Hoppa yfir valmynd

Uppsögn og riftun

Uppsögn

Um lok leigusamnings, uppsögn o.fl. er fjallað í XI. kafla húsaleigulaga.

Tímabundinn leigusamningur

Tímabundnum leigusamningi lýkur á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila.

Tímabundnum leigusamningi verður ekki slitið með uppsögn á umsömdum leigutíma.

Einungis er hægt að segja upp tímabundnum leigusamningi á grundvelli sérstrakra forsendna, atvika eða aðstæðna enda sé ekki fjallað um viðkomandi forsendur, atvik eða aðstæður í húsaleigulögum og skulu þau tilgreind í leigusamningnum. Þá er leigusala sem er lögaðili sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni heimilt að segja upp tímabundnum leigusamningi með þriggja mánaða uppsagnarfresti þegar leigjandi uppfyllir ekki lengur lögmæt og málefnaleg skilyrði leigusala fyrir leigu á húsnæði sem tilgreind eru í leigusamningi eða veitir ekki nauðsynlegar upplýsingar svo unnt sé að staðreyna hvort hann uppfylli skilyrðin. Uppsögn tímabundins leigusamnings skal vera skrifleg og rökstudd og skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera a.m.k. þrír mánuðir.

Ótímabundinn leigusamningur

Báðum aðilum ótímabundins leigusamnings er heimilt að segja honum upp. Uppsögnin skal vera skrifleg og send með sannanlegum hætti. Sé þess gætt þá hefur uppsögnin þá þýðingu og þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa, jafnvel þótt hún komi afbökuð, of seint eða alls ekki til viðtakanda.

Uppsagnarfresturinn hefst fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send og skal leigjandi hafa lokið rýmingu og frágangi hins leigða eigi síðar en kl. 13.00 næsta dag eftir að uppsagnarfresti lauk. Lengd uppsagnarfrests miðast við þann tíma sem liðinn er þegar uppsögn er send.

Lengt uppsagnarfrestsins er mismunandi eftir tegund leiguhúsnæðis og lengd leigutímans.

Uppsagnarfrestur ótímabundins leigusamnings er:

  1. Einn mánuður af hálfu beggja á geymsluskúrum og þess háttar húsnæði til hvers sem það er notað.
  2. Þrír mánuðir af beggja hálfu á einstökum herbergjum.
  3. Sex mánuðir af hálfu beggja á íbúðum, en íbúð telst hvert það húsnæði þar sem fjölskylda getur haft venjulega heimilisaðstöðu. Hafi leigjandi haft íbúð á leigu lengur en tólf mánuði er uppsagnarfresturinn af hálfu leigusala tólf mánuðir sé um að ræða leigusala sem er lögaðili sem í atvinnuskyni leigir út viðkomandi íbúðarhúsnæði.
  4. Sex mánuðir af hálfu beggja á atvinnuhúsæði fyrstu fimm ár leigutímans, níu mánuðir næstu fimm ár og síðan eitt ár eftir tíu ára leigutíma.

Húsnæði hagnýtt áfram

Ef átta vikur líða frá því að leigutíma lauk samkvæmt uppsögn ótímabundins leigusamnings eða ákvæðum tímabundins leigusamnings en leigjandi heldur áfram að hagnýta hið leigða húsnæði og efna leigusamninginn framlengist leigusamningurinn ótímabundið enda hafi leigusali ekki skorað á hann að rýma húsnæðið eftir að leigutíma var lokið.

Riftun

Heimildir til riftunar er að finna í XII. kafla húsaleigulaga.

Réttindi og skyldur leigusala og leigjanda samkvæmt leigusamningi falla niður frá dagsetningu riftunar og skal leigjandi rýma leiguhúsnæðið þegar í stað nema aðilar semji um annað og skal leigusali þá eiga rétt á greiðslu leigu vegna þess tíma sem líður frá riftun og þar til leigjandi hefur rýmt leiguhúsnæðið samkvæmt samkomulaginu.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum