Hoppa yfir valmynd
27.02.2024 Innviðaráðuneytið

Innviðaráðherra undirritar samkomulag um stuðning við stjórnsýslu og fjárhag Grindavíkurbæjar

Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra við undirritun samkomulagsins - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, undirrituðu fyrr í dag samkomulag um stuðning við stjórnsýslu og fjárhag Grindavíkurbæjar. Íbúar og bæjarstjórn Grindavíkur takast nú á við fordæmalausar aðstæður sem munu á næstu mánuðum reyna mjög á getu sveitarfélagsins til að sinna skyldum sínum á sviði stjórnsýslu, fjármála og lögbundinna verkefna þess. Áður en jarðhræringar nærri Grindavík hófust stóð rekstur Grindavíkurbæjar traustum fótum og skilaði góðum afgangi á sama tíma og skuldir sveitarfélagsins eru óverulegar. Nú er svo komið að ástand mikilvægra innviða í sveitarfélaginu er slæmt og ljóst að það verður bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að koma þeim í nægilega gott lag. Þá eru mannvirki í eigu bæjarins sum mjög illa farin eða ónýt og mun það kosta tíma og fjármuni að tryggja að grunnþjónusta geti aftur farið fram í bænum. Á sama tíma er rekstrarhæfi sveitarfélagsins ógnað vegna fyrirsjáanlegs tekjufalls.

Markmið samkomulagsins er að styðja við stjórnsýslu og fjárhagsmálefni Grindavíkurbæjar, leggja mat á rekstrarhæfi sveitarfélagsins og stuðla að því að teknar verði upplýstar ákvarðanir um aðgerðir til að aðlaga rekstur sveitarfélagsins að gjörbreyttum aðstæðum í kjölfar náttúruhamfara. Með þessu móti leitast ráðuneytið við að styðja við getu sveitarfélagsins til að sinna fjölþættum lögbundnum skyldum sem á því hvíla.

Þá þarf að huga að samstarfi sveitarfélagsins við önnur stjórnvöld, meðal annars á sviði almannavarna meðan á þeim atburðum stendur sem nú ganga yfir. Sveitarstjórn mun vinna náið með almannavörnum og öðrum stjórnvöldum að framgangi þeirra aðgerða sem þar kunna að verða lagðar til.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum