Hoppa yfir valmynd

Ráðningar stjórnenda hjá ríkinu

Í samræmi við aðgerðir í stjórnendastefnu ríkisins hefur verð útbúið samræmt verklag við ráðningar stjórnenda hjá ríkinu. Um er að ræða verklag sem nýtist ráðuneytum og öðrum sem hafa umsjón með ráðningum stjórnenda. Verklagið er í reglulegri endurskoðun og uppfærslu í takt við reynslu og árangur.  

Markmið

Markmið

Markmið vandaðs ráðningaferlis er að ráða alltaf hæfasta einstaklinginn til starfa. Jafnframt að ríkið og stofnanir þess hafi á að skipa öflugum og hæfum stjórnendum til að takast á við þær áskoranir sem starfið felur sér.

Tímasetningar

Tímasetningar

Tímasetningar eru mikilvægar til að tryggja eðlilega framvindu í ráðningaferlinu bæði fyrir þann embættismann sem fyrir er og ekki síður fyrir þá sem hyggjast sækja um lausar stjórnendastöður.

Gagnsæi

Gagnsæi

Ákveðin umgjörð er sett í kringum allar ráðningar hjá ríkinu til að tryggja gagnsæi og vönduð vinnubrögð. Á sama tíma þarf að huga að persónuvernd umsækjenda svo það verði áfram eftirsóknarvert að sækja um stjórnendastörf hjá ríkinu.

1. Stjórnendastarf losnar og ákvörðun um auglýsingu er tekin

Mikilvægt er að skoða hvort enn sé þörf á sömu hæfni og áður eða hvort kröfur starfsins til stjórnenda hafi breyst. Fara þarf  vel í gegnum stöðuna sem losnar og skilgreina nauðsynlegar hæfniskröfur  til  framtíðar. Móta þarf nýtt erindisbréf á grundvelli umræddrar greiningar og hæfniskrafna sem skilgreindar eru í stjórnendastefnu ríkisins.

2. Auglýsing starfs útbúin

Settar eru fram í auglýsingu þær hæfniskröfur sem ofangreind starfsgreining leiddi í ljós og eru í samræmi við áherslur ráðherra. Stjórnendastefna og kjörmynd þar sem skilgreindar eru hæfniskröfur til stjórnenda ríkisins skal ávallt lögð til grundvallar.

3. Auglýsing samþykkt

Ráðherra og viðkomandi aðilar innan ráðuneytis samþykkja inntak auglýsingar eftir því sem við á.

4. Birting auglýsingar

5. Valferli

Allt ferli er varðar val á hæfasta umsækjandanum þarf að vera samræmt og samkvæmt vönduðum stjórnsýsluháttum, óháð því hvort valnefnd sé skipuð eða valferlið sé alfarið innan ráðuneytis. Skylt er að skipa hæfnisnefndir ef skipa á ráðuneytisstjóra eða skrifstofustjóra en metið er hverju sinni í tilfelli forstöðumanna hvort skipa eigi valnefnd. Í gildi eru reglur um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um störf forstöðumanna.

6. Ráðningaáætlun

Mikilvægt er að hæfnisnefnd setji sér ráðningaáætlun um ráðningaferlið. Til grundvallar slíkri áætlun eru þeir þættir sem leiða má af auglýsingu um starfið, þeim reglum sem um það gilda og öðrum málefnalegum sjónarmiðum. Þegar ráðningaáætlun er tilbúin er hún borin undir ráðherra og ráðuneytisstjóra.

7. Matsviðmið

Matsviðmið eru búin til út frá kröfum í auglýsingu ásamt vægi viðmiða og skilgreininga og borin undir ráðherra og ráðuneytisstjóra.

8. Hæfi

Þegar umsóknarfresti lýkur eru nöfn umsækjenda tekin saman og kynnt ráðherra sem metur hæfi sitt. Hæfi þarf einnig að meta fyrir  aðra sem koma að valferlinu. Sjá nánar í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

9. Birting á nöfnum umsækjenda, sé þess óskað

Standi til að birta nöfn umsækjenda að eigin frumkvæði skal tilkynna viðkomandi aðilum um það. Upplýsa þarf umsækjendur um nafnabirtingu áður en þeir sækja um, samanber skref 2.

10. Val á umsækjendum í viðtal

Umsækjendur eru metnir út frá matsviðmiðum (skref 7). Valið er úr þeim hópi sem best uppfylla skilyrðin sem fram komu í auglýsingu og viðkomandi umsækjendum boðið í viðtal að undangengnu samþykki ráðherra eða fulltrúa hans.

11. Viðtal

Viðtalið skal byggt upp á þann hátt að það staðfesti þann árangur og þá reynslu sem fram kemur í umsóknargögnum og farið er fram á í auglýsingu. Viðtöl byggja á stöðluðum spurningum til að tryggja jafnræði allra umsækjenda. Einnig er mikilvægt að nýta viðtalið til að kanna persónulega færni, sem ekki er metin með reynslu.

12. Annað mat

Eftir fyrsta viðtal eru þeir aðilar sem best koma út valdir til að koma í annað viðtal eða mat eftir atvikum. Slíkt mat gæti t.d. byggt á kynningu, verkefni eða öðru sambærilegu mati.

13. Skýrsla til ráðherra

Skrifa skal skýrslu til ráðherra þar sem lagt er til hverjir koma helst til greina í starfið. Í skýrslunni skal koma fram ítarlegur rökstuðningur fyrir mati nefndar og hvaða gögn liggja til grundvallar á matinu.

14. Val ráðherra

Ráðherra tekur viðtöl við þá aðila sem mælt er með, kjósi hann það.

15. Ráðning

Ráðherra eða ráðuneytisstjóri hefur samband við þann sem talinn er hæfastur umsækjenda og býður viðkomandi starfið.

16. Samskipti

Tilkynna skal öðrum umsækjendum um skipun þegar valinn umsækjandi hefur þegið starfið. 

17. Frágangur gagna í Málaskrá

Vista skal gögn í Málaskrá ráðuneytisins.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum