Móttaka og stuðningur við nýja stjórnendur hjá ríkinu
Í samræmi við aðgerðir í stjórnendastefnu ríkisins hefur verið þróað verklag fyrir móttöku og stuðning við nýja stjórnendur hjá ríkinu. Um er að ræða leiðbeinandi verklag sem nýtist ráðuneytum og öðrum sem taka á móti nýjum stjórnendum ríkisstofnana. Verklagið er í reglulegri endurskoðun og uppfærslu.
Móttaka
Markmið vandaðs innleiðingarferlis er að byggja upp traust við nýja stjórnendur og skapa grunn fyrir framtíðarsamstarf.
Stuðningur
Markmið stuðnings við nýja stjórnendur er að stjórnandi geti eflt sig í stjórnendahlutverkinu á eigin forsendum. Því er stuðningurinn sniðinn að þörfum og reynslu nýs stjórnanda hverju sinni.
Hagnýtar upplýsingar
Mikilvægt er fyrir nýja stjórnendur að hafa greiðan aðgang að lykilupplýsingum varðandi rekstur ríkisstofnana og hlutverk stjórnandans. Hér er að finna almennar og hagnýtar upplýsingar er lúta að rekstri ríkisstofnana.
Móttaka
Fagráðuneyti ber ábyrgð á móttöku nýs forstöðumanns. Markmiðið er að ganga frá samningum og formsatriðum á skilvirkan hátt, kynnast nýjum stjórnanda og leggja þannig grunn að árangursríku samstarfi. Forstöðumaður skrifar undir skipunarbréf og erindisbréf hjá ráðherra.
Stuðningur
Fagráðuneyti og nýr stjórnandi bera sameiginlega ábyrgð á að skilgreina viðeigandi stuðning og ráðgjöf. Markmiðið er að veita nýjum stjórnanda stuðning, sniðinn að þörfum hvers og eins, þannig að viðkomandi geti eflt sig í stjórnendahlutverkinu á eigin forsendum. Dæmi um stuðning fyrir nýja stjórnendur er markþjálfun, mentorakerfi og annar stuðningur sem skilgreindur er í samræmi við þarfir og áherslur í ríkisrekstri hverju sinni.
Hagnýtar upplýsingar
Fjármála- og efnahagsráðuneyti (Kjara- og mannauðssýsla ríkisins) heldur úti lista yfir hagnýtar upplýsingar fyrir nýja forstöðumenn. Listanum hér að neðan er ætlað að auðvelda aðgengi nýrra stjórnenda að lykilupplýsingum er varðar rekstur ríkisstofnana og starfsumhverfi stjórnenda hjá ríkinu.
- Starfsumhverfi stjórnenda hjá ríkinu.
Hér er að finna upplýsingar um starfsumhverfi stjórnenda hjá ríkinu: stjórnendastefnu og grunnmat ásamt upplýsingum sem tengjast starfsþróun forstöðumanna s.s. stjórnendasamtöl og endurgjöf, þjálfun og aðstoð. - Mannauðsmál ríkisins hefur að geyma upplýsingar sem stjórnendur þurfa á að halda varðandi stjórnun mannauðsmála hjá ríkinu. Þar er að finna hagnýtar útskýringar, viðmið og sniðmát.
- Jafnréttismál
Jafnréttislög heyra undir skrifstofu jafnréttismála í Forsætisráðuneytinu. Hér er að finna kynningu á verkefnum skrifstofunnar, tengla á jafnréttislög og Jafnréttisstofu. - Jafnlaunavottun
Ríkisstofnanir með 25 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli eiga að vera með jafnlaunavottun. Hér er að finna helstu upplýsingar um jafnlaunavottunina, tengingar í lög og reglugerðir sem og verkfærakistu. Athugið að ríkisstofnanir geta notað hugbúnaðinn Emblu sem er beintengdur við Orra (launabókhald ríkisins). Leiðbeiningar um Emblu er að finna á heimasíðu Fjársýslunnar. Einnig veitir Kjara- og mannauðssýsla ríkisins ráðgjöf til stofnana um innleiðingu jafnlaunastaðalsins. - Innkaupamál
Ákveðnar reglur og viðmið gilda um opinber innkaup. Hér er að finna þær meginreglur er gilda við innkaup á vörum, þjónustu og verkum fyrir hönd ríkisins. Einnig tengingar á síðu Ríkiskaupa, lög, reglugerðir, viðmið um góða starfshætti í innkaupum og fyrirmynd að þjónustusamningum. - Skyldur og heimildir: Hér er að finna lista yfir lög og sérlög sem fjalla með einum eða öðrum hætti um skyldur og heimildir forstöðumanna ríkisstofnana:
-
- Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996
- Lög um opinber fjármál nr. 123/2015
- Lög um opinber innkaup nr. 120/2016.
- Lög um framkvæmd útboða nr. 65/1993
- Lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014
- Stjórnsýslulög nr. 37/1993
- Upplýsingalög nr. 140/2012
- Bókhaldslög nr. 145/1994
- Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 150/2020
- Lög um tímabundna ráðningu starfsmanna nr. 139/2003
- Lög um aðbúnað, hollustu hætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980
- Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynjabundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015 fjallar ma. um áhættumat skv. 65. gr. laga nr. 46/1980 (4. gr.), áætlun um heilsuvernd skv. 66. gr. laganna (5. gr.), skyldur atvinnurekanda (6. gr.) og aðgerðir atvinnurekanda (7. gr.)
- Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018
- Félag forstöðumanna ríkisins
Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) er félag allra forstöðumanna ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja sem fá laun samkvæmt grunnlaunaflokkun eða samkvæmt ákvörðun stjórnar ríkisstofnunar/ríkisfyrirtækis, sbr. 39. gr. a. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Félagið vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna sinna og er allar nánari upplýsingar um verkefni félagsins að finna á heimasíðu þess. - Lög um opinber fjármál
Markmið laga um opinber fjármál er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Grunnstoðir laganna eru þrjár: Fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög.
Nánari upplýsingar um lögin.
a. Stefnumótun
Við stefnumörkun í opinberum fjármálum skal ávallt hafa eftirfarandi grunngildi að leiðarljósi: Sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Hér er fjallað um Stefnuráð Stjórnarráðsins en það er samhæfingar- og samráðsvettvangur stjórnsýslunnar til að efla og bæta getu hennar til stefnumótunar. Einnig er hér að finna ítarlegt safn fræðsluefnis, verkfæra og sniðmáta til að vinna að stefnumótun.
b. AKRA er áætlanakerfi ríkisaðila
Hér er að finna upplýsingar um áætlanagerð, tímalínu og kynningarmyndbönd. Þeir sem sjá um rekstraráætlanir fá notendanafn og aðgangsorð að AKRA kerfinu hjá Fjársýslu ríkisins.
c. Fjársýslan - leiðbeiningar og verklagsreglur
Fjársýsla ríkisins gefur út fjölda leiðbeiningarrita, kennslumyndbanda og verklagsreglna til stofnana ríkisins varðandi fjárhagskerfi ríkisins Orra. - Persónuvernd
Þeir sem vinna með persónuupplýsingar bera ábyrgð á því að farið sé með þær í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd.
Vinnustofa fyrir nýja stjórnendur
Fjármála- og efnahagsráðuneyti (Kjara- og mannauðssýsla ríkisins) heldur vinnustofu fyrir nýja stjórnendur einu sinni til tvisvar á ári. Hver vinnustofa er um fjögurra til sex klukkustunda löng og lágmarksþátttaka eru fjórir nýir stjórnendur. Vinnustofunum er ætlað að efla tengsl nýrra stjórnenda og styrkja þá í stjórnunarhlutverki sínu. Innihald vinnustofanna er í samræmi við kjörmynd í stjórnendastefnu ríkisins. Efni vinnustofanna er sveigjanlegt þannig að þátttakendur hafa tækifæri til að hafa áhrif á efni og innihald. Hvatt er til umræðu og virkrar þátttöku.
Starfsumhverfi stjórnenda ríkisins
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.