Hoppa yfir valmynd

Skil leiguhúsnæðis, úttekt, leigumiðlun og skattlagning leigutekna

Skil leiguhúsnæðis

Leigjandi skal skila leiguhúsnæði að leigutíma loknum í sama ástandi og hann tók við því. Leigjandi ber óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun þess og spjöllum á því að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafar af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi.

Leigusali þarf að lýsa bótakröfu sinni á hendur leigjanda skriflega, eða hafa uppi áskilnað þar að lútandi, innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðis. Ef ágallarnir voru ekki sýnilegir við skil húsnæðisins skal þeim lýst með sama hætti innan fjögurra vikna frá því að þeirra varð vart. Sé þessara tímamarka ekki gætt fellur bótaréttur leigusala niður nema leigjandi hafi haft svik í frammi.

Ef leigusali og leigjandi koma sér ekki saman um bótafjárhæð vegna skemmda skal úttektaraðili meta tjónið. Hvorum aðila er þó rétt að krefjast mats dómkvaddra manna á bótafjárhæðinni innan átta vikna frá því að aðila var kunn niðurstaða úttektaraðilans.

Fjallað er um skil leiguhúsnæðis í XIII. kafla húsaleigulaga.

Úttekt leiguhúsnæðis

Leigjanda og leigusala eða umboðsmönnum þeirra er skylt gera úttekt á ástandi hins leigða húsnæðis áður en afhending fer fram og við lok leigutíma. Óháður úttektaraðili skal annast úttektina óski annar aðilinn þess og skiptist kostnaðurinn við úttektina þá að jöfnu milli þeirra.

Sé óskað úttektar úttektaraðila á ástandi hins leigða húsnæðis í öðrum tilvikum skal sá aðili sem óskar hennar greiða kostnaðinn vegna úttektarinnar. Leigjanda og leigusala er þó ávallt heimilt að semja um aðra kostnaðarskiptingu vegna úttektarinnar.

Leigjandi og leigusali skulu koma sér saman um úttektaraðila. Komi upp ágreiningur milli aðila geta aðilar vísað honum til kærunefndar húsamála.

Úttektaryfirlýsing skal gerð í þríriti og skulu aðilar leigusamnings og úttektaraðili undirrita hana og halda einu eintaki hver. Úttekt skal leggja til grundvallar ef ágreiningur verður um bótaskyldu leigjanda við skil húsnæðisins.

Fjallað er um úttekt leiguhúsnæðis í XIV. kafla húsaleigulaga.

Leigumiðlun

Þeim einum er heimilt að reka leigumiðlun sem hlotið hafa leyfi félags- og húsnæðismálaráðherra. Fjallað er um leigumiðlun í XV. kafla húsaleigulaga.

Skattlagning leigutekna

Tekjuskattlagning húsaleigutekna hjá einstaklingum fer samkvæmt reglum um fjármagnstekjuskatt.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Ríkisskattstjóra, www.skatturinn.is.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum