er einhuga um að menntun sé ein undirstaða góðra lífskjara. Mikilvægt er að öllum börnum og ungmennum séu tryggð tækifæri til farsællar skólagöngu og að spornað sé gegn brotthvarfi.  Því þarf að tryggja jafnt aðgengi að námi óháð efnahag, búsetu og öðrum aðstæðum. Velferðarvaktin samþykkti á fundi sínum í dag að leggja eftirfarandi til við stjórnvöld:

1. Aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu og félagsráðgjöf verði bætt

  • Gerð verði breyting á lögum um framhaldsskóla og samsvarandi reglugerð sett sem skilgreini skólaþjónustu á framhaldsskólastigi í samræmi við reglugerð um skólaþjónustu leik- og grunnskóla.
  • Framhaldsskólar vinni markvisst að því að efla foreldrastarf og skólatengsl s.s. með reglulegu sambandi og viðtölum við nemendur og foreldra.
  • Geðheilbrigðisþjónusta við framhaldsskólanema verði efld enn frekar með greiðara aðgengi að sálfræðingum, þeim að kostnaðarlausu.
  • Aðgengi að félagsráðgjöf innan skólanna verði aukið til að koma til móts við félagslega stöðu nemenda.
  • Forvarnir og heilsuefling verði efld og brugðist strax við með heildrænum hætti ef vart verður við vanda nemanda.

2. Stefnt verði að lækkun námsgagnakostnaðar nema í framhaldsskólum í skrefum

  • Stjórnvöld geri áætlun um að lækka námsgagnakostnað nemenda sem stunda nám í opinberum framhaldsskólum og taki þannig Norðurlöndin sér til fyrirmyndar.
  • Hlutfall rafrænna námsgagna í framhaldsskólum verði aukið til að ná fram betri gæðum námsgagna og draga úr kostnaði.

3. Komið verði betur til móts við nemendur sem bera aukakostnað vegna búsetu fjarri skóla

  • Nemendur eiga kost á að fá styrk vegna búsetu fjarri skóla samkvæmt lögum um námsstyrki nr. 79/2003. Stjórnvöld eru hvött til að finna leiðir til að koma enn betur tilmóts við þá nemendur sem stunda framhaldsskólanám fjarri heimabyggð og bera aukakostnað vegna samgangna og dvalar á heimavist.

4. Þjónusta við nemendur með annað móðurmál en íslensku verði efld

  • Framhaldsskólar útbúimóttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Þrátt fyrir að margir framhaldsskólar séu með móttökuáætlanir er mikilvægt að skerpa á því að hún sé kynntmarkvisst og sé vel aðgengileg á heimasíðum skólanna. Móttökuáætlanir verði einnig aðgengilegar á ensku og/eða pólsku og fleiri tungumálum eftir þörfum.
  • Framhaldsskólar tryggi að allir nemendur með annað móðurmál en íslensku fái einstaklingsnámskrá samkvæmt reglugerð nr.654/2009 um rétt nemenda til kennslu í íslensku.“

Að loknum fundi sagði Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, að menntun væri ein undirstaða góðra lífskjara:

„Velferðarvaktin leggur áherslu á þessi mál. Markmiðið er að tryggja jafnt aðgengi að námi óháð efnahag og öðrum aðstæðum. Til að ná því markmiði leggjum við til að námsgagnakostnaður í framhaldsskólum verði lækkaður í skrefum. Við viljum fara sömu leið og hin norrænu ríkin, sem tryggja aðgengi fyrir alla, líka þá efnaminni. Þar eru námsgögn  gjaldfrjáls. Við viljum einnig sjá bætt aðgengi að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf og bregðast þannig betur við vaxandi einkennum andlegrar vanlíðan nemenda, sem er okkur mikið áhyggjuefni. Það er vissulega búið að taka jákvæð skref í þessum efnum, en meira þarf til.“

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira