Hoppa yfir valmynd

Stofnun félaga sem byggja og reka leiguíbúðir

Samkvæmt VIII. kafla laga um húsnæðismál nr. 44/1998 þá geta félög (þ.m.t. félagasamtök og sveitarfélög) er hafa þann tilgang að byggja, eiga og reka leiguíbúðir fengið lán til fjármögnunar íbúðakaupum. Áður en félögin eru skráð og hefja starfsemi sína þurfa félögin og samþykktir þeirra að hafa hlotið staðfestingu félagsmálaráðherra, sbr. 33. gr. laganna. Ákvæði samþykkta félagsins og rekstur þess þarf að vera í samræmi við VIII. kafla laga um húsnæðismál nr. 44/1998, reglugerð um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, nr. 873/2001, og VIII. kafla reglugerðar um lánaflokka Íbúðalánasjóðs nr. 57/2009.

Í ráðuneytinu hafa verið unnar fyrirmyndir að samþykktum einkahlutafélags sveitarfélags sem stefnir að byggingu, eigu og útleigu íbúðarhúsnæðis og samþykktum einkahlutafélags félags eða félagasamtaka sem stefna að byggingu, eigu og útleigu íbúðarhúsnæðis, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998. Síðarnefnda fyrirmyndin tekur til hlutafélags sem er í sameign sveitarfélags og fyrirtækja í viðkomandi sveitarfélagi.

Haustið 2001 fór fram endurskoðun á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, nr. 458/1999, og eldri reglugerðar um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur. Tilgangurinn var að aðskilja lánveitingar til leiguíbúða í lánveitingar til almennra leiguíbúða (lánaflokkargl., nr. 458/1999) og lánveitingar til félagslegra leiguíbúða (leiguíbúðargl., nr. 873/2001). Sérstaka tímabundna leiguíbúðaátakið fellur undir almennar leiguíbúðir (nú 40. gr. lánaflokkareglugerðarinnar). Í fyrirmyndunum er gert ráð fyrir blönduðum félögum, þ.e. bæði almennar leiguíbúðir og félagslegar leiguíbúðir. Ef ákveðið er að félögin verði eingöngu með almennar leiguíbúðir þá er nú heimilt að sleppa alveg efni I. hluta fyrirmyndanna (umfjöllun um félagslegar leiguíbúðir).

Hugmyndin með gerð þessara fyrirmynda fyrir gerð samþykkta er að umrædd félög fylgi þeim til að tryggja að tilskilin ákvæði komi fram í samþykktum þeirra og nauðsynlegs samræmis sé fylgt. Einnig ætti það að fækka athugasemdum við yfirferð innsendra samþykkta og flýta þannig fyrir staðfestingu þeirra.

Í 2. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998 er talið upp hvers konar félög er hægt að stofna um rekstur leiguhúsnæðis, en það eru samvinnufélög, hlutafélög, einkahlutafélög, sjálfseignastofnanir eða félög með ótakmarkaða ábyrgð. Hér er einungis sett fram sem dæmi samþykkt fyrir einkahlutafélög. Hægt er að nota meginefni þessarar fyrirmyndar við önnur rekstrarform að því undanskildu er varðar sérstaklega sjálft rekstrarformið.

Hægt er að nálgast fyrirmyndirnar hér að neðan:

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum